Bæjarstjórn
324. fundur
10. október 2019 frá kl. 16.00 – 18:42
Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir, Örvar Már Marteinsson (í fjarveru RÓ), Svandís Jóna Sigurðardóttir, Gunnsteinn Sigurðsson (í fjarveru FS), Michael Gluszuk, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Dagskrá:
Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn og gesti velkomna. Var að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.
1. Rebekka Unnarsdóttir og Patrick Roloff mættu á fundinn.
Rebekka og Patrick fóru yfir rekstur tjaldsvæða Snæfellsbæjar nú í sumar. Rætt var það sem vel gekk og það sem þyrfti að laga fyrir næsta sumar. Sögðu þau frá því að tjaldsvæðin hér í Snæfellsbæ séu mjög góð og aðstaðan þannig að fólk sækist eftir því að tjalda hér. Var þeim þökkuð koman og véku þau af fundi.
2. Ingigerður Stefánsdóttir, leikskólastjóri, mætti á fundinn.
Rætt var um fyrirhugaða ungbarnadeild á leikskólum Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fara í það tilraunaverkefni að setja upp ungbarnadeild við leikskólann Kríuból á Hellissandi, skv. þeim reglum sem leikskólastjórinn fór í gegnum á fundinum. Gert er ráð fyrir að þetta úrræði verði í boði fyrir 12-18 mánaða börn.
3. Fundargerð 308. fundar bæjarráðs Snæfellsbæjar, dags. 19. september 2019.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
4. Fundargerð 130. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 4. október 2019.
Athugasemd kom um 8. lið. Skiltið sem um ræðir er gjöf frá Vagni Ingólfssyni og því ekki Snæfellsbæjar að ákveða hvort það eigi að breyta því eða ekki. Bæjarstjórn vill fara fram á það við tæknideild að rætt verði við Vagn og ef hann er sáttur við breytingar þá fáist skriflegt samþykki fyrir því.
Fundargerðin samþykkt samhljóða að öðru leyti.
5. Fundargerðir 185. og 186. fundar menningarnefndar, dags. 15. september og 1. október 2019.
Fundargerðirnar samþykktar samhljóða.
6. Fundargerð fræðslunefndar, dags. 16. september 2019.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
7. Fundargerðir 873. og 874. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. ágúst og 27. september 2019.
Lagt fram til kynningar.
8. Fundargerð 415. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 26. september 2019.
Lagt fram til kynningar.
9. Fundargerð 17. aðalfundar fulltrúaráðs Eignaharslfélagsins Brunabótafélag Íslands, dags. 20. september 2019.
Lagt fram til kynningar.
10. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 25. september 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Lýsudals ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Lýsudal í Staðarsveit, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir fyrir sitt leiti ofangreinda umsókn Lýsudals ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Lýsudal í Staðarsveit, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
11. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 30. september 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Blue View ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Öxl í Breiðuvík, Snfæfellsbæ.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir fyrir sitt leiti ofangreinda umsókn Blue View ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Öxl í Breiðuvík, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
12. Minnisblað frá bæjarstjóra, dags. 8. október 2019, varðandi landsvæði til að kolefnisjafna.
Bæjarstjóri fór yfir hugmyndir um „samviskuskóg“ innan þéttbýlismarka Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fara í það í vor að koma upp gróðursvæði til að koma til móts við þá íbúa Snæfellsbæjar sem hafa áhuga á að jafna kolefnisspor sitt með uppbyggilegum hætti.
13. Bréf frá Ragnheiði Víglundsdóttir, dags. 7. október 2019, varðandi tiltekt í geymslu Pakkhússins á Hellissandi.
Bæjarstjórn telur að það sé nauðsynlegt að taka geymsluna og skrá þá muni sem þar eru. Hins vegar verður að gera það á réttan hátt og í góðri samvinnu við starfsfólk Byggðasafns Snæfellinga. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela Rebekku Unnarsdóttur, umsjónarmanni Pakkhússins, að hafa samband við starfsfólk Byggðasafnsins og athuga hvernig best er að standa að þessari vinnu. Bæjarstjórn vill fá tillögur frá Rebekku fyrir næsta fund, áður en ákvörðun er tekin um framhaldið.
