Bæjarstjórn
334. fundur
7. maí 2020 frá kl. 16.00 – 18:07
Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Sækja fundargerð
Dagskrá:
Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna. Óskaði hann eftir að fá að bæta inn sem 2. lið, kynningu frá Heimi Berg, markaðs- og kynningarfulltrúa. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.
1. Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2019. Seinni umræða.
Frá Deloitte mættu Jónas Gestur Jónasson og Marínó Mortensen og voru þeir boðnir velkomnir. Í gegnum árin hefur verið farið yfir samanburð á ársreikningum sveitarfélaganna Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar, en það er ekki möguleiki í dag, svo sá samanburður mun bíða til bæjarstjórnarfundar í næsta mánuði.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.
Fóru þeir Jónas Gestur og Marínó yfir helstu tölur í ársreikningi 2019.
Kom þar fram að rekstur Snæfellsbæjar hafi gengið vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 325 millj. króna í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta.
Segja má að rekstur Snæfellsbæjar hafi verið nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og eiga forstöðumenn hrós skilið fyrir árangurinn.
Helstu lykiltölur ársreiknings eru taldar hér:
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.652 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.436 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 2.107 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.939 millj. króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 325 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 53 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 272 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 218 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 6 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 266 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.901 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.959 millj. króna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.292,8 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 145 stöðugildum í árslok.
Veltufé frá rekstri var 381,4 millj. króna og veltufjárhlutfall er 0,76. Handbært frá rekstri var 216,6 millj. króna.
Heildareignir bæjarsjóðs námu um 4.432,4 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.697,2 millj. króna í árslok 2019. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.473,2 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.796,2 millj. króna, og lækkuðu þar með milli ára um 145,4 milljónir.
Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.959,2 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 3.900,9 millj. króna í árslok 2019. Eiginfjárhlutfall er 66,76 % á á árinu 2019 en var 63,43% árið áður.
Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 457,1 milljón í varanlegum rekstrarfjármunum og tók engin ný lán á árinu 2019.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 49,76% hjá sjóðum A-hluta, en var 51,46% árið 2018, og 46,33% í samanteknum ársreikningi en var 51,63% árið 2018. Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.
Var nú endurskoðendum þökkuð koman og véku þeir af fundi.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða ársreikning Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2019 og voru reikningarnir undirritaðir.
2. Kynning á markaðsmálum ferðaþjónustu í Snæfellsbæ.
Heimir Berg, markaðs- og kynningarfulltrúi Snæfellsbæjar, mætti á fundinn og var hann boðinn velkominn. Fór hann í gegnum mögulega markaðssetningu ferðaþjónustu í Snæfellsbæ í vor og sumar. Nokkur umræða skapaðist um málefnið og jafnframt um nýjan kortavef Snæfellsbæjar sem býður upp á mikla möguleika til að kynna náttúruperlur Snæfellsbæjar.
Vék Heimir nú af fundi og var honum þökkuð koman.
3. Fundargerð 136. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 30. apríl 2020.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
4. Fundargerð fræðslunefndar, dags. 28. apríl 2020.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
5. Fundargerð 177. fundar Breiðafjarðarnefndar, dags. 27. febrúar 2020.
Lagt fram til kynningar.
6. Fundargerð 881. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 24. apríl 2020.
Lagt fram til kynningar.
7. Fundargerð 882. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. apríl 2020.
Lagt fram til kynningar.
8. Bréf frá Róberti Óskarssyni, dags. 17. apríl 2020, varðandi forkaupsrétt að bátnum Aðalheiði SH-319, skipaskrárnúmer 2584.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að falla frá forkaupsrétti að bátnum Aðalheiði SH-319, skskrnr. 2584.
9. Bréf frá persónuverndarfulltrúa Snæfellsbæjar, dags. 28. apríl 2020, varðandi öryggi persónu-upplýsinga.
Lagt fram til kynningar.
10. Minnisblað frá bæjarstjóra, dags. 21. apríl 2020, varðandi byggingu þjónustuíbúða fyrir 60 ára og eldri.
Bæjarstjóri fór yfir fyrstu hugmyndir að nýjum þjónustuíbúðum fyrir 60 ára og eldri. Bæjarsjtórn samþykkti að halda áfram þessari vinnu.
11. Minnispunktar bæjarstjóra.
- Bæjarstjórn ræddi nýja reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 30. apríl s.l. varðandi bann við grásleppuveiðum frá og með aðfaranótt sunnudagsins 3. maí 2020. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun: „Bæjarstjórn Snæfellsbæjar tekur heilshugar undir mótmæli bæjarráðs Akraness og bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar og mótmælir fordæmalausri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að stöðva grásleppuveiðar með alltof skömmum fyrirvara. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar tekur undir með ofangreindum sveitarfélögum að með ákvörðun sinni hafi sjávarútvegsráðherra komið á miklu misvægi á milli landshluta hvað varðar grásleppuveiðar og gerir þá kröfu að ráðherra endurskoði ákvörðun sína nú þegar þannig að jafnræðis verði gætt.“ Áskorun þessi verður send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt þingmönnum norðvesturkjördæmis.
- Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðslu ársins.
- Bæjarstjóri fór yfir Covid-19 aðgerðir í Snæfellsbæ og afléttingu hafta þann 4. maí s.l.
- Bæjarstjóri fór yfir sumarstörf í Snæfellsbæ og er markmiðið að ráða töluvert fleiri í sumar en undanfarin ár.
- Bæjarstjóri fór yfir fjármálin í ár.
- Bæjarstjóri sagði frá fundi með fulltrúum frá Sagafilm í dag.
- Bæjarstjóri sagði frá því að opnuð voru tilboð í þjóðgarðsmiðstöð á þriðjudaginn.