Bæjarstjórn
342. fundur
9. febrúar 2021 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 16.00 – 17:40.
Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir,Rögnvaldur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Dagskrá:
Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna. Óskaði hann eftir því að fá að taka inn með afbrigðum sem 14. lið fundargerð 145. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 21. janúar 2021 og sem 15. lið fundargerð 319. fundar bæjarráðs. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.
1. Fundargerðir 184. og 185. fundar Breiðafjarðarnefndar, dags. 9. og 21. desember 2020.
Lagt fram til kynningar.
2. Fundargerð framkvæmdastjórnar Byggðasamlags Snæfellinga, dags. 23. nóvember 2020.
Lagt fram til kynningar.
3. Eigendafundur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 19. janúar 2021, ásamt fjárhagsáætlun HeV fyrir árið 2021.
Bæjarstjórn staðfestir fjárhagsáætlun HeV fyrir árið 2021 fyrir sitt leyti.
4. Bréf frá kennurum við GSNB., dags. 19. janúar 2021, varðandi stimpilklukkur í starfsstöðvum grunnskólans.
Bæjarstjóri fór yfir ástæður þess að tímastjórnunarkerfið Vinnustund var tekið upp. Þarna er kerfi sem getur haldið utan um ýmsa hluti sem erfitt er að taka út úr launakerfinu eins og það er í dag, en jafnframt eru þar upplýsingar um orlofsdaga, veikindadaga og fleira sem eru aðgengilegar fyrir starfsfólk.
Byrjað var að taka upp Vinnustund í Ráðhúsinu í október og gekk það vel. Síðan hafa stofnanir komið inn í þetta kerfi smátt og smátt og reynslan alltaf að aukast. Nú þegar er kerfið í notkun í Áhaldahúsi, bókasafni, leikskólum, íþróttahúsi og sundlaug. Hefur innleiðingin gegnið nánast snuðrulaust fyrir sig á öllum starfsstöðvum. Næst á dagskrá er dvalarheimilið og síðan höfnin. Stefnt var að því að taka grunnskólann inn síðast þar sem fjöldi starfsmanna þar er mikill, en einnig er ágætt að taka inn nýtt kerfi sem þetta í byrjun skólaárs hjá grunnskóla og tónlistarskóla.
Vinnustund býður upp á mikla möguleika þegar kemur að sveigjanleika í vinnutíma, þar er tekið tillit til allra kjarasamninga sem í gangi eru á almennum og opinberum vettvangi, en jafnframt er vinnutímaskipulagið í Vinnustund einstaklingsmiðað og sniðið að vinnutíma hvers starfsmanns fyrir sig ef við á.
5. Bréf frá foreldrum og forráðamönnum nemenda GSNB – Lýsuhólsskóla, ásamt tillögu að reglum um skólaakstur í skólahverfi Lýsuhólsskóla.
Bæjarstjórn þakkar fyrir erindið og innsendar tillögur.
Bæjarstjórn samþykkti að fela bæjarstjóra og bæjarritara að gera drög að reglum um skólaakstur í dreifbýli Snæfellsbæjar og leggja fyrir næsta bæjarstjórnarfund.
6. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 28. janúar 2021, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Welcome Iceland ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, stærra gistiheimili, að Hafnargötu 11 í Rifi, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Welcome Iceland ehf.m um leyfi til að reka gististað í flokki II, stærra gistiheimili, að Hafnargötu 11 í Rifi, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
7. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 28. janúar 2021, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Welcome Iceland ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, stærra gistiheimili, að Ólafsbraut 19 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Welcome Iceland ehf.m um leyfi til að reka gististað í flokki II, stærra gistiheimili, að Ólafsbraut 19 í Ólafsvík, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
8. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 28. janúar 2021, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Welcome Iceland ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki III, stærra gistiheimili, að Klettsbúð 9 á Hellissandi, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Welcome Iceland ehf.m um leyfi til að reka gististað í flokki III, stærra gistiheimili, að Klettsbúð 9 á Hellissandi, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
9. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 28. janúar 2021, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Welcome Iceland ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki IV, stærra gistiheimili, að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Welcome Iceland ehf.m um leyfi til að reka gististað í flokki IV, stærra gistiheimili, að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
10. Bréf frá forstöðumanni tæknideildar, dags. 1. febrúar 2021, ásamt reglum fyrir geymslusvæði Snæfellsbæjar í námusvæði við Rif.
