Skip to main content
search

Sjómenn heiðraðir á Sjómannadaginn

Kristján Jóhannes Karlsson með blómvönd og heiðursmerki.

Sjómannadagurinn var að venju haldinn hátíðlegur í Snæfellsbæ um helgina og sjómenn heiðraðir fyrir störf sín í gegnum tíðina.

Heiðrunin fór fram í sjómannagörðum sveitarfélagsins; í Sjómannagarðinum í Ólafsvík voru Sigurður Höskuldsson og Björn Erlingur Jónasson heiðraðir en þeir hafa báðir verið til sjós í nær 50 ár og skipsverjar í 38 ár á Ólafi Bjarnasyni SH-137.

Í Sjómannagarðinum á Hellissandi var það Kristján Jóhannes Karlsson sem var heiðraður. Kristján er nýhættur til sjós eftir að hafa verið vélstjóri á ýmsum bátum í rúma hálfa öld, fyrst á Sveinbirni Jakobssyni SH-10 og síðar öðrum bátum.

Lesin voru ágrip um heiðurssjómennina áður en þeir fengu heiðursmerki í barminn og fallegan blómvönd. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru við þetta tilefni.

Björn Erlingur Jónasson og Sigurður Höskuldsson voru heiðraðir í Ólafsvík. Hér eru þeir með eiginkonum sínum Kristínu Vigfúsdóttur og Guðmundu Wiium.

Myndir: Alfons Finnsson og úr einkasafni.