Snæfellsbær hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2018
Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá 1995 og eru nú í þriðja sinn veitt fyrir verkefni sem hlotið hafa styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða og eru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun og gæði hönnunar og skipulags.
Snæfellsbær hlaut einmitt styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi að Bjarnarfossi í sátt við umhverfi staðarins, m.a. með því að gera bílastæði, göngubrú, áningastað og skilti. Markmið styrkveitingar fólst í því að vernda viðkvæma náttúru og auka aðgengi ferðamanna að fossinum allt árið um kring. Verkið var unnið á árunum 2015 - 2016 og er gott dæmi um hvernig heimafólk og sveitarfélag, með liðsinni Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, hafa unnið faglega að uppbyggingu áningarstaðar þar sem allir geta notið fallegrar náttúru. Staðurinn er nú aðgengilegur allt árið.
Það er afar ánægjulegt að sjá verkefni sem unnið er á vegum sveitarfélagsins hljóta svona glæsilega viðurkenningu og setja um leið gott fordæmi fyrir framkvæmdir við ferðamannastaði á landsvísu. Þá má einnig minna á að hönnun tröppustígs á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, sem liggur innan marka Snæfellsbæjar, hlaut nýverið virt alþjóðleg verðlaun í landslagsarkitektúr.
Nánar á vef Ferðamálastofu