Bæjarstjórn samþykkti framlagðar reglur samhljóða.
11. Reglur Snæfellsbæjar um tölvupóst og netnotkun.
Bæjarstjórn samþykkti framlagðar reglur samhljóða, og samþykkti jafnframt að fela bæjarritar að kynna reglurnar forstöðumönnum til áframhaldandi kynningar til starfsfólks.
12. Greining á rekstri Hjúkrunarheimilisins Jaðars, unnin af Hörpu Gunnarsdóttur.
Bæjarstjóri fór yfir greiningarskýrsluna sem gefur mjög góða mynd af rekstri heimilisins.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra, bæjarritara, launafulltrúa og forstöðumanni Jaðars að fara yfir þau atriði sem fram koma í skýrslunni og leggja fyrir bæjarstjórn minnisblað um hvort hægt sé að fara í einhverjar hagræðingaraðgerðir.
13. Bréf frá Borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 19. janúar 2021, varðandi kröfu Reykjavíkur á hendur íslenska ríkinu um greiðslu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Bæjarstjórn telur miður að borgarstjórn og borgarstjóri geri sér ekki grein fyrir því að Jöfnunarsjóðurinn er sjálfstæður lögaðili og allar kröfur sem beint er að ríkinu vegna hans lendi að sjálfsögðu á sjóðnum en ekki á ríkissjóði. Nýlegt dæmi er þegar sveitarfélög fóru í mál við Jöfnunarsjóð, og unnu, að krafan sem stofnaðist vegna þess, leiddi til lækkunar á framlögum til annarra sveitarfélaga, þar sem sjóðurinn þurfti að gera upp við þessi sveitarfélög. Fordæmið er því komið.
Jöfnunarsjóði eru markaðar tekjur skv. lögum til að útdeila til sveitarfélaga á Íslandi þannig að hafi, eins og borgin segir, sveitarfélögin fengið of mikið, þá þurfa þau að sjálfsögðu að greiða til baka sem nemur kröfu Reykjavíkurborgar.
14. Fundargerð 145. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 21. janúar 2021.
Varðandi 9. lið fundargerðarinnar, þá samþykkti bæjarstjórn samhljóða eftirfarandi bókun:
„Í Breiðuvík eru hús almennt í næsta nágrenni við þjóðveginn og fellur staðsetning nýs húss á Gröf því vel að byggðarmynstri á svæðinu. Auk þess hentar byggingarreiturinn vel til byggingar og er einn af fáum stöðum þar sem nýbygging veldur ekki verulegri röskun á ræktuðu landi, votlendi eða ósnortnu landi. Bæjarstjórn mælir því með að undanþága verði veitt.
Tekið skal fram að á Gröf er nú eitt íbúðarhús. Ekki þarf að gera deiliskipulag fyrir stakt íbúðarhús á jörðinni, eins og fram kemur í greinargerð með gildandi aðalskipulagi Snæfellsbæjar.“
Bæjarstjórn samþykkti fundargerðina samhljóða með framkominni athugasemd og bókun.
15. Fundargerð 319. fundar bæjarráðs Snæfellsbæjar, dags. 21. janúar 2021.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
16. Minnispunktar bæjarstjóra
- Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit ársins 2020.
- Bæjarstjóri ræddi um frumvarp um byggðakvóta og línuívilnun.
- Bæjarstjóri fór yfir kostnað við varmadælu í sundlauginni.
- Bæjarstjóri ræddi brunavarnaráætlunina.