Bæjarstjórn

Bæjarstjórn
364. fundur
8. desember 2022 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 16:00 – 19:05.

Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Júníana B. Óttarsdóttir, Eiríkur Böðvar Rúnarsson (í fjarveru AK), Jón Bjarki Jónatansson, Michael Gluszuk, Margrét Sif Sævarsdóttir, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri, og Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Sækja fundargerð

Dagskrá:

Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn og gesti velkomna. Var að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár. 

1. Heimir Berg, markaðs- og kynningarfulltrúi Snæfellsbæjar, mætir á fundinn og fer yfir það sem er helst á döfinni.

Heimir mætti á fundinn og fór yfir þau verkefni sem hafa verið efst á baugi undanfarið:

snb.is.

Vefsíðan var sett upp frá grunni fyrir fjórum árum og komin tími til að skoða endurbætur og taka næstu skref. Síðan hefur virkað ágætlega en hefur ekki þróast á undanförnum árum. Þar sem við settum síðuna upp frá grunni fer mikill tími í viðhald, oft heilu dagarnir, og mikil „ósýnileg“ vinna í gangi, ef svo mætti að orði komast. Það verður einnig sífellt meira um villur og brotna hlekki sem erfiðara er að vakta til að geta lagað o.s.frv. Ég gerði síðuna sjálfur á sínum tíma.

Vefsíða tæknideildar

Gamla vefsíða tæknideildarinnar var komin til ára sinna og í raun orðin úreld fyrir löngu. Í haust fengum við að vita að vírus væri komin á síðuna og hún ekki örugg lengur. Síðunni var því lokað og vinna við nýjan og uppfærðan vef stendur núna yfir. Hægt að opna nýja vefsíðu snemma árs 2023. Ég geri síðuna sjálfur með aðstoð frá starfsfólki tæknideildar.

Lýsulaugar

Við settum vefsíðu í loftið fyrir Lýsulaugar. Allar aðrar náttúrulaugar á landinu er með einstaka síðu á netinu og þörf á að Lýsulaugar geri það líka. Ég gerði síðuna sjálfur með aðstoð frá starfsfólki Lýsulauga. Sjá lysulaugar.is

snaefellsbaer.is

Í covid var settur upp ferðavefur á þessu léni sem heppnaðist vel og var vel sóttur. Nú er verið að breyta honum í kynningarvef um sveitarfélagið sem á að draga fram hversu gott það er að búa hér og gera sveitarfélagið aðlaðandi fyrir nýja íbúa. Ég geri þessa síðu sjálfur frá grunni. Hægt að opna vefsíðuna snemma árs 2023.

Svæðismörkun Snæfellsness

Ég er tengiliður Snæfellsbæjar í stýrihóp um svæðismörkun á Snæfellsnesi, en það er forgangsverkefni Svæðisgarðsins og að ég held stærsta verkefni sem hann hefur ráðist í. Hluti af þessari svæðismörkun felst í nýrri vefsíðu og viðveru Snæfellsness sem einni einingu á samfélagsmiðlum undir merkinu Visit Snæfellsnes. Verkefnið hefur verið unnið með erlendum ráðgjöfum frá Englandi, Ítalíu og Ástralíu. Mikill tími hefur farið í þessa vinnu undanfarna mánuði og sér fyrir að álagið minnki þegar verkefnið launchar snemma á næsta ári.

Alfreð

Ég setti nýverið upp prófíl fyrir Snæfellsbæ hjá atvinnuauglýsingamiðlinum Alfreð. Alfreð er stærsti svona miðillinn í dag. Þennan vettvang getur sveitarfélagið (allar stofnanir) nýtt sér til að auglýsa laus störf og fanga athygli fólks í atvinnuleit alls staðar á landinu. Sjá snaefellsbaer.alfred.is/

Stafræn framþróun

Ég er tengiliður Snæfellsbæjar í stafrænu umbreytingarferli sveitarfélaga á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og fylgist með framvindu þar og hvaða lausnir við getum nýtt okkur hér í Snæfellsbæ.

Við þurfum að uppfæra vefsíðu sveitarfélagsins ef við ætlum að taka þátt í þessari stafrænu þróun sem er að eiga sér stað. Ég hef leitað tilboða fyrir nýja vefsíðu. Ég hef einnig leitað tilboða hjá OneSystems vegna rafrænnar íbúagáttar og OneLandRobot fyrir tæknideildina. Vonandi getum við tekið þetta áfram.

