Bæjarstjórn
332. fundur
2 apríl 2020 frá kl. 16.00 – 18:03
Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir í fjarfundi, Rögnvaldur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Dagskrá:
Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna. Óskaði hann eftir því að fá að taka inn með afbrigðum sem 15. lið bréf frá Landssambandi smábátaeigenda, dags. 31. mars 2020, og sem 16. lið bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 1. apríl 2020. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.
1. Tímabundin heimild til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarstigs almannavarna og nota fjarfundabúnað á fundum bæjarstjórnar og nefnda Snæfellsbæjar.
Samkvæmt lögum nr. 230/2020, um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, sem samþykkt voru á Alþingi þann 17. mars s.l. og auglýst á vef Stjórnartíðinda þann 19. mars 2020, var sveitarstjórnum gefið tímabundið leyfi til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvörðunartöku. Í lögunum, sem tóku gildi þann 19. mars og gilda til 18. júlí 2020, er sveitarstjórnum heimilt að taka ákvörðun um að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir samhljóða, til að tryggja starfshæfi sitt og til að auðvelda ákvörðunartöku við stjórn Snæfellsbæjar, að heimila notkun fjarfundabúnaðar á fundum bæjarstjórnar og fastanefnda Snæfellsbæjar í samræmi við ofangreinda tímabundna heimild.
2. Fundargerð 312. fundar bæjarráðs, dags. 2. apríl 2020.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
3. Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2019. Fyrri umræða.
Frá Deloitte mættu Jónas Gestur Jónasson og Marínó Mortensen í gegnum fjarfund og voru þeir boðnir velkomnir.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.
Fóru þeir Jónas Gestur og Marínó yfir helstu tölur í ársreikningi 2019.
Svöruðu endurskoðendur spurningum bæjarfulltrúa og varð nokkur umræða um reikninginn að yfirferð lokinni.
Var nú endurskoðendum þökkuð koman og véku þeir af fundi.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa ársreikningi Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2019, til síðari umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 7. maí 2020.
4. Fundargerð 135. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 26. mars 2020.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
5. Fundargerð 880. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. mars 2020.
Lagt fram til kynningar.
6. Fundargerð 421. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 20. mars 2020.
Lagt fram til kynningar.
7. Bréf frá skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 30. mars 2020, varðandi breytingu aðalskipulags og nýtt deiliskipulag vegna golfvallar sunnan Rifs.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir fyrirliggjandi tillögur aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags golfvallar sunnan Rifs og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að senda þær á Skipulagsstofnun til afgreiðslu samkvæmt 32. gr. og 42. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn samþykkir einnig tillögur að svörum til umsagnaraðila.
8. Bréf frá Íslandshótelum hf. og Vestureignum ehf., dags. 26. mars 2020, varðandi beiðni um niðurfellingu fasteignaskatts í apríl og maí 2020.
Snæfellsbær mun ekki fella niður fasteignaskatt, hvorki á einstaklinga né fyrirtæki. Hins vegar hefur Alþingi samþykkt lög sem heimila frestun á gjalddögum fasteignaskatts, ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Snæfellsbær mun nýta sér þessa heimild til að létta á greiðslum þeirra fyrirtækja sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum þessa dagana vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónaveirunnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fresta greiðslum fasteignagjalda í C-flokki hjá þeim fyrirtækjum eða einstaklingum sem sækja um það skriflega með tölvupósti til bæjarritara og uppfylla ákveðin skilyrði. Umsókn þarf að fylgja staðfesting á því að eigandi og rekstraraðili fasteignar sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir. Jafnframt þarf að berast staðfesting á því að arði hafi ekki verið úthlutað né heldur að úttekt eigenda hafi verið umfram reiknað endurgjald þeirra. Frestur verður ekki veittur þeim fyrirtækjum/fasteignaeigendum sem þegar hafa átt við varanlega rekstrarörðugleika að stríða fyrir upphaf árs 2020. Sömu reglur gilda um alla sem fá frest á gjalddögum, þ.e. gjalddagar apríl – september verða færðir aftur til júlí – desember.
9. Bréf frá Brunabótafélagi Íslands, dags. 16. mars 2020, varðandi styrktarsjóð EBÍ 2020.
Lagt fram til kynningar.
10. Bréf frá Breiðafjarðarnefnd, dags. 30. mars 2020, varðandi athugasemdir við kynningarfundi Breiðafjarðarnefndar um framtíð Breiðafjarðar og framgöngu, yfirlýsingar og stefnu nefndarinnar.
Bæjarstjórn telur það skynsamlegt af nefndinni að velta fyrir sér þeim kostum sem í boði eru varðandi framtíð Breiðafjarðar og að kynna þá fyrir almenningi á þeim almennu íbúafundum sem haldnir voru.
11. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. mars 2020, varðandi aðgerðir til viðspyrnu við íslenskt atvinnulíf í ljósi samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum.
Lagt fram til kynningar.
12. Minnisblað frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 24. mars 2020, varðandi COVID-19, viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa.
Lagt fram til kynningar.
13. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. mars 2020, varðandi aðgerðaáætlun sveitarfélaga til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf og heimili – COVID-19.
Lagt fram til kynningar.
14. Bréf frá MAST, dags. 26. mars 2020, varðandi veirusjúkdóm í kanínum.
Lagt fram til kynningar.
15. Bréf frá Landssambandi smábátaeigenda, dags. 31. mars 2020, varðandi strandveiðar á komandi sumir.
Bæjarstjórn telur óábyrgt að heimila strandveiðar allt árið um kring þar sem veður eru válynd yfir vetrarmánuðina. Hins vegar telur bæjarstjórn að það gæti verið skynsamlegt að heimila strandveiðar á sunnudögum og jafnvel gefa leyfi til að halda áfram lengur fram á haustið, t.d. út september.
16. Bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 1. apríl 2020, varðandi upplýsingar vegna þátttöku í samstarfshópi um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, ásamt tilnefningu Snæfellsbæjar í hópinn.
Tillaga kom um Jónínu Herdísi Ólafsdóttur, líffræðing, sem fulltrúa Snæfellsbæjar í þennan hóp.
Tillagan samþykkt samhljóða.
17. Minnispunktar bæjarstjóra.
- Bæjarstjóri fór yfir stöðuna varðandi COVID-19 í sveitarfélaginu.
- Bæjarstjóri sagði frá framkvæmdum við varmadælu í sundlauginni.
- Bæjarstjóri sagði frá framkvæmdum í Röstinni.
- Bæjarstjóri fór yfir framkvæmda- og viðhaldsverkefni sem á að fara í á vegum sveitarfélagsins og opinberra aðila á árinu 2020, ásamt þeim verkefnum sem hugsanlega gætu bæst við. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að taka 10 milljónir út af liðnum Ófyrirséð til að fara í ýmis viðhaldsverkefni sem lágu fyrir samkvæmt tillögu umsjónarmanns fasteigna. Bæjarstjórn samþykkti jafnframt að taka 5 milljónir af liðnum Ófyrirséð til að fara í framkvæmdir við lýsinguna í íþróttahúsinu í Ólafsvík.
- Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit fyrstu mánaða ársins.
- Bæjarstjóri fór almennt yfir fjármál Snæfellsbæjar.
- Bæjarstjóri sagði frá því að búið er að ráða garðyrkjustjóra í sumar.