14. Bréf frá Laufeyju Helgu Árnadóttur, dags. 4. október 2019, varðandi fatasölur í húsnæði Snæfellsbæjar.
Bæjarstjórn telur rétt að um farandsölur gildi reglur og þeir sem selji vörur og þjónustu í sveitarfélaginu fylgi lögum og reglum, þ.m.t. reglum um virðisaukaskatt. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarritara að vinna að reglum um farandsölur í Snæfellsbæ og leggja þær tillögur fyrir á næsta bæjarstjórnarfundi.
15. Bréf frá Lionsklúbbnum Rán, dags. 23. september 2019, varðandi ósk um niðurfellingu á leigu í Klifi þann 28. september s.l. vegna Nesballs eldri borgara.
Bæjarstjórn samþykkti erindið samhljóða, enda fellur það undir reglur bæjarstjórnar um niðurfellingu á húsaleigu félagsheimilanna. Bæjarstjórn tekur fram að niðurfellingin á einungis við um leigu, en ekki þrif, gjöld eða annan þann kostnað sem til gæti fallið.
16. Bréf frá Adelu Marcelu Turloiu, Helgu Guðrúnu Sigurðardóttur, Karitas Hrafns Elvarsdóttur og Sigrúnu Erlu Sveinsdóttur, dags. 18. september 2019, varðandi bættari útileikja- og afþreyingaraðstöðu barna er búa í Rifi.
Bæjarstjórn þakkar bréfið og ábendingarnar sem þar koma fram. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita 3,5 milljónum króna á fjárhagsáætlun 2020 til að setja upp ærslabelg í Rifi næsta vor. Jafnframt er búið að fela tæknideild Snæfellsbæjar að fara yfir leiktækin í Rifi, en í fyrra var farið í að taka leikvöllinn í gegn, lagfæra leiktæki og leggja gúmmímottur við þau. Það má líka taka fram að þegar er búið að setja upp og laga fótboltamörkin.
17. Bréf frá Kára Viðarssyni, dags. 7. október 2019, varðandi starfsmannaferðir á leiksýninguna „Ókunnugur“ í Frystiklefanum í Rifi.
Bæjarstjórn vill gjarnan óska eftir frekari upplýsingum um það hvað felst í þessu boði.
18. Bréf frá Berginu headspace, dags. 8. október 2019, varðandi ósk um rekstrarstyrk 2020.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að hafna erindinu.
19. Bréf frá Tré lífsins, dags. 20. september 2019, varðandi Minningargarða.
Bæjarstjórn sér sér ekki fært að verða við þessari ósk.
20. Bréf frá Æskulýðssambandi Þjóðkirkjunnar, dags. 27. maí 2019, varðandi ósk um styrk til að halda landsmót í Ólafsvík helgina 25. – 27. október 2019.
Bæjarstjórn samþykkti erindið samhljóða fyrir sína hönd, en bendir á að nauðsynlegt er að ræða við forstöðumenn þeirra stofnana sem um ræðir.
21. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 5. september 2019, varðandi yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Lagt fram til kynningar.
22. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. september 2019, varðandi hvatningu til sveitarstjórna í tengslum við Skólaþing sveitarfélaga 2019.
Lagt fram til kynningar.
23. Leiðbeinandi álit Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. október 2019, varðandi tvöfalda skólavist barna í leik- eða grunnskóla.
Lagt fram til kynningar.
24. Til kynningar: siðareglur kjörinna fulltrúa Akureyrarbæjar, samskiptasáttmáli kjörinna fulltrúa Akureyrarbæjar og leiðbeiningar um skráningu kjörinna fulltrúa hjá Akureyrarbæ á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að setja sér sambærilegar reglur og leggja fyrir á næsta bæjarstjórnarfund.
25. Bréf frá Auði Kjartansdóttur, dags. 7. október 2019, varðandi úrsögn úr umhverfis- og skipulagsnefnd.
Bæjarstjórn samþykkti erindið samhljóða og þakkar Auði setu sína í nefndinni. Tillaga kom um að Kristjana Hermannsdóttir, sem nú situr sem varamaður, komi inn í nefndina sem aðalmaður í stað Auðar. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Jafnframt kom tillaga um Helgu Jóhannsdóttur sem varamann í stað Kristjönu. Tillagan var samþykkt samhljóða.
26. Tillögur frá J-listanum:
- Tillaga um lækkun fasteignagjalda.