Góðar fréttir (af Snæfellsnesi)

Ég er í hóp með starfsfólki hinna sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og Svæðisgarðinum þar sem unnið er skipulega að því að fjölga „léttum“ fréttum frá Snæfellsnesi í fjölmiðlum. Þessi hópur hefur unnið saman sl. mánuði og hefur verið í miklum samskiptum við helstu fjölmiðla. Fréttum hefur fjölgað í kjölfarið og á eftir að fjölga enn meira.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Í september/október vann ég umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til úthlutunar á næsta ári. Það er mikill tími og vinna sem fer í þessar umsóknir og mikilvægt að vanda til verka þar sem mikil samkeppni er um fjármuni úr sjóðnum.

Barnamenningarhátíð Vesturlands

Við héldum barnamenningarhátíð í september. Hátíðin stóð yfir allan mánuðinn og var í raun full time verkefni. Það er heljar vinna að skipuleggja mánaðarlanga hátíð, fylgja henni úr hlaði og segja frá á helstu miðlum eftir því sem leið á hana. Ég sá um skipulag hátíðarinnar ásamt mörgu góðu fólki.

Hinseginhátíð Vesturlands

Ég kom að undirbúningi hátíðarinnar með íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og skipuleggjendum hátíðarinnar. Ég bar upp hugmynd að regnbogagötu við Kirkjustræti í Ólafsvík og gengum við Kristfríður Rós, Matthías Páll og Brynjar Vilhjálms í að mála götuna áður en hátíðin fór fram.

Átthagastofa og Röst

Ég hef umsjón með skrifstofurýminu í Röst á Hellissandi og Átthagastofu í Ólafsvík. Það getur verið ansi ósýnileg vinna og töluverð umsýsla, sér í lagi þegar prófatörn hefst í háskólum landsins. Það eru t.d. vetrarpróf í gangi núna og eitthvað um 20 nemendur sem taka 40+ próf í Átthagastofu. Mikill undirbúningur og samskipti við háskóla.

Áfangastaðafulltrúi og ferðamálaráð Vesturlands

Ég er áfangastaðafulltrúi Snæfellsbæjar og sit í ferðamálaráði Vesturlands fyrir hönd sveitarfélaganna á Snæfellsnesi. Í haust hefur verið fundað tvisvar og byrjað að undirbúa næsta ár, t.d. hvað hönnun og útlit á borðkorti varðar, heimasíður og annað kynningarefni.

Annað

Auk þessa hef ég umsjón með innsetninu efnis á vefsíðu og samfélagsmiðla, kem að skipulagi margra annarra viðburða í sveitarfélaginu; hvort tveggja með menningarnefnd eða íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

Var Heimi þökkuð koman og vék hann nú af fundi.

2. Fundargerð 336. fundar bæjarráðs, dags. 1. desember 2022.

Fundargerðin samþykkt samhljóða

3. Fundargerð menningarnefndar, dags. 17. nóvember 2022

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

4. Fundargerð stjórnar Dvalarheimilisins Jaðars, dags. 15. nóvember 2022.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5. Fundargerð rekstrarnefndar Klifs, dags. 29. nóvember 2022.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6. Fundargerð 142. fundar hafnarstjórnar Snæfellsbæjar, dags. 6. desember 2022

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

7. Fundargerð 164. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 8. desember 2022.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

8. Fundargerð 8. fundar Framkvæmdateymis Snæfellsbæjar, dags. 6. desember 2022.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

9. Fundargerð 201. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 29. nóvember 2022.

Lagt fram til kynningar.

10. Fundargerð 208. fundar Breiðafjarðarnefndar, dags. 25. október 2022.

Lagt fram til kynningar.

11. Fundargerð 915. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. nóvember 2022.

Lagt fram til kynningar.

12. Fundargerð 447. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 18. nóvember 2022.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf frá stjórnendum leikskóla Snæfellsbæjar, dags. 24. nóvember 2022, varðandi betri vinnutíma í leikskóla Snæfellsbæjar.

