Bæjarstjórn

Fundargerð bæjarstjórnar
311. fundur
6. september 2018 frá kl. 16:00 – 19:27

Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Lilja Ólafardóttir, bæjarritari, og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Sækja fundargerð

Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn og gesti velkomna. Óskaði hann eftir að fá að taka inn með afbrigðum sem 25. lið bréf frá íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dags. 3. september 2018, varðandi skúringarvél í íþróttahúsið. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.  

Dagskrá:

1. Málefni Átthagastofu. 

Heimir Berg, markaðs- og kynningarfulltrúi Snæfellsbæjar, mætti á fundinn og fór yfir málefni Átthagastofu og Pakkhúss. 

2. Fundargerðir 297., 298., 299 og 300. fundar bæjarráðs Snæfellsbæjar, dags. 28. júní, 12. júlí, 26. júlí og 23. ágúst 2018. 

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. 

3. Fundargerð 117. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 30. ágúst 2018. 

Fundargerðin samþykkt samhljóða. 

4. Fundargerð landbúnaðar- og fjallskilanefndar, dags. 21. ágúst 2018. 

Fundargerðin samþykkt samhljóða. 

5. Reglur Snæfellsbæjar varðandi nemendur sem óska eftir að stunda tónlistarnám utan lögheimilissveitarfélags. 

Bæjarstjórn samþykkti reglurnar samhljóða, og samþykkti jafnframt að viðmiðunarupphæð niðurgreiðslur fyrir skólaárið 2018/2019 verði kr. 300.000.- fyrir skólaárið miðað við heilt nám, og hlutfallslega miðað við hlutanám. 

6. Bréf frá umhverfis- og skipulagsnefnd, dags. 30. ágúst 2018, varðandi fund með bæjarstjórn. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra að finna tíma sem hentar bæði bæjarstjórn og umhverfis- og skipulagsnefnd. 

7. Bréf frá Írisi Ósk Jóhannsdóttur, ódags., varðandi nám við Tónlistarskóla Akraness. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að niðurgreiða tónlistarnámið miðað við nýsamþykktar reglur um niðurgreiðslur tónlistarnáms utan lögheimilissveitarfélags. 

8. Umsókn Lísu Daggar Davíðsdóttur, dags. 27. ágúst 2018, um leyfi til náms samhliða starfi. 

Bæjarstjórn samþykkti umsóknina samhljóða. 

9. Bréf frá Eggerti Arnari Bjarnasyni, dags. 31. ágúst 2018, varðandi úrsögn úr hafnarstjórn og lausn frá starfi sem varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Snæfellsbæjar. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita Eggerti lausn frá störfum sínum sem varabæjarfulltrúi frá 1. september 2018 og út yfirstandandi kjörtímabil. 

Tillaga kom um Þráinn Viðar Egilsson sem aðalmann í stað Eggerts í hafnarstjórn.  Var tillagan samþykkt samhljóða. 

10. Bréf frá Dögg Mósesdóttur, dags. 24. ágúst 2018, varðandi ósk um styrk vegna Northern Wave kvikmyndahátíðarinnar þann 26. – 28. október n.k. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita styrk til verkefnisins að upphæð kr. 600.000.- enda er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun. 

11. Minnisblað bæjarstjóra, dags. 4. september 2018, varðandi eftirlitsmyndavélar. 

Bæjarstjóri fór yfir málið. 

12. Erindisbréf öldungaráðs Snæfellsbæjar. 

Bæjarstjórn samþykkti erindisbréfið samhljóða, og samþykkti jafnframt að skipa í nýtt öldungaráð á næsta fundi bæjarstjórnar í október. 

13. Bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 22. ágúst 2018, varðandi aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að senda erindið til kynningar í íþrótta- og æskulýðsnefnd. 

14. Bréf frá Orkusjóði, dags. 3. september 2018, varðandi styrk vegna varmadælu við Ráðhús Snæfellsbæjar. 

Bæjarstjóri kynnti framkvæmdirnar við varmadælu við Ráðhúsið og hvernig þær hafa komið út. 

