Skip to main content
search

Vatnsrennibraut væntanleg í sundlaugina í Ólafsvík

Tölvuteikning af vatnsrennibrautinni.

Snæfellsbær heldur áfram uppbyggingu innviða við sundlaugar og íþróttamannvirki Snæfellsbæjar og hefur fest kaup á glæsilegri vatnsrennibraut sem verður sett upp við sundlaugina í Ólafsvík í sumar.

Rennibrautin verður vegleg, um sjö metrar að hæð og 54 metrar að lengd, og kemur frá traustum og öruggum framleiðanda, Polin Waterparks. 

Framkvæmdir við jarðvegsvinnu og undirstöður rennibrautarinnar eru þegar hafnar og ganga vel. Stefnt er að því að klára uppsetningu rennibrautarinnar um miðbik sumars og ef allt gengur eftir verður hægt að hleypa vatni á hana í byrjun júlí.

Meðfylgjandi eru nokkrar tölvuteiknaðar myndir sem sýna hvernig rennibrautin kemur til með að líta út á lóðinni. Þess má geta að rennibrautin verður í sama rauða lit og má finna á húsnæði sundlaugarinnar, ekki þessum græna sem má sjá á nokkrum myndanna hér.