Bæjarstjórn gerir sér grein fyrir því að verkefnið um styttingu vinnuvikunnar, sem samið var um í síðustu kjarasamningum, hafi skapað vandamál á leikskólum landsins, sér í lagi þegar á sama tíma var samið um 10 klst. undirbúningstíma á viku fyrir leikskólaskennara í fullu starfi, sem gerir það að verkum að fjórðungur af vinnutíma leikskólakennara fer ekki fram á deildum leikskólanna.

Nú stendur fyrir dyrum kjarasamningsvinna milli verkalýðsfélaganna og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er með kjarasamningsumboð fyrir hönd sveitarfélaganna, og telur bæjarstjórn ekki rétt að gera sérsamninga á meðan á þeirri vinnu stendur.

Hins vegar, þá óskar bæjarstjórn eftir því að fá leikskólastjóra inn á næsta fund í janúar til að fara betur yfir þessi mál eins og þau standa hjá okkur.

14. Bréf frá Ragnheiði Víglundsdóttur og Jenný Guðmundsdóttur, dags. 30. nóvember 2022, varðandi kirkjumuni á annarri hæð Pakkhússins, ásamt greinargerð frá Hollvinafélagi Pakkhússins vegna skrásetningar og flokkunar á safnmunum.

Bæjarstjórn tekur jákvætt í það að munirnir sem um ræðir verði fluttir úr Pakkhúsinu í kirkjuna í Ólafsvík, en það þarf hins vegar að gæta að því að flutningurinn verði skráður formlega í Sarp.  Bæjarstjórn samþykkti að fela bæjarstjóra og bæjarritara að hafa samband við safnstjóra til að skoða hvaða leið þarf að fara.

Varðandi greinargerðina, þá upplýsti Fríða að búið sé að skrá alla muni Pakkhússins og safngeymsl-unnar og jafnframt taka myndir af öllum mununum.  Það var hins vegar handgert og það á enn eftir að skrá munina í Sarp.  Nú þarf bara að huga að því að fá einhvern aðila til að skrá munina í Sarp.

15. Bréf frá kórunum á Snæfellsnesi, dags. 1. desember 2022, varðandi styrk vegna tónleikahalds.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarritara að kanna hvernig þetta verkefni verður styrkt frá nágrannasveitarfélögunum og mun Snæfellsbæjar styrkja það á sama hátt.

16. Reglur fyrir geymslusvæði Snæfellsbæjar við námusvæði ofan Rifs.

Bæjarstjórn samþykkti framlagðar reglur samhljóða.

17. Minnispunktar um sérsöfnun úrgangs í Snæfellsbæ og Grundarfjarðarbæ, dags. 30. nóvember 2022.

Lagt fram til kynningar.

18. Jafnréttisáætlun Snæfellsbæjar 2022-2026.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða framlagða Jafnréttisáætlun Snæfellsbæjar fyrir árin 2022-2026.

19. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 5. desember 2022, varðandi breytingar í barnaverndarþjónustu sveitarfélaga.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga bs. barnaverndarþjónustu í Snæfellsbæ.  Bæjarstjórn samþykkti jafnframt að fela Félags- og skólaþjónustunni að sækja um undanþágu frá 6000 íbúa markinu.

20. Bréf frá Sorpurðun Vesturlands, dags. 30. nóvember 2022, varðandi gjaldskrá fyrir árið 2023.

Lagt fram til kynningar.

21. Fjárhagsáætlun og gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vesturlands fyrir árið 2023.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða fyrir sitt leyti fjárhagsáætlun og gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vesturlands fyrir árið 2023.

22. Gjaldskrár Snæfellsbæjar fyrir árið 2023.

Eftirfarandi gjaldskrár voru lagðar fram til samþykktar:

 • Álagningarprósenta útsvars í Snæfellsbæ:

Samþykkt samhljóða að álagningarprósenta útsvars árið 2023 verði 14,52% eða sú sama og árið 2022.  Bæjarstjórn gerir þó fyrirvara við þessa samþykkt vegna mögulegra breytinga á lögum frá Alþingi um útsvarsprósentur sveitarfélaga.

