Fundargerðir

Fundargerð bæjarstjórnar
309. fundur
6. júní 2018 frá kl. 16.00 – 17:30

Fundinn sátu: Björn H. Hilmarsson, Kristjana Hermannsdóttir, Júníana B. Óttarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Kristján Þórðarson, Svandís Jóna Sigurðardóttir, Fríða Sveinsdóttir, Kristinn Jónasson bæjarstjóri og Lilja Ólafardóttir bæjarritari.

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir bæjarritari.

Sækja fundargerð

Dagskrá:

Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn og gesti velkomna. Óskaði hann eftir að fá að taka inn með afbrigðum sem 23. lið bréf frá Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, dags. 4. júní 2018. Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.

1. Fundargerð 296. fundar bæjarráðs Snæfellsbæjar, dags. 15. maí 2018.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð 163. fundar menningarnefndar, dags. 22. maí 2018.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

3. Fundargerðir 190., 192., 194. og 195. fundar fræðslunefndar, dags. 31. janúar og 5. október 2017 og 2. og 3. maí 2018.

Fundargerðirnar samþykktar samhljóða.

4. Fundargerð 115. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 1. júní 2018.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5. Fundargerð aðalfundar Jeratúns ehf., dags. 29. maí 2018.

Lagt fram til kynningar

6. Fundargerðir 402. og 403. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 19. mars og 23. apríl 2018.

Lagt fram til kynningar.

7. Fundargerðir 859. og 860. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. apríl og 18. maí 2018.

Lagt fram til kynningar.

8. Kauptilboð í Ólafsbraut 64.

Bæjarstjóri fór yfir málið.  Bæjarstjórn samþykkti framlagt kauptilboð samhljóða.

9. Kaupsamningur og afsal um Ólafsbraut 62.

Bæjarstjórn samþykkti framlagðan kaupsamning og afsal samhljóða.

10. Bréf frá Lárusi Skúla Guðmundssyni, dags. 31. maí 2018, varðandi lóðarleigu.

Samkvæmt gjaldskrá er lóðaleiga í Snæfellsbæ 1,8% af lóðamati allra húseigna sem eru í A-flokki og 2,5% af húseignum í C-flokki.  Í A-flokki eru íbúðir, íbúarhús, sumarhús, útihús og mannvirki á bújörðum tengd landbúnaði, en í C-flokki eru allar aðrar byggingar.  Lóðamat allra lóða, ásamt fasteignamati allra fasteigna, kemur frá Fasteignamati ríkisins (Þjóðskrá Íslands) og hækkar eða lækkar ár hvert samkvæmt forsendum sem FMR gefur sér.  Allir fasteignaeigendur í Snæfellsbæ greiða lóðaleigu samkvæmt þessu mati, það eru engir undanskildir og engir sem borga hærri lóðaleigu en gjaldskrá og lóðamat gefa tilefni til.

Varðandi lóðarleigusamninga, þá er almenna reglan sú að lóðarhafi þinglýsir lóðarsamningi til að tryggja rétt sinn gagnvart sveitarfélaginu, og eins til að geta fengið lán út á eignina.  Án þinglýsts lóðarleigusamning er ekki hægt að fá byggingar- og/eða framkvæmdalán út á þá fasteign sem stendur eða kemur til með að standa á lóðinni.  Allir þeir sem óska eftir að fá úthlutaða lóð fá lóðarleigusamning, en það er lóðarhafa að sjá um að þinglýsa viðkomandi samningi.

11. Bréf frá Nesver ehf., dags. 1. júní 2018, varðandi forkaupsrétt Snæfellsbæjar að Þosteini SH-145, skrnr. 2826.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að falla frá forkaupsrétti að bátnum Þorsteini SH-145, skrnr. 2826.

12. Bréf frá Gauti Hansen og Eiríki Gautssyni, dags. 30. apríl 2018, varðandi lagfæringu á vegarkafla við Dalbraut 2 í Ólafsvík.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra að láta klæða þennan vegarkafla næst þegar klæðningarflokkur kemur á staðinn.

13. Bréf frá öryggisnefnd Grunnskóla Snæfellsbæjar, dags. 9. maí 2018, varðandi aukið umferðaröryggi skólabarna við íþróttahúsið í Ólafsvík.

Bæjarstjórn þakkar bréfið  og góðar ábendingar.  Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fela tæknideildinni að fara yfir þær tillögur sem fram koma í bréfinu og gera ráð fyrir úrbótum í fjárhagsáætlun 2019.  Bæjarstjórn vill jafnframt stefna að því að fara í átak í haust, í samvinnu við lögregluna, þar sem höfðað er til foreldra að keyra varlega í kringum skóla og íþróttahús.

14. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 11. maí 2018, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Scaritas ehf. um leyfi til reksturs veitingarstaðar í flokki II, veitingahús, í Samkomuhúsinu Snæfelli á Arnarstapa, Snæfellsbæ.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Scaritas ehf., um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II, veitingahús, í Samkomuhúsinu Snæfelli á Arnarstapa, Snæfellsbæ, að því tilskildu að umhverfis- og skipulagsnefnd, slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.  Bæjarsjtórn gerir fyrirvara um það að það vantar sorpsamning og væntir þess að hann berist sem fyrst.

15. Bréf frá skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 1. júní 2018, varðandi þátttöku Snæfellsbæjar í framkvæmdum á lóðarmörkum.

Bæjarstjórn tekur undir með skipulags- og byggingarfulltrúa, enda hefur Snæfellsbær ekki tekið þátt í slíkum kostnaði áður við sambærilegar aðstæður.

16. Bréf frá Breiðafjarðarnefnd, dags. 2. maí 2018, varðandi verndaráætlun fyrir Breiðafjörð.

Lagt fram til kynningar.

17. Bréf, dags. í maí 2018, varðandi aldarafmæli sjálfstæði og fullveldis Íslands, ásamt kynningu á fræðsluefni á vefnum fullveldi1918.is.

Bæjarstjórn samþykkti að vísa erindinu til skólastjóra, leikskólastjóra, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og upplýsinga- og kynningarfulltrúa Snæfellsbæjar og fela þessum aðilum að lista upp það sem fyrirhugað er í Snæfellsbæ varðandi 100 ára fullveldisafmæli Íslands, og jafnframt að huga að því að fullveldisfánunum verði flaggað við öll þau tilefni sem gefast í ár.

18. Bréf frá Óskari Magnússyni, dags. 2. maí 2018, varðandi starfsemi landsamtaka landeigenda á Íslandi.

Lagt fram til kynningar.

19. Bréf útgerða dragnótabáta í Snæfellsbæ til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, ódags., varðandi lokanir svæða fyrir króka- og dragnótaveiðar á grunnslóð.

Bæjarstjórn lýsir miklum áhyggjum af því ef af þessum lokunum verður.  Bæjarstjórn tekur undir með bréfriturum og skilur ekki hvers vegna verið er að blanda dragnóta- veiðum inn í þessar umræður.

20. Bréf frá Jafnréttisstofu, dags. 29. maí 2018, varðandi skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum.

Lagt fram til kynningar.

21. Bréf frá Inspectionem, dags. 27. apríl 2018, varðandi aðstoð við brunavarnaáætlanir.

Lagt fram til kynningar.

22. Bréf frá IOGT, dags. 2. maí 2018, varðandi umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Lagt fram til kynningar.

23. Bréf frá Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, dags. 4. júní 2018, varðandi land til skógræktar.

Bæjarstjórn tekur jákvætt í erindið og samþykkti samhljóða að vísa því til formlegrar afgreiðslu til umhverfis- og skipulagsnefndar.

24. Minnispunktar bæjarstjóra.

  • Bæjarstjóri sagði frá því að kranabíllinn í Áhaldahúsinu sé orðinn ónýtur og nánast nauðsynlegt sé að endurnýja hann. Þessi bíll er í stöðugri notkun, bæði vetur sem sumar.  Bæjarstóri óskaði eftir því að fá aukafjárveitingu til að kaupa nýjan bíl.  Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að veita aukafjárveitingu að upphæð 8 milljónir til að kaupa nýjan kranabíl fyrir Áhaldahúsið.  Fjárveitingin verður tekin af liðnum „Ófyrirséð“.
  • Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit fyrstu mánaða ársins 2018.
  • Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:

„Undirritaður vill þakka fráfarandi bæjarstjórn afar ánægjulegt samstarf og sér í lagi þakka þeim Kristjáni Þórðarsyni og Kristjönu Hermannsdóttur samstarfið undanfarin ár, en þau hverfa nú úr bæjarstjórn. 

Samstarf okkar Kristjáns hófst árið 2002 eða fyrir 16 árum og vil ég þakka honum gott samstarf þessi 16 ár.  Kristjana hefur setið í bæjarstjórn í 3 kjörtímabil, eða 12 ár og verið forseti bæjarstjórnar og nú síðast formaður bæjarráðs og hefur samstarfið við hana verið afar gott og ánægjulegt.  Kristjáni og Kristjönu óska ég alls hins besta og þakka þeim afar ánægjulegan tíma.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri.“

Fundi slitið kl. 17:30.