Skip to main content
search

Plokkað í Snæfellsbæ um helgina í tilefni af Degi umhverfisins

Dagur umhverfisins er á næsta leyti og þá er tilefni til þess að taka á móti vorinu og fara út að hreyfa sig og fegra nærumhverfið. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hvetja íbúa til þess að plokka helgina 24. – 25. apríl.

Þann 25. apríl ár hvert er Degi umhverfisins fagnað víða um land, en dagurinn er tileinkaður umhverfinu sem hvatning til að tengjast náttúrunni og efla umhverfisvitund. Meðal þess sem landsmenn munu gera er að leggja leið sína út í náttúruna og tína rusl.

Íbúar í Snæfellsbæ eru hvattir til að taka þátt og gefa sér tíma til að fegra nærumhverfið sitt. Fagurgula og slitsterka poka undir plokk má nálgast í Hraðbúðinni á Hellissandi og afgreiðslu sundlaugarinnar í Ólafsvík. Það er Terra umhverfisþjónusta sem gefur pokana. Opið er á móttökustöð Terra frá kl. 11:00-15:00 á laugardaginn, en afrakstur plokksins má skilja eftir við gömlu slökkvistöðina á Hellissandi og áhaldahúsið í Ólafsvík reynist ekki unnt að koma því til Terra á opnunartíma.

Þá væri gaman ef íbúar merki myndir á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #snæfellsnesplokkar.

Þegar haldið er út að plokka er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Velja sér ákveðið svæði til að plokka – hvort sem það er í kringum húsið, í hverfinu, eða falleg gönguleið
  • Vera vel búin eftir veðri og með góða hanska, jafnvel ruslatínu
  • Virða samkomutakmarkanir og ekki hópa saman, aðeins plokka með “búbblunni”
  • Koma ruslinu á gámasvæðin eða þar sem sveitarfélögin taka við ruslinu
  • Gæta varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti eiga sig og ávallt að láta fullorðna vita ef að slíkt finnst.
  • Njóta náttúrunnar og samverunnar með fjölskyldunni