 • Gjaldskrá fasteignagjalda:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá leikskólagjalda:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá leikskólasels við Lýsuhólsskóla:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá Grunnskóla Snæfellsbæjar:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá Tónlistarskóla Snæfellsbæjar:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá sundlaugar og íþróttahúss Snæfellsbæjar í Ólafsvík:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá sundlaugarinnar á Lýsuhóli:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá sorphirðu í Snæfellsbæ:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá fyrir hundahald í Snæfellsbæ:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá fyrir kattahald í Snæfellsbæ:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

 •  Gjaldskrá tjaldsvæða Snæfellsbæjar:

Gjaldskráin samþykkt samhljóða.

23. Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2023. Seinni umræða.

Eftirfarandi var lagt fram til samþykktar:

 1. Styrkveitingar á árinu 2023

Fulltrúar J-listans komu með tillögu um að bæta við styrk til Mfl. Víkings vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. 

Júníana Björg og Margrét Sif véku af fundi undir þessari tillögu.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita Mfl. Víkings styrk að upphæð kr. 1.000.000.-

Júníana Björg og Margrét Sif komu nú aftur inn á fund.

Framlagðar tillögur að styrkjum 2023 var samþykkt samhljóða með framkominni breytingu.

2. Framkvæmdaáætlun Snæfellsbæjar 2023.

Fulltrúar J-listans komu með fyrirspurn um það hvort ekki væri best að fara í frekari framkvæmdir við sundlaugina í Ólafsvík til að gera aðgengi fatlaðra auðveldara og þannig að hjólastólar komist inn.

Umræða skapaðist um það að nú þegar sé verið að gera aðgengið að sundlauginni og klefunum betra fyrir fatlaða.

Framkvæmdaáætlun Snæfellsbæjar 2023 samþykkt samhljóða.

3. Framkvæmdaáætlun Hafnarsjóðs 2023 samþykkt samhljóða.

Eftirfarandi bókun var lögð fram frá bæjarstjórn Snæfellsbæjar:

“Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur í sameiningu unnið að gerð fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2023.  Samstarf bæjarstjórnar hefur verið gott í þessari vinnu og samstaða verið um breytingar á gjaldskrám, styrkveitingar og framkvæmdaliði fyrir árið 2023.

Verðbólga ársins 2022 fór töluvert fram úr því sem búist var við og telur bæjarstjórn þörf á að mæta þeim kostnaði sem sú verðbólga hefur valdið með gjaldskrárhækkunum, sem nema þó ekki nema 5% að meðaltali á meðan verðbólgan hefur verið í kringum 10%.  Gjaldskrár hækka þó ekki allar.  Gjaldskrá leikskólagjalda stendur í stað.  Jafnframt er engin hækkun á gjaldskrá barna, aldraðra og öryrkja í sund. 

Gjaldskrá fasteignagjalda tekur einnig breytingum.  Þegar gefið var út nýtt fasteignamat fyrir árið 2023 um mitt ár 2022 var fyrirsjáanlegt að ef engar breytingar yrðu gerðar á álagningarprósentu fasteignagjalda myndu gjöldin hækka um hátt í 25% á árinu 2023.  Bæjarstjórn tók því ákvörðun um að lækka álagningarprósentur fráveitugjalda um 26%  og vatnsgjalds um 30%, en þessi lækkun gerir það að verkum að hækkun fasteignagjalda helst í hendur við verðbólgu ársins 2022.

Svo við tökum dæmi:

  2022 2023               án breytinga á gjaldskrá 2023               með breytingu á gjaldskrá
 
 
180 fm hús í Ólafsvík 329.535 411.415 370.660
260 fm hús í Ólafsvík 529.730 632.780 562.320
120 fm hæð í Rifi 219.945 272.483 247.068
160 fm hús á Hellissandi 330.290 379.680 361.020

Afsláttur fasteignaskatts til elli- og örorkulífeyrisþegar hækkar, ásamt viðmiðunarmörkum tekna, sem nemur launavísitölu ársins.

Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt, en þó með fyrirvara um breytingar á lögum frá Alþingi um útsvarsprósentur sveitarfélaga.

Bæjarstjórn  leggur  áherslu á að viðhalda þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er.  Styrkir til félagasamtaka á árinu 2023 verða samtals kr. 65.380.000.-  Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs.

Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna og á árinu 2023 mun sá styrkur hækka úr kr. 20.000.- á barn í kr. 30.000.-, eða um 50%.