15. Bréf frá SSV, dags. 28. ágúst 2018, varðandi haustþing SSV 2018. 

Lagt fram til kynningar. 

16. Bréf frá Þjóðskrá Íslands, dags. 27. ágúst 2018, varðandi fasteignamat 2019. 

Lagt fram til kynningar. 

17. Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands, dags. 16. ágúst 2018, varðandi skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila í kjölfar nýrra laga um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga. 

Lagt fram til kynningar. 

18. Bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 30. ágúst 2018, varðandi tillögur/áætlanir sveitarstjórna um úrbætur í fráveitumálum. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra og bæjarritara að svara erindinu.

19. Fyrirspurn frá J-listanum, dags. 3. sept. 2018, varðandi starf innheimtufulltrúa RARIK í Snæfellsbæ. 

Eftirfarandi fyrirspurn barst: 

„Við undirrituð fulltrúar J-listans, bæjarmálasamtaka Snæfellsbæjar, leggjum fram fyrirspurn um 50% starfshlutfall innheimtufulltrúa Rarik í Snæfellsbæ.  Var eitthvað gert til að koma í veg fyrir að starfið færi úr bæjarfélaginu?“ 

Bæjarstjóri sagði frá því að hann hafi rætt þessi mál við forstjóra Rarik fyrr á árinu.  Fengust þar þau svör að verið væri að leggja niður starfið og ekki yrði ráðið í staðinn.  Jafnframt minnti forstjórinn á fund með bæjarstjórn Snæfellsbæjar á liðnu ári þar sem komið hafi fram að til stæði að leggja niður þetta starf en jafnframt að þá yrði lögð áhersla á að halda úti öflugum vinnuflokki við starfstöð Rarik í Ólafsvík. 

20. Tillaga frá J-listanum, dags. 3. sept. 2018, varðandi hækkun á viðmiðunartekjum elli- og örorkulífeyrisþega í Snæfellsbæ. 

Eftirfarandi tillaga barst: 

„J-listinn leggur til að farið verði í þá vinnu að hækka tekjumörg elli- og örorkulífeyrisþega í Snæfellsbæ, hámarks afsláttur verði hækkaður úr 70.000 kr í 100.000 kr.“ 

Bæjarstjórn samþykkti að láta reikna út hver kostnaður sveitarfélagsins yrði við þessar hækkanir og vísa tillögunni jafnframt til fjárhagsáætlunar 2019. 

21. Tillaga frá J-listanum, dags. 3. sept. 2018, varðandi íþróttastyrk til foreldra barna sem stunda íþróttir á vegum íþróttafélaganna í Snæfellsbæ. 

Eftirfarandi tillaga barst: 

„J-listinn leggur til að farið verði í þá vinnu í samstarfi við ungmennafélögin að breyta núverandi styrk Snæfellsbæjar til UMF Víkings og UMF Reynis til foreldra barna sem stunda íþróttir.  Styrkurinn er ekki greiddur til foreldra heldur fer til ungmennafélaganna til lækkunar á iðgjaldi barnanna.“ 

Eftirfarandi bókun var lögð fram: 

„D-listinn boðaði það í stefnuskrá sinni fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar að koma á frístundastyrk að upphæð kr. 20.000.- fyrir börn og unglinga á aldrinum 5-18 ára, án þess að skerða framlög sveitarfélagsins til íþróttafélaganna. Telur D-listinn skynsamlegast að fara þá leið, og leggur til að tillagan verði felld.“ 

J-listinn lagði fram eftirfarandi bókun: 

„J-listinn ætlaði ekki að fara í aukin útgjöld í þessum málaflokki, en tökum tillögu D-listans fagnandi og styðjum hana heilshugar.“ 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa frístundastyrknum til fjárhagsáætlunar 2019. 