„J-listinn leggur til að farið verði í það að finna leiðir til að lækka fasteignagjöld fyrir árið 2020 með þeim hætti að þau verði svipuð og þau voru árið 2018. Viljum við með þessu móti koma til móts við heimilin og draga úr auknum kostnaði sem leggst á þau vegna hækkana á fasteignamati fyrir árið 2020.“
Bæjarfulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Á marsfundi bæjarstjórnar voru breytingar á álagningarprósentum fasteignagjalda ræddar og bæjarstjóri og bæjarritari lögðu fram hugmyndir að því hvernig best væri að framkvæma slíkar breytingar til þess að fasteignagjöld í Snæfellsbæ myndu ekki hækka á milli áranna 2019 og 2020. Á þessum fundi var samþykkt að vinna að nánari útfærslu þessara hugmynda þegar endanleg hækkun fasteignamats 2020 lægi fyrir. Nú liggur það fyrir að fasteignamat í Snæfellsbæ mun að meðaltali hækka um 2,5% á árinu 2020. Bæjarfulltrúar D-listans geta ekki tekið undir þær hugmyndir J-listans að miða fasteignagjöld 2020 við gjöld ársins 2018. Í staðinn leggjum við til að fasteignagjöld í A-flokki hækki ekki milli áranna 2019 og 2020, eins og rætt var á fundi bæjarstjórnar í mars. Það er hins vegar rétt að taka það fram að hluti fasteignagjalda er sorphirða og eyðing. Er fyrirsjáanlegt að kostnaður vegna sorpeyðingar og endurvinnslu mun hækka mjög mikið á næsta ári, m.a. vegna boðaðs urðunarskatts og flokkunar á lífrænum úrgangi. Einhvern veginn þarf að mæta þeim kostnaði, en samkvæmt lögum á sorphirða og eyðing að standa undir sér. Bæjarfulltrúar D-listans leggja því til að þessi tillaga verði felld og tillaga D-listans verði samþykkt.“
Tillagan samþykkt samhljóða.
- Tillaga um að endurskoða núverandi fyrirkomulag á unglingavinnunni
„J-listinn leggur til að farið verði í þá vinnu að endurskoða núverandi skipulag varðandi unglingavinnu í Snæfellsbæ. Við gerum það að tillögu að settir verði upp litlir vinnuhópar sem fara til eldriborgara sem eiga þann rétt að fá aðstoð frá Snæfellsbæ við garðumhirðu og vinna undir leiðsögn húsráðanda. Til dæmis að vinna alla almenna garðvinnu og aðstoða við lítilsháttar málningarvinnu á girðingum og pöllum. Með þessum hætti auðveldum við fólki að búa lengur í eigin húsnæði þrátt fyrir að hafa ekki getu til að sinna þessum verkefnum sjálft. Með þessu mynda sterkari tengsl milli kynslóða.“
D-listinn lagði fram eftirfarandi bókun:
„Á hverju ári býðst eldri borgurum í Snæfellsbæ, þ.e. 70 ára og eldri garðslátt þeim að kostnaðarlausu allt að fjórum sinnum á sumri. Í flestum þeim sveitarfélögum sem bjóða þessa þjónustu þarf að greiða fyrir hvern slátt. Í Snæfellsbæ er það þannig að sótt er um garðslátt til tæknideildar, sem útbýr vinnulista sem sláttuhópur sumarsins vinnur eftir. Þetta fyrirkomulag hefur gengið afar vel og undantekningalítið er vel látið af vinnu unglinganna. Varðandi tillöguna um garðvinnu og garðumhirðu, þá er það þannig í Snæfellsbæ að hér er starfandi fyrirtæki sem eru að bjóða upp á þessa þjónustu, þ.e. almenna garðvinnu og viðhaldsvinnu. Það er því afar óeðlilegt ef Snæfellsbær færi að bjóða upp á samkeppnisþjónustu við þau fyrirtæki. Eldri borgarar, sem og aðrir íbúar Snæfellsbæjar, geta keypt þessa þjónustu af fyrirtækum í bæjarfélaginu og það ætti því ekki að vera nein hindrun fyrir því að þeir geti haldið áfram að búa í eigin húsnæði. Bæjarfulltrúar D-listans leggja því til að þessi tillaga verði felld.“
Tillagan var felld með 4 atkvæðum. 3 voru á móti.
- Tillaga um að auka flokkun og stíga skrefið enn lengra í umhverfismálum.
