Skip to main content
search

Tímabundin lækkun á hámarkshraða við Rif vegna kríuvarps

Nýtt skilti við Rif sem varar við varplandi fugla í nágrenninu. Sett upp í morgun, 27. maí 2020.

Hámarkshraði á þjóðveginum/Útnesvegi við Rif verður lækkaður tímabundið í sumar vegna kríuvarps og er unnið að því að setja upp skilti þess efnis nærri Rifi þessa dagana.

Kríuungar sækja í þurrt og heitt malbikið á veginum og borið hefur á því undanfarin ár að keyrt hafi verið á óheyrilegt magn af þeim á veginum milli Rifs og Hellissands. Snæfellsbær hefur unnið að lausn á málinu með Vegagerðinni sem hefur umsjón með veginum. Samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar verður hámarkshraði lækkaður úr 90 km/klst. í 70 km/klst. á vissum vegkafla á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst ár hvert. Útmörk svæðis sem lækkun á hámarkshraða tekur til má sjá á meðfylgjandi mynd hér að neðan.

Kríuvarpið er breytilegt frá ári til árs og jafnvel frá mánuði til mánuðar þannig að merkingar koma líklega til með að færast eitthvað til á hverju tímabili en útmörk svæðisins haldast óbreytt. Starfsmenn Vegagerðarinnar meta aðstæður hverju sinni.

Lækkun hámarkshraða á vegkaflanum er liður í áætlun vegna verndun fuglalífs á Rifi og með bættum merkingum og tímabundnum takmörkunum á hraða er vonast til að hægt sé að bjarga lífi hundruða kríuunga.