Svigrúm til framkvæmda er ágætt.  Áfram er gert er ráð fyrir því að meginhluta framkvæmda ársins 2023 verði í viðhaldsframkvæmdum á húsnæði bæjarins.  Samtals er gert ráð fyrir tæpum 95 milljónum í viðhaldsverkefni í grunnskóla, leikskóla og fleiri stöðum.  Það hefur háð okkur töluvert undanfarin ár hversu erfitt hefur verið að bóka iðnaðarmenn í verkefnin sem við þurfum að vinna, en það horfir vonandi til bóta á árinu 2023.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði um 514 milljónir króna sem er nokkuð á pari við árið 2022, þar af um 244 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og rúmar 270 milljónir hjá Hafnarsjóði.  Stærstu framkvæmdir ársins 2023 verða trébryggja og stálþil við Norðurtangann í Ólafsvík, malbikun gatna í þéttbýli Snæfellsbæjar, endurnýjun á þaki grunnskólans á Hellissandi og ný rennibraut á útisvæði sundlaugarinnar í Ólafsvík.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er ágæt.  Gert var ráð fyrir lántöku upp á 200 milljónir í fjárhagsáætlun ársins 2022, en ekki hefur verið nauðsynlegt að nýta þá heimild.  Snæfellsbær er því ekki að auka við lán á árinu 2022, heldur lækka lán sín töluvert á raunvirði.  Á árinu 2023 er gert ráð fyrir lántöku að upphæð 100 milljónir króna til að mæta fjárfestingum.

Fjárhagsáætlun ársins 2023 gerir ráð fyrir að skila rekstrarafgangi upp á rúmar 52 milljónir hjá A-hluta sjóðum, en um 134 milljónum hjá samanteknum A- og B-hluta sjóðum.  Það þýðir að reksturinn gefur ákveðið svigrúm til fjárfestinga og ekki þurfi að fjármagna allar fjárfestingar ársins með lántöku.  Skuldahlutfall Snæfellsbæjar í ársreikningi 2021 var 84% hjá A-hluta og 70,1% hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta, en ef notað er skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, þá fer prósentan niður í 61,17% hjá A-hluta og 49,18% fyrir samstæðuna.  Þar sem engin lán voru tekin á árinu 2022 er gert ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar verði enn lægra í árslok 2022 og jafnframt er gert ráð fyrir að það lækki enn frekar á árinu 2023 þar sem gert er ráð fyrir að afborganir lána verði töluvert hærri en hugsanleg lántaka.  Rétt er að taka fram að skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarfélaga ekki fara yfir 150% og er Snæfellsbær vel innan þeirra marka.

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2023, eins og áður kemur fram, eða um 270 milljónir króna.  Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.  Ekki er gert ráð fyrir neinum lántökum hjá Hafnarsjóði á árinu 2023.

Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum.  Ljóst er þó að kjarasamningar eru flestir, ef ekki allir, lausir nú um eða eftir áramótin, sem gerir það að verkum að rennt er blint í sjóinn með áætlun launa fyrir árið 2023.  Hagstofan gerir ráð fyrir 5,4% hækkun launavísitölu á árinu 2023 og er það viðmiðið sem notað er í fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar.  Rekstur stofnana hefur gengið mjög vel á árinu 2022 og er að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar.  Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram farsælt, því einungis þannig verður hægt að ná fram góðum rekstri hjá sveitarfélaginu.

Björn H Hilmarsson

Júníana Björg Óttarsdóttir

Eiríkur Böðvar Rúnarsson

Jón Bjarki Jónatansson

Michael Gluszuk

Margrét Sif Sævarsdóttir

Fríða Sveinsdóttir“

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2023 var samþykkt samhljóða.

24. Þriggja ára áætlun Snæfellsbæjar fyrir árin 2024-2026

Þriggja ára áætlun Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árin 2024-2026 var lögð fram og samþykkt samhljóða.

25. Minnispunktar bæjarstjóra.

 • Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit ársins.
 • Bæjarstjóri fór yfir stöðu einstakra stofnana.
 • Bæjarstjóri ræddi læknamál í sveitarfélaginu.
 • Bæjarstjóri ræddi málefni Hafró.
 • Bæjarstjóri ræddi sauðfjárgirðingar.

Fundi slitið kl. 19:05.