Skip to main content
search

Styrkjum úthlutað til uppbyggingar ferðamannastaða innan Snæfellsbæjar

Snæfellsbær fékk í dag úthlutað fjármunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til áframhaldandi uppbyggingar við Svöðufoss.

Styrkurinn er veittur til hönnunar á áframhaldandi gönguleið frá núverandi áningarstað, göngubrú yfir Laxá á Breið (Hólmkelsá) og útsýnispalli við fossinn. Uppbygging á þessum vinsæla áningarstað heldur því áfram og aðgengi að honum verður bætt auk þess viðkvæm náttúra verður vernduð. Styrkurinn hljóðar upp á 3,28 milljónir króna.

Snæfellsbær hefur áður fengið úthlutað fjármunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til hönnunar og framkvæmdar við Svöðufoss og er ánægjulegt að sjá verkefnið fá áframhaldandi styrk. Verkefni fá alla jafna ekki áframhaldandi styrkveitingu nema öll skilyrði fyrri styrkveitinga hafi verið uppfyllt og framkvæmdum lokið með fullnægjandi hætti.

Í dag var einnig úthlutað fjármunum úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum til ársins 2022. Þar er ráð fyrir að töluverðir fjármunir verði lagðir í áframhaldandi uppbyggingu gönguleiða, útsýnispalla og bílastæða innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls.

Verkefnin eru eftirfarandi:

  • Öndverðarnes: Bættur göngustígur, 2,0 millj. kr.
  • Skarðsvík: Stækkun og malbikun bílastæðis – 15,0 millj. kr.
  • Saxhóll: Bætt bílastæði, útsýnispallur og merkingar – 25,8 millj. kr.
  • Djúpalónssandur: Endurnýjun salerna við Djúpalónssand, merkingar, bætt gönguleið (hringleið) og hlaðnir útsýnispallar – 20,0 millj. kr.
  • Dritvík: Lagfæring og viðhald á göngustíg milli Djúpalónssands og Dritvíkur – 12,0 millj. kr
  • Malarrif: Framkvæmdir við gestastofu, m.a. malbikun bílastæðis, áningastaðir. Uppbygging áningastaðar við Malarrifsvita- 43,8 millj. kr.
  • Svalþúfa: Útsýnispallur, öryggisgirðingar og merkingar – 9,5 millj. kr.
  • Arnarstapi – Hellnar: Tveir útsýnispallar, endurbætur og viðhald innviða, frágangur göngustíga og merkingar – 34,0 millj. kr.
  • Búðir (friðland): Gönguleiðir um hraunið, endurnýjun merkinga – 3,5 millj. kr. 
  • Gönguleiðir í Þjóðgarði: Umbætur á gönguleiðakerfi, leiðum fjölgað og merkingar bættar – 9,6 millj. kr.