Bæjarstjórn

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar
358. fundur
5. maí 2022 frá kl. 16.00 – 18:10

Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Sækja fundargerð

Dagskrá:

Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna.  Var að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.

1. Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2021. Seinni umræða.

Endurskoðendur Snæfellsbæjar mættu á fundinn undir þessum lið og fylgdu ársreikningi úr hlaði ásamt því að fara yfir samanburð á ársreikningum sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.  Jafnframt mættu forstöðumenn stofnana.

Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.

„ Rekstur Snæfellsbæjar kom mun betur út en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir og var jákvæður um 160 m.kr..  Útgjöld voru  nánast á pari við fjárhagsáætlun og það er eftirtektarvert að forstöðumenn stofnana Snæfellsbæjar eru að skila rekstri sinna stofnana enn eitt árið undir áætlun.  Þetta er mjög ánægjulegt og eiga forstöðumenn hrós skilið fyrir hversu vel þeir reka sínar stofnanir og hversu vel þeir eru að fylgjast með fjárhag sinna eininga.

Annað árið í röð setti heimsfaraldur covid-19 nokkurn svip á starfsemi og fjármál Snæfellsbæjar, þó í minna mæli en árið 2021.  Sveitarfélög voru hvött til að taka þátt í atvinnuátaki með Vinnumálastofnun sumarið 2021, eins og gert var árið 2020, sem Snæfellsbær gerði, og var launakostnaður sumarsins töluvert yfir fjárhagsáætlun vegna þess.

Reikningsleg stærð lífeyrisskuldbindinga setti stórt strik í afkomu Snæfellsbæjar árið 2021, en á árinu var áætlaðri hlutdeild launagreiðenda breytt úr 55% í 62,1% sem gerði það að verkum að í bókhald Snæfellsbær færðust tæpar 99 milljónir sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun.  Þrátt fyrir þetta varð afkoma Snæfellsbæjar jákvæð á árinu 2021.

Helstu lykiltölur ársreiknings eru taldar hér:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.940 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.625 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 2.266 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.094 millj. króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 160 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 21,6 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 181,6 millj. króna.  Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 11 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 33,8 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 44,8 millj. króna.  Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 4.312 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 3.131 millj. króna.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.541,4 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 143 stöðugildum í árslok.

Veltufé frá rekstri var 259 millj. króna og veltufjárhlutfall er 0,75.  Handbært frá rekstri var 239,5 millj. króna.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 5.042,3 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 6.373,2 millj. króna í árslok 2021. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.911 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 2.061 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 52 milljónir. 

Snæfellsbær hefur verið að greiða niður lán og minnka skuldir undanfarin ár, og á árinu 2021 skapaðist svigrúm til að taka hagstætt lán til að greiða niður óhagstæðari lán, sem kemur rekstri bæjarfélagsins til góða á næstu árum.  Hins vegar var verðbólga töluverð á árinu 2021 og jukust því skuldir Snæfellsbæjar að nafnvirði örlítið sem því nam á árinu 2021.  Hins vegar lækkuðu skuldirnar að raunvirði milli ára.

Skuldahlutfall Snæfellsbæjar er lágt, eða 84% hjá A-hluta og 70,1% hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta.  Ef notað er skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, þá fer prósentan niður í 61,17% fyrir A-hluta og 49,18% fyrir samstæðuna.  Snæfellsbær hefur því töluvert svigrúm til lántöku ef kemur til einhverra stærri tekjufalla í framtíðinni.

Eigið fé bæjarsjóðs nam um 3.131,3 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 4.311,9 millj. króna í árslok 2021.  Eiginfjárhlutfall er 62,1% á á árinu 2021 en var 64,29% árið áður.

Miklar fjárfestingar voru á árinu og fjárfesti Snæfellsbær fyrir 636,6 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum.

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 61,17% hjá sjóðum A-hluta, en var 56,63% árið 2020, og 49,18% í samanteknum ársreikningi en var 50,32% árið 2020.  Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða ársreikning Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2021 og voru reikningarnir undirritaðir.

Var nú forstöðumönnum og endurskoðendum þökkuð koman og véku þeir af fundi.

2. Fundargerð 160. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 3. maí 2022.

Varðandi lið 4, þá tekur bæjarstjórn undir það að bera ný götunöfn undir staðkunnuga í Ólafsvík.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

3. Fundargerð ungmennaráðs Snæfellsbæjar, dags. 23. mars 2022.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

4. Fundargerð 200. fundar Breiðafjarðarnefndar, dags. 15. febrúar 2022.

Lagt fram til kynningar.

5. Fundargerð 201. fundar Breiðafjarðarnefndar, dags. 5. apríl 2022.

Lagt fram til kynningar.

6. Fundargerð 909. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. apríl 2022.

Lagt fram til kynningar.

7. Fundargerð 443. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 1. apríl 2022.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf frá Sigríði Finsen, dags. 14. apríl 2022, varðandi beiðni um tilnefningu fulltrúa í samráðshóp um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar.

Tillaga kom um Kristinn Jónasson og var hún samþykkt samhljóða.

9. Ályktun frá aðalfundi Búnaðarfélags Staðarsveitar, dags. 8. apríl 2022, varðandi umhverfisverkefni, ásamt fundargerð aðalfundar Búnaðarfélagsins.

Árlegt hreinsunarátak í dreifbýli Snæfellsbæjar verður með sama sniði í ár og undanfarin ár.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 2. maí 2022, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Fjallabóls ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistihús, sem rekið er að Ennisbraut 2 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.

Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Fjallbóls ehf., um leyfi til að reka gististað í flokki II, minna gistihús, að Ennisbraut 2 í Ólafsvík, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.

11. Bréf frá Sólarsport ehf., dags. 26. apríl 2022, varðandi uppsögn á leigusamningi.

Laufey Helga Árnadóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, mætti á fundinn og var hún boðin velkomin.

Bæjarstjórn og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi fóru yfir málið og samþykktu samhljóða að bjóða aðstandendum Sólarsports til fundar með bæjarstjórn.  Bæjarritara var falið að hafa samband við eigendur til að finna hentugan tíma.

Vék Laufey Helga nú af fundi og var henni þökkuð koman.

12. Kjörskrá Snæfellsbæjar vegna sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí 2022.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða framlagðan kjörskrárstofn. 

Á kjörskrá eru 1205 einstaklingar, 732 í Ólafsvíkurkjördeild, 362 í Hellissands- og Rifskjördeild og 111 í Staðarsveitar- og Breiðuvíkurkjördeild.

Tvær breytingar hafa borist frá Þjóðskrá frá því að kjörskrá var send út og verður stofninum breytt í samræmi við það.

Ennfremur samþykkti bæjarstjórn samhljóða eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að semja kjörskrá.  Jafnframt er bæjarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna sveitarstjórnakosninga þann 14. maí n.k., í samræmi við 27.gr. kosningalaga.“

13. Minnispunktar bæjarstjóra.

    • Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðslu ársins.

Fundi slitið kl. 18:10