Skip to main content
search

Snæfellsbær hlýtur jafnlaunavottun

Snæfellsbær hefur hlotið jafnlaunavottun sem er staðfesting á því að jafnlaunakerfi Snæfellsbæjar samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85-2012. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti allra kynja á vinnumarkaði.

Það er stefna Snæfellsbæjar að tryggja að einstaklingar sem starfa hjá sveitarfélaginu hafi jöfn tækifæri í starfi, fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum. Með stefnunni er unnið markvisst gegn kynbundnum launamun, beinni eða óbeinni mismunun á grundvelli kyns og stuðlað að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði í samræmi við ákvæði laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með síðari breytingum.

Undanfarna mánuði hefur Rebekka Unnarsdóttir unnið að innleiðingu vottunarinnar með aðstoð frá Lilju Ólafardóttur og Kristínu Jónu Guðjónsdóttur auk ráðgjafar frá Attentus og úttektar frá vottunarstofunni iCert. Í byrjun júnímánaðar fékkst svo staðfesting þess efnis að jafnlaunakerfi Snæfellsbæjar samræmist kröfum staðalsins.

Niðurstaða úr launagreiningu sem Attentus framkvæmdi fyrir Snæfellsbæ sýnir að kynjadreifing meðal launamanna hjá Snæfellsbæ í úrtaksmánuði voru launamenn 198, sem skiptast þannig að karlmenn voru 23 á móti 175 konum. Markmið Snæfellsbæjar er að óútskýrður launamunur verði ekki meiri en 2%, en niðurstöður sýndu 2,9% óútskýrðan launamun körlum í vil. Þetta er innan skekkjumarka og nálægt þeim markmiðum sem Snæfellsbær hefur sett sér og er úrbótavinna þegar farin af stað og stefnt er að ná 2% markinu sem fyrst.