Skip to main content
search

Snæfellsbær fær 60 milljónir króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Aðkoma og skipulag umhverfis styttuna af Bárði Snæfellsás á Arnarstapa verður bætt og fegrað.

Snæfellsbær fær 60 milljónir króna úthlutaðar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar á tveimur vinsælum ferðamannastöðum í Snæfellsbæ.

Framkvæmdasjóður styrkir þannig áframhaldandi uppbyggingu við Svöðufoss um 41,7 milljónir króna og fyrsta áfanga í heildaruppbyggingu ferðamannastaðar á Arnarstapa um 19 milljónir króna.

Svöðufoss

Styrkur er veittur til framkvæmda við áframhaldandi gönguleið frá núverandi áningarstað, uppsetningu á göngubrú yfir Laxá á Breið (Hólmkelsá) og útsýnispalli við fossinn. Uppbygging á þessum vinsæla áningarstað heldur því áfram og aðgengi að honum verður bætt auk þess viðkvæm náttúra verður vernduð. Styrkurinn hljóðar upp á 41,7 milljónir króna og er stærsti einstaki styrkur sem Snæfellsbær hefur hlotið úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Snæfellsbær hefur áður fengið úthlutað fjármunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til hönnunar og framkvæmdar við Svöðufoss og er ánægjulegt að sjá verkefnið fá áframhaldandi styrk.

Arnarstapi

Styrkur er veittur til framkvæmda á fyrsta áfanga í heildaruppbyggingu ferðamannastaðar á Arnarstapa sem hefur það markmið að bæta öryggi ferðamanna og verndun náttúru á viðkvæmu svæði. Fyrsti áfangi felst í að bæta aðkomu og skipulag umhverfis styttuna af Bárði Snæfellsás með því að leggja göngustíg frá bílastæði og útbúa dvalarsvæði við styttuna sjálfa sem tengist núverandi göngustíg sem liggur að ströndinni. Styrkurinn hljóðar upp á 19 milljónir króna.

Þjóðgarðurinn og landsáætlun um uppbyggingu innviða

Auk þess má nefna að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull fékk á sama tíma úthlutað fjármagni úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða upp á rúmar 100 milljónir króna og stefnir að framkvæmdum við eftirtalin verkefni á næstu tveimur árum:

  • Gönguleiðir innan þjóðgarðs – umbætur á gönguleiðum og leiðum fjölgað
  • Djúpalónssandur – endurbætt hringleið um svæðið. Skilti og utsýnispallur
  • Dritvík – lagfæring á gönguleið yfir í Dritvík
  • Jökulháls – skilti og merkingar
  • Malarrif – útsýnispallur og afþreytingarsvæði (leiksvæðið)
  • Saxhóll – móttöku og áningarstaður
  • Skarðsvík – bílastæðið – lagfæring og malbika
  • Svalþúfa – stækkun bílastæðis, göngustígar
  • Arnarstapa – deiliskipulag, endurbætur á göngustíg og útsýnispall
  • Búðir – aðkomusvæði og göngustígar