Bæjarstjórn

Bæjarstjórn
340. fundur
17. desember 2020 frá kl. 12:00 – 13:33

Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Sækja fundargerð

Dagskrá:

Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna. Óskaði hann eftir því að fá að taka inn með afbrigðum sem 10. lið vinnutímatillögu dagvinnufólks á Jaðri. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.

1. Fundargerð 144. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 16. desember 2020.

Fyrir fundinum liggja athugasemdir sem komu fram vegna lýsingar á fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu á Hellnum, ásamt svörum við þeim. Bæjarstjórn fór í gegnum svörin og gerir ekki athugasemdir við þau.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð 189. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 8. desember 2020.

Lagt fram til kynningar.

3. Fundargerð 892. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. desember 2020.

Lagt fram til kynningar.

4. Skýrsla starfshóps um stöðu og framtíð úrgangsmála á Vesturlandi.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf frá SSV, dags. 13. desember 2020, varðandi mögulega aðild Kjósarhrepps að Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar er jákvæð fyrir því að hefja samningaviðræður um mögulega aðild Kjósarhrepps að Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

6. Bréf frá Breiðafjarðarnefnd, dags. 23. nóvember 2020, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um samantekt og niðurstöður Breiðafjarðarnefndar um framtíð Breiðafjarðar. Frestað frá síðasta fundi.

„Bæjarstjórn Snæfellsbæjar tekur undir með Breiðafjarðanefnd að það sé tímabært að lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995 verði endurskoðuð.  Bæjarstjórn leggur áherslu á að endurskoðun á lögunum fari fram í ​ítarlegu samráði ​við sveitarfélög, íbúa og hagsmunaaðila við Breiðafjörð.  Því er mikilvægt að í nefndinni sem falið verði það hlutverk verði fulltrúar af svæðinu strax í upphafi þeirrar vinnu. Þannig geti sveitarstjórnir og íbúar myndað sér upplýsta skoðun og tekið þátt í mótun framtíðar Breiðafjarðar.

Hvað varðar aðrar tillögur Breiðafjarðarnefndar, þá tekur bæjarstjórn ekki afstöðu til þeirra tillagna að svo stöddu. Bæjarstjórn telur mikilvægt að skoðað verði ítarlega hverjir kostir og gallar þeirra eru svo íbúar, hagsmunaaðilar og sveitarfélög við Breiðafjörð geti myndað sér upplýsta skoðun. Mikilvægt er að tilgangur og ávinningur þess að fara í slíkar breytingar sé mjög skýr,þannig ætti að nást góð samstaða um breytingar ef af verður.  Breiðafjörður er einstök heild með fjölbreytt og auðugt náttúrufar.  Auðlindir svæðisins eru einstakar og eru þær undirstaða menningar, atvinnu og mannlífs við Breiðafjörð.  Því er mikilvægt að allar þær tillögur sem teknar verða til skoðunar séu unnar í fullu samráði við sveitarfélögin, íbúa og hagsmunaaðila við Breiðafjörð.“

Ofangreind bókun samþykkt samhljóða.

7. Félagsmiðstöð unglinga í Snæfellsbæ. Niðurstöður vettvangsferðar.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að færa félagsmiðstöð unglinga í Líkn á Hellissandi.  Miðað verður við að flutningurinn fari fram sem fyrst á nýju ári.

8. Vinnutímatillaga Grunnskóla Snæfellsbæjar vegna styttingar vinnuvikunnar.

Bæjarstjórn samþykkti vinnutímatillöguna samhljóða.

9. Vinnutímatillaga Ráðhúss Snæfellsbæjar vegna styttingar vinnuvikunnar.

Bæjarstjórn samþykkti vinnutímatillöguna samhljóða.

10. Vinnutímatillaga dagvinnufólks á Jaðri vegna styttingar vinnuvikunnar.

Bæjarstjórn samþykkti vinnutímatillöguna samhljóða.

11. Minnispunktar bæjarstjóra.

  • Bæjarstjóri sagði frá nýrri skýrslu Byggðastofnunar um fjölgun á störfum á landsbyggðinni. Í kjölfarið kom eftirfarandi bókun frá bæjarstjórn:

„Byggðastofnun hefur nýlega gefið út skýrslu um fjölgun opinberra starfa úti á landi.  Skýrslan gefur til kynna að opinberum stöfum úti á landi sé sífellt að fjölga, og er það fagnaðarefni, þó alltaf megi gera betur.  Opinber störf eru stöðugildi sem greidd eru af Fjársýslu ríksins, opinberum hlutafélögum og stofnunum og þeim stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur lagt sitt af mörkum til að verja þau opinberu störf sem eru í sveitarfélaginu ásamt því að hvetja til þess að þeim sé fjölgað enn frekar.  Uppbygging innviða í Snæfellsbæ undanfarin ár, kallar á enn frekari fjölgun starfa.

Miklu skiptir að öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sé til staðar.  Markmiðið er  alltaf að hvetja til nýsköpunar í sveitarfélaginu, bæði hjá atvinnurekendum, einstaklingum og hinu opinbera, og efla þannig fjölbreytni í atvinnulífi og auka lífsgæði íbúa.

Snæfellsbær hefur undanfarið staðið í töluverðri uppbyggingu innviða, meðal annars með því að ljósleiðaravæða dreifbýli bæjarfélagsins, ásamt því að ýta á að þéttbýlið sé jafnframt ljósleiðaravætt.  Ljósleiðaravæðingin gerir það að verkum að nú er það orðið raunhæfur möguleiki að bjóða upp á störf án staðsetningar.  Til að ýta undir þá þróun hefur Snæfellsbær látið útbúa nokkurs konar fjarvinnslusetur, á efri hæð Félagsheimilisins Rastar á Hellissandi, þar sem fólk getur leigt sér vinnuaðstöðu. Er sú vinna á lokametrunum og styttist í að aðstaðan þar komist í gagnið.

Ljósleiðaravæðingin hefur þegar skilað okkur störfum í sveitarfélagið. Bæði hafa menntaðir einstaklingar, fæddir og uppaldir í Snæfellsbæ, komið heim og getað unnið við sitt fag í sínum heimabæ, en jafnframt hafa erlendir aðilar flutt í bæjarfélagið og tekið störfin með sér hvaðan að úr heiminum.  Með öflugri nettengingu hefur fólk möguleikann á því að velja sér búsetu sem heillar óháð atvinnu.

Bæjarstjórn gerir sér grein fyrir því að þetta verkefni er eitthvað sem er í stöðugri endurskoðun og þróun og mun áfram leggja sitt af mörkum að störfum fjölgi í sveitarfélaginu, ásamt því að verja þau störf sem fyrir eru  og efla aðstöðu til atvinnu á svæðinu.“

  • Bæjarstjóri sagði frá ljósleiðaravæðingu í þéttbýli Snæfellsbæjar.

Fundi slitið kl. 13:33