Bæjarráð

Fundargerð bæjarráðs
318. fundur
26. nóvember 2020 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 11:30 – 12:30

Fundinn sátu: Júníana B. Óttarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir bæjarritari.

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir bæjarritari.

Sækja fundargerð

Formaður bæjarráðs setti fund og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.  Óskaði hún eftir að fá að taka inn með afbrigðum sem 14. lið, bréf frá Hauði ehf., dags. 25. nóvember 2020, varðandi forkaupsrétt að bát, og sem 15. lið áskorun á Reykjavíkurborg varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélagaVar það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.  

Dagskrá:

1. Bréf frá byggingarfulltrúa, dags. 13. nóvember 2020, varðandi framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara frá Hellissandi að Gufuskálum. 

Lagt fram til kynningar. 

2. Bréf frá byggingarfulltrúa, dags. 13. nóvember 2020, varðandi framkvæmdaleyfi fyrir lagningu útivistarstígs norðan Keflavíkurgötu. 

Lagt fram til kynningar. 

3. Bréf frá bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, dags. 23. nóvember 2020, varðandi kynningu á fjármögnun stafrænnar þróunar. 

Bæjarráð samþykkti samhljóða að taka þátt í þessu verkefni. 

4. Bréf frá Breiðafjarðarnefnd, dags. 23. nóvember 2020, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um samantekt og niðurstöður Breiðafjarðarnefndar um framtíð Breiðafjarðar. 

Bæjarráð samþykkti samhljóða að vísa erindinu til næsta bæjarstjórnarfundar. 

5. Heimild til að taka lán frá Lánasjóði sveitarfélaga að upphæð 120 millj. króna. 

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir hér með á fundi sínum að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 120.000.000.-,  með lokagjalddaga þann 05.04.2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.  

Bæjarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  

Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdir ársins 2019 sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. 

Jafnframt er Kristni Jónassyni, bæjarstjóra, kt. 300965-3779, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Snæfellsbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns. 

6. Bréf frá Nesver ehf., dags. 18. nóvember 2020, varðandi forkaupsrétt Snæfellsbæjar að Tryggva Eðvarðs SH-2. 

Bæjarráð samþykkti samhljóða að falla frá forkaupsrétti að bátnum Tryggva Eðvarðs SH-2. 

7. Bréf frá Stígamótum, dags. 9. nóvember 2020, varðandi beiðni um framlag á árinu 2021. 

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu að svo stöddu. 

8. Bréf frá leikskólastjóra, dags. 18. nóvember 2020, varðandi tillögu um opnun/lokun leikskóla Snæfellsbæjar á milli jóla og nýárs 2020. 

Leikskólastigið er þjónusta við íbúa sveitarfélagsins, enda er leikskóli valkvæður á meðan grunnskóli er það ekki.  Vinnutími kennara er skilgreindur í kjarasamningum, þar sem ekki er gert ráð fyrir vinnuskyldu á ákveðnum tímum ársins, á meðan vinnutími annarra starfsmanna, þ.m.t. SDS starfsmanna og leikskólakennara, gerir ráð fyrir vinnuskyldu alla virka daga ársins.  Það er því ekki alveg raunhæft að bera saman skólastigin á þennan hátt. 

Bæjarráð fellst ekki á tillögu leikskólastjóra um að loka leikskólanum milli jóla og nýárs að svo stöddu. Á meðan það er eftirspurn frá foreldrum og frá atvinnulífinu eftir þjónustu leikskólans þá teljum við það vera skyldu bæjarfélagsins að veita þá þjónustu. 

Hins vegar tekur bæjarráð heilshugar undir það hversu mikilvægt það er að skapa fjölskylduvænna samfélag með tækifærum til jákvæðrar samveru foreldra og barna.  Bæjarráð samþykkti því samhljóða að fela leikskólastjórnendum að gera könnun meðal foreldra þar sem þeir þurfa að láta vita fyrir 10. desember hvort barn þeirra mæti í leikskólann eða ekki á þessum tíma milli jóla og nýárs.  Bæjarráð samþykkti jafnframt að veita afslátt af leikskólagjöldum sem svarar þeim dögum sem ekki eru nýttir, 1-3 eftir atvikum, og hvetja þannig til aukinnar samveru milli foreldra og barna.

Með þessu telur bæjarráð að leikskólastjórnendur geti hagað skipulagi leikskólans á þann veg milli jóla og nýárs að hægt sé að veita lágmarksþjónustu, börn og starfsfólk fljótandi milli deilda, og þannig gefið starfsfólki möguleika á aukafríi á þessum tíma. 

9. Niðurstaða atkvæðagreiðslu um vinnutímasamkomulag í leikskóla Snæfellsbæjar. 

Bæjarráð samþykkti samhljóða að hafna vinnutímasamkomulaginu eins og það er lagt fyrir og vísa því aftur til vinnutímanefndar leikskólans. 