22. Tillaga frá J-listanum, dags. 3. sept. 2018, varðandi árlega íbúafundi. 

Eftirfarandi tillaga barst: 

„J-listinn leggur til að haldinn verði íbúafundur einu sinni á ári, hann yrði haldinn fyrir fjárhagsáætlanagerð.  Þar fái íbúar Snæfellsbæjar tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og fá upplýsingar um fyrirhuguð verkefni.“ 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að stefna að íbúafundi fyrir fjárhagsáætlunargerð.  Stefnt er að því að fundurinn verði haldinn í Klifi fimmtudaginn 4. október 2018, í beinu framhald af bæjarstjórnar-fundi. 

23. Tillaga frá J-listanum, dags. 3. sept. 2018, varðandi ærslabelgi í Ólafsvík og á Hellissandi. 

Eftirfarandi tillaga barst: 

„J-listinn leggur til að settir verði upp ærslabelgir í tveimur stærstu þéttbýliskjörnum Snæfellsbæjar, í Ólafsvík og á Hellissandi.  Farið verði í að finna heppilegar staðsetningar og að þetta verði komið upp fyrir vorið 2019.“  

Eftirfarandi bókun var lögð fram: 

„D-listinn boðaði það í stefnuskrá sinni fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar að fara í margvíslegar framkvæmdir í íþrótta- og æskulýðsmálum, m.a. að bæta útileiksvæði í Snæfellsbæ, að setja upp skólahreystibraut, ærslabelgi og hjóla- og brettabraut. 

Tillagan fellur því vel að þeim markmiðum sem D-listinn setti sér á kjörtímabilinu og leggur til að tillögunni verði vísað til frekari vinnu í fjárhagsáætlunargerð 2019.“ 

24. Tillaga frá D-listanum, dags. 28. ágúst 2018, varðandi vélavinnu í Ólafsvík. 

Eftirfarandi tillaga barst: 

„Við undirrituð fulltrúar D-listans í bæjarstjórn Snæfellsbæjar gerum það að tillögu okkar að farið verði í verðkönnun á vélavinnu vegna snjómoksturs fyrir Snæfellsbæ í Ólafsvík.  Jafnframt þá yrði m.v. að samningur yrði gerður til 2022 ef viðunandi verð fást og að hann tæki gildi frá og með 1. október 2018 

Fyrir nokkrum árum sagði T.S. vélaleiga upp samningi sem var vegna vélavinnu fyrir Snæfellsbæ í Ólafsvík og frá þeim tíma hefur enginn samningur verið í gildi fyrir vélavinnu í Ólafsvík. 

Snævélar eru með samning um vélavinnu fyrir Snæfellsbæ á Hellissandi og Rifi. 

Nauðsynlegt er fyrir Snæfellsbæ að fá fastan samning um þessa vélavinnu því búast má við að þannig fáist bestu verðin fyrir sveitarfélagið.“ 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða gera verðkönnun. 

25. Bréf frá íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dags. 3. september 2018, varðandi kaup á nýrri skúringarvél fyrir íþróttahúsið í Ólafsvík. 

Björn vék af fundi undir þessum lið og tók Svandís við stjórn fundarins. 

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita aukafjárveitingu til þessara kaupa. 

Björn kom nú aftur inn á fund og tók við stjórn fundarins. 

26. Minnispunktar bæjarstjóra. 

  • Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit fyrstu 8 mánaða ársins. 
  • Bæjarstjóri fór yfir fjárhagsyfirlit stofnana fyrir fyrstu 7 mánuði ársins. 
  • Bæjarstjóri fór yfir aðsóknartölur á tjaldstæðum Snæfellsbæjar, en það hefur verið nokkur fjölgun milli áranna 2017 og 2018. 
  • Bæjarstjóri fór yfir verkefni sumarsins. 
  • Bæjarstjóri sagði frá framkvæmdum við Fróðárheiði og þjóðgarðsmiðstöð. 

Fundi slitið kl. 19:27.