„J-listinn leggur til að farið verði í það fersli að skoða hvaða leiðir séu hagkvæmastar fyrir sveitarfélagið svo hægt sé að innleiða svokallaða tunnu í tunnu kerfi fyrir lífrænan úrgang. Ennfremur vill J-listinn að Snæfellsbær sýni frumkvæði í umhverfismálum og fari í átak, hvetji fyrirtæki til að huga betur að flokkun með það að markmiði að draga úr plastnotkun eins og unnt er.“
D-listinn lagði fram eftirfarandi bókun:
„Bæjarstjóri hefur nokkrum sinnum farið yfir sorpmál í Snæfellsbæ/Vesturlandi með bæjarstjórninni, þar á meðal yfir lífræna heimilissorpið. Fyrir stuttu var haldinn fundur með öllum sveitarfélögum á Vesturlandi þar sem sérstaklega var farið yfir þær leiðir sem mögulegar eru í því að safna og endurvinna lífrænan úrgang. Aðallega er verið að ræða tvær mögulegar lausnir. Enn liggur þó ekki fyrir hvaða leið verður farin í endurvinnslunni, en ljóst er að lausn á því verður komin fyrir lok næsta árs. Söfnun á lífrænum heimilisúrgangi mun verða í svokölluðu tunnu-í-tunnu kerfi. D-listinn var með það á sinni stefnuskrá fyrir síðustu kosningar að á kjörtímabilinu yrði farið í að safna lífrænum heimilisúrgangi frá heimilum í Snæfellsbæ. Þessi tillaga fellur því vel að þeirri stefnu. D-listinn gerir því að tillögu sinni að bæjarstjóra verði falið að vinna áfram að þessum málum og að söfnun á lífrænum heimilisúrgangi í Snæfellsbæ verði komin í gang fyrir 1. ágúst 2020. Varðandi hvatningu til fyrirtækja, þá taka bæjarfulltrúar D-listans undir það að öll fræðsla og hvatning er af hinu góða. Vilja þau því gera það að tillögu sinni að bæjarstjóra verði falið að ræða við forsvarsmenn þeirra félaga sem sjá um sorpþjónustu í Snæfellsbæ um það hvort ekki sé hægt að fara í fræðsluherferð fyrir fyrirtæki og einstaklinga.“
Tillagan samþykkt samhljóða.
- Tillaga um yfirmann unglingavinnunnar.
„J-listinn gerir tillögu að ráðinn verði sumarstarfsmaður með garðyrkjumenntun eða þekkingu í garðyrkjustörfum til að sjá um skipulag og utanumhald á unglingavinnunni. Jafnframt að hann hafi umsjón og skipulag með garðslætti í Snæfellsbæ.“
D-listinn lagði fram eftirfarandi bókun:
„Á hverju ári auglýsir Snæfellsbær eftir fólki til að sinna unglingavinnunni. Jafnframt er auglýst eftir flokksstjórum og yfirmanni unglingavinnu. Viðbrögð við þessum auglýsingum hafa ekki alltaf verið mikil og erfitt hefur reynst að manna allar þær stöður sem auglýst er í. Hingað til hefur ekki verið gerð krafa um garðyrkjumenntun og enginn garðyrkjumenntaður einstaklingur hefur sótt um starf hjá Snæfellsbæ. Það væri hins vegar mjög gott mál ef hingað kæmi garðyrkjumenntaður einstaklingur, og sjálfsagt að taka það fram í auglýsingu að garðyrkjumenntun og reynsla af garðyrkjustörfum væri æskileg. Bæjarfulltrúar D-listans telja þó að ef hingað fengist aðili með garðyrkjumenntun, þá væru hans starfskraftar betur nýttir í almenna garðyrkjuvinnu en í verkstjórn með unglingum. Varðandi þann hluta tillögunnar sem fjallar um garðsláttinn, þá hefur það fyrirkomulag sem verið hefur hjá Snæfellsbæ undanfarin ár gengið mjög vel. Umsjón með garðslætti hefur verið í höndum tæknideildar Snæfellsbæjar og leggjum við, bæjarfulltrúar D-listans, það til að það fyrirkomulag haldist óbreytt, enda næg verkefni til staðar fyrir þann aðila sem ráðinn er til að stýra unglingavinnunni. Bæjarfulltrúar D-listans leggja til að tæknideild Snæfellsbæjar verði falið að koma með tillögu til bæjarstjórnar um það hvernig best væri að manna stöður í sumarvinnu hjá Snæfellsbæ, bæði hvað varðar stöðu yfirmanns unglingavinnu og hugsanlegs starfsmanns sem myndi sjá um almenna hirðu gróðrarsvæða og annarra opinna svæða í Snæfellsbæ. Bæjarfulltrúar vilja jafnframt taka það fram að mikil og góð viðbrögð hafi verið á undanförnum árum um það hversu snyrtilegt bæjarfélagið er.“
Bæjarstjórn samþykki samhljóða að fela tæknideild Snæfellsbæjar að koma með tillögur um mönnun og starfsemi unglinga- og sumarvinnu í Snæfellsbæ sumarið 2020, og jafnframt að athuga hvort hægt sé að fá hingað í sumarvinnu aðila með garðyrkjumenntun.
