Skip to main content
search

Tveir frisbígolfvellir settir upp í Snæfellsbæ

Í sumar voru settir upp tveir glæsilegir frisbígolfvellir í Snæfellsbæ; einn í Ólafsvík og annar á Hellissandi.

Vellirnir eru báðir níu holur og tilbúnir til notkunar þó enn eigi eftir að ljúka við frágang á skiltum og merkingum, en það verður gert á næstu vikum. 

Frisbígolf er íþrótt og fjölskylduvæn dægrastytting sem nýtur sífellt meiri vinsælda hér á landi, en það er í samræmi við það sem er að gerast um allan heim. Markmið leiksins er að koma frisbígolfdiski í mark í sem fæstum köstum. Markið er eins konar karfa sem diskurinn á að lenda í, sbr. karfan á ljósmyndinni sem fylgir fréttinni og var tekin á vellinum í Ólafsvík.

Frisbígolfvellirnir eru opnir allan sólarhringinn þannig að þeir sem eiga frisbígolfdiska geta að sjálfsögðu stundað þessa íþrótt þegar þeim hentar. Vellirnir eru báðir staðsettir nálægt tjaldsvæðum og bætast í fjölbreytta flóru afþreyingarmöguleika fyrir íbúa og gesti á svæðinu. Vellirnir eru báðir innan skógræktarsvæðis og þar er viðkvæmur gróður, bæði smáar trjáplöntur og mosi og því er mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Forðumst að ganga á mosanum, tökum frekar smá krók. 

Eru bæjarbúar hvattir til að nýta sér aðstöðuna og prófa þessa skemmtilegu íþrótt sem hægt er að stunda á öllum aldri.

Námskeið í næstu viku

Í næstu viku, sunnudaginn 3. október, verður námskeið á vellinum í Tröð á Hellissandi með Árna Sigurjónssyni frá Frisbígolfbúðinni. Á námskeiðinu fer hann yfir það helsta hvernig frisbígolfdiski er kastað og hvernig íþróttinni er háttað. Námskeiðið er hluti af Heilsudögum Snæfellsbæjar og stendur öllum til boða endurgjaldslaust.

Ólafsvík:

Frisbígolfvöllurinn er við tjaldsvæðið í Ólafsvík. Völlurinn er níu holur og í styttra lagi, en krefjandi. Spilað er í votlendi og í gegn um skógrækt. Hér að neðan má sjá teikningu af brautum í Ólafsvík:

Hellissandur:

Frisbígolfvöllurinn er í Tröð við Hellissand. Völlurinn er níu holur, mjög stuttur og þéttur og því tilvalinn fyrir byrjendur og til að æfa stutt köst. Hér að neðan má sjá teikningu af brautum á Hellissandi:

Leikreglur

Leikreglur eru einfaldar, folf er spilað líkt og hefðbundið golf nema með frisbídiskum. Köstin sem tekur að koma diskinum í körfuna eru talin og takmarkið er að fara allar brautir í sem fæstum köstum. Fyrsta kast er tekið af merktum teig og er það næsta tekið þar sem diskurinn liggur og þarf sá fótur sem er nær körfu að vera þar sem diskurinn lá. Skipta má um diska á milli kasta. Sá spilari sem lengst er frá körfu tekur fyrsta kast. Tillitssemi er stór hluti af leiknum. Sanngjarnt er að mótspilari þinn fái að kasta án truflunar, það sama myndir þú vilja. Ekki kasta fyrr en þú ert viss um að flug disksins og lending hans trufli ekki hina spilarana. 

Nánari upplýsingar um frísbígolf og staðsetningu valla má finna inn á heimasíðu íslenska frisbígolfsambandsins.