Skip to main content
search

Sker restaurant opnar

Sker resturant opnaði um síðustu helgi í glæsilegu húsnæði við Ólafsbraut 19 í Ólafsvík. Undanfarna mánuði hefur húsnæðið verið tekið í gegn og breytt í veitingastað en áður var Smiðjan dagþjónusta og vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsgetu og þar áður hýsti húsnæðið Sparisjóð Ólafsvíkur.

Tókust breytingar á húsnæðinu mjög vel og er staðurinn allur hinn glæsilegasti. Staðurinn opnaði eins og áður segir um síðustu helgi og komu um 400 matargestir fyrstu tvo dagana, mest heimafólk og voru eigendur staðarins þau Lilja Hrund Jóhannsdóttir, Arnar Laxdal Jóhannsson og Bryndís Ásta Ágústsdóttir mjög ánægð með móttökurnar og leggst framhaldið vel í þau. Höfðu starfsmennirnir því í nógu að snúast þessa fyrstu tvo daga þó allt gengi vel fyrir sig og verður vonandi framhald á þessum mótttökum.

Matseðill staðarins er mjög fjölbreyttur og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda var lagt upp með það að sögn Lilju Hrundar en hún er einnig kokkur á staðnum. Má þar finna bæði steikur, fisk, pizzur og hamborgara ásamt sérstökum barnamatseðli svo dæmi séu tekin. Einnig er boðið upp á brunch allar helgar á milli 11:30 og 16:00 á laugardögum og sunnudögum. Vildu þau Lilja Hrund, Arnar og Bryndís Ásta koma á framfæri kæru þakklæti fyrir góðar móttökur og hlakkar þau til að halda áfram að þjónusta heimafólk.

Ljósmynd tók Þröstur Albertsson. Frétt tekin úr Bæjarblaðinu Jökli sem lesa má með því að smella hér.