Skip to main content
search

Snæfellsjökulshlaupið verður um helgina

Snæfellsjökulshlaupið verður haldið í níunda skipti n.k. laugardag, 29. júní. Sem fyrr hefst hlaupið á Arnarstapa kl. 12 á hádegi og búast má við fyrstu keppendum í mark í Ólafsvík um 90 mínútum síðar.  Vakin er athygli á því að Ólafsbraut verður lokuð að hluta rétt á meðan þátttakendur skila sér í mark.

Snæfellsjökulshlaupið hefur vakið mikla athygli frá því það var haldið fyrst og er hlaðið viðurkenningum. Það er jafnan talað um það sem eitt af skemmtilegri hlaupum landsins og hefur það verið kosið eitt af þremur bestu utanvegahlaupum landsins skv. kosningu á vefsíðunni hlaup.is í fimm af þessum árum, þ.á m. besta utanvegahlaup landsins 2012 og 2016.

Hlaupið er um 22 km leið í einstakri náttúrufegurð; frá Arnarstapa, yfir Jökulhálsinn og til Ólafsvíkur. Fyrstu átta kílómetrana er hækkun um ca. 700 metra en eftir það tekur hlaupaleiðin að lækka smá þar til komið er á jafnsléttu við Ólafsbraut í Ólafsvík.

Áhugasamir geta skráð sig til leik með því að smella hér, forskráning opin til fimmtudags 27. júní. Einnig hægt að skrá sig á staðnum.

Áfram Rán og Fannar!

Ljósmynd fengin af Facebook-síðu Snæfellsjökulshlaupsins.