Skip to main content
search

Rappsmiðja með Reykjavíkurdætrum

Steinunn, Ragga Holm og Þura Stína koma á Barnamenningarhátíð Vesturlands. Ljósmynd: Reykjavíkurdætur.

Rappsmiðja með Reykjavíkurdætrum fyrir 7 – 15 ára krakka, laugardaginn 17. september.

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur kom eins og stormsveipur inn í íslenskt menningarlíf fyrir um áratug og vakti strax mikla athygli fyrir hispurslausa texta, óheflaða framkomu og sérstöðu sína sem hópur kvenna í íslenskri rappsenu. Frá árinu 2013 hefur hljómsveitin komið fram í yfir 20 löndum, spilað á öllum helstu hátíðum og viðburðum hérlendis og unnið til fjölda verðlauna, en má þá helst nefna hin virtu MME verðlaun á Eurosonic og viðurkenningu Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. 

Hljómsveitin hefur síðustu fjögur árin stefnt fleyi sínu á erlend mið en stimplaði sig rækilega inn að nýju í íslenskt tónlistarlíf með þátttöku sinni í Söngvakeppninni 2022.

Dæturnar hafa á sínum starfsferli, gefið út þrjár plötur og fjölda smáskífa auk þess sem þær hafa staðið fyrir námskeiðum í textasmíð og rappi fyrir börn og haldið fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis. Meðlimir sveitarinnar eru átta en það eru þær Ragga Holm, Þura Stína og Steinunn sem ætla að kenna ungum og upprennandi röppurum Snæfellsbæjar allt sem þær kunna um textasmíð og rapp.

Rappsmiðjan er hluti af Barnamenningarhátíð Vesturlands 2022 og er ókeypis fyrir þátttakendur. Skráning á námskeiðið hér.