Skip to main content
search

Snæfellsk fyrirtæki áberandi á Mannamótum

Mannamót, árleg ferðasýning sem Markaðsstofur landshlutanna halda í samvinnu við flugfélagið Erni og Isavia, fór fram í Kórnum í Kópavogi í gær. Markmið Mannamóta er að veita ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni vettvang til að kynna þjónustu sína og vöruframboð fyrir ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu og koma á fundum fagaðila í greininni.

Mannamót eru ætíð vel sótt af ferðaþjónustufyrirtækjum frá Vesturlandi, en rúmlega fjörutíu vestlensk fyrirtæki voru í Kórnum í gær. Tæpur helmingur þeirra kom frá Snæfellsnesi og sjö úr Snæfellsbæ. Mikill samhugur var í snæfellskum ferðaþjónum fyrir sýninguna og ákveðið var í undirbúningi hennar að snæfellsk fyrirtæki kæmu fram undir sameiginlegum formerkjum til að undirstrika þá grósku sem er að finna á svæðinu og koma þeim skilaboðum áleiðis að hér sé hægt að dvelja allt árið um kring. Má segja að Snæfellsnes hafi vakið mikla athygli gesta og ferðaskipuleggjenda og höfðu ófáir á orði að svæðið hefði með þessu sameiginlega kynningarátaki verið hvað mest áberandi af landshlutunum öllum og „sigurvegarar dagsins,“ eins og góður hópur manna að norðan vildi meina.

Snæfellsk fyrirtæki á Mannamótum:

Sjávarpakkhúsið, Sæferðir, Ocean Adventures, Sker restaurant, Bjarnarhöfn, Frystiklefinn, Langaholt, Rjúkandi, Norska húsið, Sagnaseiður, Söðulsholt, Go West, Narfeyrarstofa, Summit Adventure Guides, Hjá Góðu fólki, Stóri Kambur, Snæfellsnes Excursions, Sjóminjasafnið á Hellissandi, Lúðvík Karlsson, Fosshótel Stykkishólmi og Kontiki Kayaking.