Fundargerð bæjarstjórnar
307. fundur
11. apríl 2018 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 16:00 – 19:30
Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Kristjana Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Kristján Þórðarson, Kristinn Jónasson bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir bæjarritari.
Gestir: Kristinn Kristófersson og Marínó Mortensen frá Deloitte.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir bæjarritari.
Dagskrá:
Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna og þá sér í lagi Guðmund Ólafsson sem er að sitja sinn fyrsta bæjarstjórnarfund. Bauð hann einnig gesti fundarins velkomna. Óskaði hann eftir að fá að taka inn með afbrigðum sem 1. lið fundargerð 295. fundar bæjarráðs frá 11. apríl 2018. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.
1. Fundargerð 295. fundar bæjarráðs, dags. 11. apríl 2018.
Fundargerð bæjarráðs var lögð fram og samþykkt samhljóða.
2. Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2017.
Frá Deloitte mættu Kristinn Kristófersson og Marínó Mortensen og voru þeir boðnir velkomnir.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.
Fóru þeir Kristinn og Marínó yfir helstu tölur í ársreikningi 2017. Kom þar fram að rekstur Snæfellsbæjar hafi gengið vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 262,9 millj. króna í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta.
Athygli vekur að útsvar er nánast það sama milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 var útsvarið 909,1 millj. króna en árið 2017 var útsvarið 909,4 millj. króna. Ástæðu þessarar jákvæðu rekstrarniðurstöðu er að rekja til mun hærri framlaga til Snæfellsbæjar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 392,6 millj. króna sem var í takt við áætlun Jöfnunarsjóðs í byrjun árs 2017, en niðurstaðan varð hins vegar framlög upp á 522,1 millj. króna.
Segja má að rekstur Snæfellsbæjar hafi verið nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og forstöðumönnum til sóma.
Helstu lykiltölur ársreiknings eru taldar hér:
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.314,2 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.108,4 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.876 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.670 millj. króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 262,9 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 31,4 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 294,3 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 137,1 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 47,4 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 184,5 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.311 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.550 millj. króna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.153,4 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 136 stöðugildum í árslok.
Veltufé frá rekstri var 237 millj. króna og veltufjárhlutfall er 0,93. Handbært frá rekstri var 245 millj. króna.
Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.870 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.072 millj. króna í árslok 2017. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.320 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.761 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 112 milljónir.
Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.549,8 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 3.311 millj. króna í árslok 2017. Eiginfjárhlutfall er 65,89 % á á árinu 2017 en var 65,92% árið áður.
Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 535 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán á árinu 2017 upp á 220 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 143,9 milljónir.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 62,95% hjá sjóðum A-hluta, en var 61,64% árið 2016, og 69,49% í samanteknum ársreikningi en var 64,48% árið 2017. Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.
Svöruðu endurskoðendur spurningum bæjarfulltrúa og varð nokkur umræða um reikninginn að yfirferð lokinni.
Var nú endurskoðendum þökkuð koman og véku þeir af fundi.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa ársreikningi Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2017, til síðari umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 3. maí 2018.
3. Fundargerð 113. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 27. mars 2018.
Bæjarstjórn samþykkti fundargerðina með 6 atkvæðum. Guðmundur sat hjá.
4. Fundargerð 175. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 3. apríl 2018.
Lagt fram til kynningar.
5. Fundargerð 148. fundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands, dags. 19. mars 2018.
Lagt fram til kynningar.
6. Fundargerð aðalfundar Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 19. mars 2018.
Lagt fram til kynningar.
7. Fundargerð 54. stjórnarfundar Jeratúns ehf., ásamt ársreikningi 2017.
Lagt fram til kynningar.
8. Fundargerð 401. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 26. febrúar 2018.
Lagt fram til kynningar.
9. Fundargerði 857. og 858. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. febrúar og 23. mars 2018.
Lagt fram til kynningar.
10. a) Umsögn Snæfells, félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).
Varðandi umsögn Snæfells um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, þá tekur bæjarstjórn Snæfellsbæjar undir umsögnina, sérstaklega hvað varðar öryggi sjómanna við strandveiðar.
10. b) Bréf og bókun Grundarfjarðarbæjar, dags. 11. mars 2018, til Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Varðandi veiðigjöld, þá tekur bæjarstjórn Snæfellsbæjar undir með bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar um mikilvægi þess að útreikningsgrunnar verði endurskoðaðir miðað við útgerðar- og fiskvinnsluflokka við ákvörðun á áframhaldandi álagningu gjaldanna.
Eftirfarandi bókun var lögð fram og samþykkt samhljóða:
„Bæjarstjórn Snæfellsbæjar telur mikilvægt að löggjöf um veiðigjöld verði endurskoðuð, en gildandi reiknigrunnur gjaldsins var samþykktur með lögum nr. 74/2012 og átti að gilda í þrjú fiskveiðiár. Alþingi þarf því annað hvort að framlengja gildandi reglu eða samþykkja nýja reiknireglu fyrir fiskveiðiárið 2018/2019.
