Skip to main content
search

Snæfellsbær veitir 90% afslátt af gatnagerðargjöldum vegna viðbygginga í þéttbýli

Bæjarstjórn samþykkti á bæjarstjórnarfundi þann 12. nóvember tillögu frá J-lista að veittur verði tímabundinn 90% afsláttur á gatnagerðargjöldum vegna viðbygginga við íbúðarhúsnæði í þéttbýli, sambærilegur þeim afslætti sem þegar hefur verið auglýstur vegna nýbygginga og sjá má hér.

Lækkun gatnagerðargjalda felur í sér mikinn sparnað fyrir húsbyggjendur og standa vonir til að veittur afsláttur styðji við uppbyggingu á nýjum íbúðarhúsum eða viðbyggingum við núverandi íbúðarhús og hvetji til byggingarframkvæmda í þéttbýliskjörnunum þremur. Með þessum hætti leggur Snæfellsbær sitt af mörkum til eflingar atvinnulífsins á svæðinu og kemur til móts við þá einstaklinga sem hafa hug á því að reisa hús, stækka núverandi húseign eða jafnvel reisa bílskúr.

Afsláttur vegna nýbygginga tekur til allra lausra íbúðarhúsalóða sem þegar eru tilbúnar til úthlutunar að undanskildum lóðum við Fossabrekku 5 – 15 í Ólafsvík og lóðum við Háarif A-H í Rifi. Afsláttur vegna viðbygginga stendur öllum húseigendum til boða.

Afslátturinn tekur gildi nú þegar og gildir til 31. maí 2021.