Ástæður höfnunarinnar eru þær að bæjarráð telur tillöguna ekki samræmast þeim forsendum sem gefnar voru við samþykktina um styttingu vinnuvikunnar.  Forsendurnar voru þær að þjónusta yrði ekki skert og að enginn aukakostnaður félli til.  Í fyrirliggjandi tillögu kemur hvoru tveggja til, skert þjónusta og aukinn kostnaður í formi lægri leikskólagjalda.  Að auki telur bæjarráð að hugmyndin með styttingu vinnuvikunnar sé einmitt sá, að stytta vinnuVIKUNA, ekki búa til aukinn fjölda orlofsdaga yfir árið.  Gengið er útfrá því að styttingin sé tekin vikulega, hálfsmánaðarlega, eða innan mánaðar. 

Bæjarráð ítrekar að stytting vinnuvikunnar felur í sér vinnu og samtal milli stjórnenda og starfsfólks, þar sem komist er að samkomulagi um hvernig hægt er að skipuleggja vinnuna betur þannig að hægt sé að stytta vinnuvikuna. 

10. Tillaga að fjárfestingum Snæfellsbæjar á fjárhagsáætlun 2021. 

Bæjarráð staðfesti tilllögu að fjárfestingum Snæfellsbæjar og samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til seinni umræðu í bæjarstjórn. 

11. Tillaga að fjárfestingum hafnarsjóðs Snæfellsbæjar á fjárhagsáætlun 2021. 

Bæjarráð staðfesti tilllögu að fjárfestingum hafnarsjóðs Snæfellsbæjar og samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til seinni umræðu í bæjarstjórn. 

12. Tillaga að styrkveitingum á fjárhagsáætlun 2021. 

Bæjarráð staðfesti tilllögu að styrkveitingum fyrir árið 2021 og samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til seinni umræðu í bæjarstjórn. 

13. Tillaga að gjaldskrám Snæfellsbæjar árið 2021. 

Bæjarráð staðfesti tilllögu að gjaldskrám Snæfellsbæjar fyrir árið 2021 og samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til seinni umræðu í bæjarstjórn. 

14. Bréf frá Hauði ehf., dags. 25. nóvember 2020, varðandi forkaupsrétt Snæfellsbæjar að Ás SH-764. 

Bæjarráð samþykkti samhljóða að falla frá forkaupsrétti að bátnum Ás SH-764. 

16. Afskriftarbeiðnir frá Sýslumanninum á Vesturlandi.  TRÚNAÐARMÁL. 

Bæjarráð tók fyrir og samþykkti samhljóða afskriftarbeiðnir frá Sýslumanninum á Vesturlandi nr. 201912111340007, 202002051333494, 202009151345350, 202010141413399, 202010291007287, 202010291059571, 202011021403186, 202011021418172, 202011021448333, 202011041345173, 202011041401414, 202011041452423 og 202011051015404.  Sjá trúnaðarmálabók. 

15. Áskorun á Reykjavíkurborg varðandi Jöfunarsjóðs sveitarfélaga. 

Bæjarráð Snæfellsbæjar harmar þá stöðu sem upp er komin í málefnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Reykjavíkurborg virðist ætla að halda til streitu kröfu á hendur Jöfnunarsjóði upp á um 8,7 milljarða króna fyrir meint vangoldin framlög úr sjóðnum. Þessari kröfu hefur þegar verið hafnað af hálfu ríkisins. 

Ljóst er hins vegar að muni krafan ná fram að ganga þá eru það sveitarfélögin í landinu, í gegnum Jöfnunarsjóð, sem á endanum munu greiða kröfuna í formi skertra framlaga til þeirra eins og fyrri kröfur sem lent hafa á sjóðnum. Með því er ljóst að fjárhagsleg framtíð sveitarfélaga í landinu er í uppnámi sem og framtíð þess jöfnunarkerfis sem hingað til hefur verið sátt um á meðal sveitarfélaga landsins. Mörg sveitarfélög treysta að miklu leyti á framlög Jöfnunarsjóðs til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem þeim eru falin og því ljóst að skerðing á framlögum til þeirra í gegn um jöfnunarkerfið mun gera mörgum sveitarfélögum ókleift að sinna þessum verkefnum. Það mun leiða til þess að þjónusta við íbúana mun skerðast verulega frá því sem nú er. 

Flest sveitarfélög landsins takast nú á við mjög erfiða fjárhagsstöðu á árinu 2020 og jafnframt er flestum þeirra mikil áskorun að ná endum saman við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Nái krafa höfuðborgar Íslands, sem byggð hefur verið upp af hálfu ríkisins og skattborgara landsins alls sem miðstöð stjórnsýslu, menningar, íþrótta og lista, fram að ganga er ljóst að rekstur sveitarfélaga landsins er í uppnámi um komandi framtíð. 

Bæjarráð Snæfellsbæjar skorar á Reykjavíkurborg að draga kröfu sína til baka og leita annarra leiða gagnvart ríkisvaldinu til að ná fram þeirri leiðréttingu sem borgin telur sig eiga rétt á en í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þar með gagnvart sveitarfélögunum í landinu, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra. Bæjarráð skorar jafnframt á önnur sveitarfélög landsins að taka undir bókunina og gera að sinni. 

17. Minnispunktar bæjarstjóra. 

  • Bæjarstjóri sagði frá viðræðum við Vegagerðina um sæluhúsið á Fróðárheiði. 
  • Bæjarstjóri sagði frá aðalskipulagsmálum á Hellnum. 

Fundi slitið kl. 12:30