Mikilvægt er að veiðigjöld séu ákvörðuð þannig að þau verði ekki meira íþyngjandi fyrir suma flokka veiða en aðra. Hófleg gjaldtaka mun til lengri tíma litið tryggja fjölbreyttan og öflugan sjávarútveg og eðlilega byggðaþróun.
Mikilvægt er að við ákvörðun á nýrri reiknireglu veiðigjalda verði þess gætt að jafnræði sé á álagningunni niður á einstakar fisktegundir. Sérstaklega er mikilvægt að vægt veiðigjald á hverja fisktegund verði svipað og að vægi milli uppsjávar- og bolfiskveiða verði jafnað. Við ákvörðun þessara gjalda þarf að hafa í huga að raska ekki byggðaþróun og að allir útgerðarflokkar hafi sambærilega möguleika.“
11. Bréf frá Svanborgu Tryggvadóttur og Valgerði Hlín Kristmannsdóttur, dags. 7. mars 2018, varðandi leikvöllinn við Hjallabrekku í Ólafsvík.
Bæjarstjórn þakkar þessar góðu ábendingar sem fram koma í bréfinu og samþykkti samhljóða að vísa erindinu til tæknideildar með þeim tilmælum að nauðsynlegar lagfæringar verði gerðar. Jafnframt óskar bæjarstjórn eftir því að farið verði yfir alla leikvelli í bæjarfélaginu svo þeir séu öruggir og í lagi.
12. Bréf frá umhverfis- og skipulagsnefnd, dags. 27. mars 2018. varðandi reglur um stöðuleyfi.
Kristján lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður fyrir hönd Drífu Skúladóttur, vill að bókað verði v/afgreiðslu á erindi frá umhverfis- og skipulagsnefnd um óskir um breytingar á reglum v/söluvagna.
„Ég nefndarmaður J listans í umhverfis- og skipulagsnefnd gat ekki annað skilið á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar en að beiðni um breytingu á umræddum reglum væri að beiðni bæjarstjórnar sem við höfðum fundað með 2 vikum áður, við gerð nýrra reglna um söluvagna.
Ég var alls ekki ósátt við þær reglur sem samþykktar voru samhljóða 2 vikum áður á fundi á Malarrifi – og var verulega ósátt við að þurfa strax, að taka þær upp og breyta“
Drífa Skúladóttir
Kristján Þórðarson
Í framhaldi af þessari bókun vill bæjarstjórn fara fram á það við umhverfis- og skipulagsnefnd að fundargerðir frá þeim séu skýrari og þar sé bókað hvort nefndarmenn sitji hjá eða séu ekki samþykkir einstaka málum sem tekin eru fyrir.
Bæjarstjórn samþykkti framlagðar breytingar á reglum um söluvagna með 6 atkvæðum. Kristján sat hjá.
13. Bréf frá Jeratúni, dags. 21. mars 2018, varðandi hlutafjáraukningu aðildarsveitarfélaga 2018.
Bæjarstjórn samþykkti hlutafjáraukninguna samhljóða, enda er gert ráð fyrir henni í fjárhagsáætlun.
14. Bréf frá Hafdísi H Ásgeirsdóttur og Þórkeli G Högnasyni, dags. 14. mars 2018, varðandi skilgreiningu lands á jörðinni Bjarg-Pétursbúð.
Í aðalskipulagi Snæfellsbæjar er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu frá fyrra skipulagi fyrir núverandi ábúendur. Að Bjargi er stundaður landbúnaður og verða heimatúnin við Bjarg, neðan Músaslóðar, notuð til landbúnaðar meðan núverandi ábúendur hirða þau, eða þar til allar aðrar lóðir í plássinu eru fullbyggðar.
15. Bréf frá samtökum um barnamenningu, dags. 19. mars 2018, varðandi þátttöku sveitarfélaga í Verðlaunahátíð barnanna.
Bæjarstjórn sér sér ekki fært að verða við erindinu.
16. Bréf frá Elvu Hreiðarsdóttur, dags. 8. apríl 2018, varðandi myndlistarnámskeið fyrir börn og unglinga.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita styrk til verkefnisins sem svarar um helmingi námskeiðs-kostnaðar hvers nemenda, þó aldrei meira en kr. 150.000.-
17. Bréf frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, dags. 6/4 2018, varðandi sölu á Hjarðartúni 7.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita bæjarstjóra heimild til að selja hlut Snæfellsbæjar í viðkomandi eign.
18. Bréf frá Lögreglustjóranum á Vesturlandi, dags. 14. mars 2018, varðandi tillögu að lögreglusamþykkt fyrir umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi.
Bæjarstjórn telur skynsamlegt að það sé ein lögreglusamþykkt fyrir allt umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi og gerir ekki athugasemdir við framlagða tillögu.
19. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 23. mars 2018, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar vegna umsóknar AB 550 ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Lækjarbakka 6 á Arnarstapa, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn AB 550 ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Lækjarbakka 6 á Arnarstapa, Snæfellsbæ, að því tilskildu að umhverfis- og skipulagsnefnd, slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
20. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 5. apríl 2018, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar vegna umsóknar Gamla Rifs kaffistofu ehf. um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II, veitingastofa og greiðasala, kaffihús, sem reka á sem Gilbakka kaffihús á Hellissandi.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Gamla Rifs kaffistofu ehf. um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II, veitingastofa og greiðasala, kaffihús, sem reka á sem Gilbakka kaffihús á Hellissandi, Snæfellsbæ, að því tilskildu að umhverfis- og skipulagsnefnd, slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
21. Bréf frá Eyja- og Miklaholtshreppi, dags. 5. apríl 2018, varðandi Laugagerðisskóla.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita bæjarstjóra heimild til að ganga frá sölu á hlut Snæfellsbæjar í viðkomandi eign.
22. Bréf frá Skógræktarfélagi Íslands, dags. 3. apríl 2018, varðandi styrk vegna sjálfboðaliðahópa sumarið 2018.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að taka þátt í þessu verkefni aftur sumarið 2018.
23. Bréf frá Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, dags. 9. apríl 2018, varðandi landspildur fyrir félagið til gróðursetningar.
Þessi beiðni hefur verið tekin fyrir í vinnu aðalskipulagsnefndar og í umhverfis- og skipulagsnefnd og var því hafnað í báðum nefndum. Það er hins vegar mjög framkvæmdasamt fólk í Skógræktarfélaginu og bæjarstjórn vill ekki slá á hendurnar á því. Bæjarstjórn vill þó ekki taka fram fyrir hendurnar á þeim nefndum sem þegar hafa tekið afstöðu til erindisins en telur að það væri gott að vinna nýtt svæði til skógræktar með Skógræktarfélaginu, jafnvel aðeins vestar en það sem nú er verið að ræða um, og jafnframt að skipuleggja í sameiningu hvernig gróður ætti að vera á svæðinu.
24. Ályktun um umhverfisverkefni frá Búnaðarfélagi Staðarsveitar, dags. 4. apríl 2018.
Lagt fram til kynningar.
25. Ályktun frá ungmennaráðstefnu UMFÍ 2018.
Lagt fram til kynningar.
26. Minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. mars 2018, varðandi kostnað sveitarfélaga af nýjum lögum um persónuvernd.
Lagt fram til kynningar.
27. Bréf frá Lögmönnum Suðurlandi, dags. 6. mars 2018, varðandi lög um þjóðlendur.
Lagt fram til kynningar.
28. Bréf frá Sorpurðun Vesturlands, dags. 20. mars 2018, varðandi arðgreiðslur 2018.
Lagt fram til kynningar.
29. Bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 20. mars 2018, varðandi áform um áminningu og kröfu um úrbætur.
Bæjarstjóri fór yfir málið og sagði frá því að búið er að vinna þessa áætlun og er hún í samþykktarferli hjá stofnuninni.
30. Tillaga meirihluta bæjarstjórnar, dags. 9. apríl 2018, varðandi Höskuldsána á Hellissandi.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra að láta vinna skipulag fyrir umhverfi Höskuldsár.
31. Bréf frá byggingarfulltrúa, dags. 6. apríl 2018, varðandi lokaafgreiðslu á aðalskipulagi Snæfellsbæjar.
Bæjarstjórn fór yfir tillögu aðalskipulags Snæfellsbæjar 2015-2031 og þær breytingar sem gerðar hafa verið vegna framkominna athugasemda. Farið var yfir athugasemdir sem bárust og svör við þeim og þau samþykkt. Jafnframt var samþykkt leiðrétting í fylgiriti nr. 1 og 1b um vatnsaflavirkjanir og fylgirit nr. 6 um flokkun vega.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti samhljóða aðalskipulag Snæfellsbæjar 2015-2031 með þeim breytingum sem gerðar voru vegna framkominna athugasemda á auglýsingartíma og samþykkti jafnframt að fela byggingarfulltrúa að senda gögn til Skipulagsstofnunar með ósk um að aðalskipulagið verði staðfest í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
32. Heimild til að taka lán frá Lánasjóði sveitarfélaga að upphæð 150 millj. króna vegna framkvæmda.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
„Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 150.000.000 kr., í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdir skv. framkvæmdaáætlun 2018, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Kristni Jónassyni, kt. 300965-3779, veitt fullt og ótakmarkað umboð f.h. Snæfellsbæjar, til þess að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf., sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántöku þessari.“
Minnispunktar bæjarstjóra:
- Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit fyrstu tveggja mánaða ársins
- Kári Viðarsson ætlar að gera Hellissand að því sem hann kallar „Street Art Capital of Iceland“ og munu alþjóðlegir listamenn koma hingað og mála listaverk á nokkra húsgafla núna í sumar.
- Bæjarstjóri sagði frá framkvæmdum við gervigrasvöllinn í Ólafsvík.
- Bæjarstjóri sagði frá fundi með aðstandendum Sjómannagarðsins á Hellissandi. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita styrk til lokaframkvæmda við sjóminjasafnið, samtals að upphæð kr. 10.000.000.- sem greiðist út með jöfnum greiðslum yfir fimm ára tímabil.