27. Viðauki við fjárhagsáætlun 2019.
Lagður var fram viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2019. Viðaukinn er tilkominn vegna framkvæmda ársins. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða framlagðan viðauka að upphæð kr. 65.000.000.-, en þegar er gert ráð fyrir slíkum viðaukum á lið 27110, ófyrirséð. Viðaukinn skiptist svona:
- vegna framkvæmda við Lýsulaugar í Staðarsveit, kr. 20.000.000.-
- vegna framkvæmda við vatnsveitu á Arnarstapa, kr. 12.000.000.-
- vegna malbiksframkvæmda, kr. 33.000.000.-
28. Bréf frá öllum börnum í Rifi varðandi hoppudýnu og kofa.
Bæjarstjóri sagði frá því að hann hefði fengið heimsókn á þriðjudaginn frá þremur börnum búsettum í Rifi, sem afhentu honum undirskriftarlista og ræddu við hann, m.a. um ærslabelg og kofabyggð í Rifi. Bæjarstjóri sagðist hafa falið börnunum það verkefni að finna hugsanlega staðsetningu fyrir slíkt, en sagði jafnframt frá því að hann hafi þegar falið tæknideild Snæfellsbæjar að fara yfir ábendingar þeirra um leiktækin í Rifi.
Bæjarstjórn þakkar börnunum bréfið og ábendingarnar, og vill vísa í svar bæjarstjórnar við svipuðum ábendingum í lið 16, þar sem bæjarstjórn samþykkti að láta setja upp ærslabelg í Rifi næsta vor.
29. Minnispunktar bæjarstjóra.
- Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit ársins.
- Bæjarstjóri sagði frá því að búið er að ráða umsjónarmann fasteigna. Baldvin Leifur Ívarsson var ráðinn og hefur hann störf 1. nóvember.
- Bæjarstjóri fór yfir peningalega stöðu Snæfellsbæjar og hugsanlega lántöku á árinu.
- Bæjarstjóri fór yfir og sýndi bæjarfulltrúum vefinn Betri Snæfellsbær. Þar eru nú þegar komnar 37 mjög áhugaverðar og góðar ábendingar og hugmyndir að því hvernig má gera Snæfellsbæ að betri bæ. Hugmyndasöfnuninni í þessari mynd lýkur þann 19. október n.k. og mun þá verða farið í úrvinnslu á verkefnum.
- Bæjarstjóri sýndi bæjarfulltrúum facebooksíðu Snæfellsbæjar, og sér í lagi nýtt frétta- eða viðtalssafn sem ber nafnið „Lífið undir Jökli“. Þetta eru mjög áhugaverð og skemmtileg örviðtöð við Snæfellsbæinga um hvernig þeir upplifa lífið undir Jökli. Markmiðið er að örviðtöl sem þessi birtist með mjög reglulegu millibili á facebooksíðunni.
- Bæjarstjóri sagði frá fundi sem hann og framkvæmdastýra Jaðars fóru á í gær með starfsfólki heilbrigðisráðuneytisins. Frá því á síðasta ári hefur bæjarstjóri reynt að fá fjölgun á hjúkrunarrýmum á Jaðri, en þörfin er töluverð. Það hefur hins vegar ekki gætt mikils skilnings í heilbrigðisráðuneytinu og bæjarstjóri lýsti vonbrigðum sínum með fundinn í gær og það að ráðuneytið sjái sér ekki fært að koma til móts við Snæfellsbæ í þessum málum. Það mun samt verða reynt til þrautar, og nú í morgun var sent formlegt bréf á heilbrigðisráðherra og óskað eftir upplýsingum um nýtingu hjúkrunarrýma á Vesturlandi.
- Bæjarstjóri óskaði eftir því að nóvemberfundur bæjarstjórnar verði færður fram um tvo daga, þ.e. frá fimmtudeginum 14. til þriðjudagsins 12. nóvember. Var það samþykkt samhljóða.
- Bæjarstjóri sagði frá ljósleiðara- og gangstéttarframkvæmdum í haust.