Skip to main content
search

Sundlaug og íþróttahúsi lokað samkvæmt tilmælum Almannavarna

Sundlaug og íþróttahús Snæfellsbæjar hafa lokað skv. tilmælum Almannavarnar eftir að hertar takmarkanir voru settar á samkomur á landinu öllu nú um helgina. Takmarkanir gilda til 12. apríl nk., en stjórnvöld endurmeta takmörkunina eftir því sem efni standa til, hvort heldur til að aflétta henni fyrr, eða framlengja gildistímann. 

Heilbrigðisráðherra kynnti um helgina, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, ákvörðun um að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum.

Helstu áhrif frekari takmörkunar:

  • Allar fjöldasamkomur þar sem fleiri en 20 manns koma saman eru óheimilar meðan takmörkunin er í gildi. Á það jafnt við hvort sem fólk kemur saman í opinberum rýmum eða einkarýmum.
  • Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.
  • Á öllum vinnustöðum eða þar sem önnur starfsemi fer fram skal vera tryggt að ekki séu fleiri en 20 einstaklingar í sama rými. Þessar takmarkanir eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilega starfsemi.
  • Sérstakar reglur gilda um matvöruverslanir og lyfjabúðir. Þar verður heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu, að því gefnu að hægt sé að halda a.m.k. 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.
  • Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum skal lokað á meðan á þessum takmörkunum stendur.
  • Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð er óheimil. Þar undir fellur allt íþróttastarf og einnig allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, s.s. skíðalyftur.

Nánar má lesa á vef Stjórnarráðsins: