Framkvæmdateymi Snæfellsbæjar
1. fundur
17. maí 2022 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 09:00 – 10:18.
Fundinn sátu: Kristinn Jónasson, Ragnar Már Ragnarsson, Vagn Ingólfsson, Matthías Páll Gunnarsson, Björn Arnaldsson, Ævar Sveinsson, Baldvin Leifur Ívarsson og Hilmar Már Arason.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Dagskrá:
- Bæjarstjóri fór yfir ástæðuna fyrir þessum fundi, en honum þótti miður hvernig talað var um viðhald stofnana bæjarins í kosningabaráttunni fyrr í mánuðinum. Honum þykir því tilefni til að breyta upplýsingaflæði til bæjarstjórnar með mánaðarlegum fundum framkvæmdateymisins sem hér er mætt þar sem bókað er hvað búið er að gera í viðhaldsverkefnum og hvað er á dagskránni. Framkvæmdaraðilar gefa skýrslu sem bókuð er í undirritaðri fundargerð og eru þær fundargerðir lagðar fram fyrir bæjarstjórn. Við munum jafnframt fara yfir viðhaldsþörfina til lengri tíma svo möguleikinn sé á því að bóka iðnaðarmenn fram í tímann. Það er alltaf verið að sinna einhverju viðhaldi og það virðast ekki allir gera sér grein fyrir því hversu mikið er að gera hjá þeim aðilum sem sinna viðhaldsverkefnum hjá okkur. Bæjarstjóri tók fram að öll gagnrýni eigi rétt á sér og þegar hún kemur fram þá verðum við að bæta okkur. Það sé megin markmiðið með þessum fundum. Hópurinn hér inni sé teymi og það sé gott að geta talað saman og fengið ábendingar frá öðrum. Helsta vandamálið okkar undanfarið er hins vegar það hversu erfitt er að fá iðnaðarmenn til að vinna hjá okkur, enda er mikið að gera hjá þeim og erfitt að fá þá með stuttum fyrirvara.
- Ragnar fór yfir það að það þyrfti að fara í ástandsskoðun og gera viðhaldaáætlun. Gluggar eru að koma í 4 stofnanir. Það þarf að fara í viðgerð á þakinu á Ráðhúsinu og grunnskólanum á Hellissandi. Við þurfum hins vegar að gera framtíðarplan, því miðað við verkefnastöðuna hjá iðnaðarmönnunum okkar, þá þurfum við að geta bókað þá í verkefni með löngum fyrirvara. Viðhaldsáætlunin þyrfti að vera lifandi skjal sem allir geta fyllt inn í þar sem hægt er að fylgjast með hvað búið er að gera í verkefnum sem standa fyrir dyrum.
- Hilmar kom inn á það að kannski þyrfti að fá fagmann til að ganga í gegnum stofnanirnar til að meta það sem þyrfti að gera.
- Fundarmenn voru sammála um þörfina fyrir fundum sem þessum, og voru sammála um að þeir yrðu haldnir á þriðjudögum fyrir bæjarstjórnarfund. Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 31. maí. Á þeim fundi verður farið yfir og bókaðar framkvæmdir undanfarið.
- Kristinn sagði að sig langaði til að biðja Ragnar og Ævar um að gera ástandsskoðun á slökkviliðshúsinu og gera áætlun til úrbóta. Þarf að skoða ástæður fyrir leka og þakkantinn. Þetta þyrfti að gera fyrir næsta fund. Jafnframt að Matthías fengi aðila til að gera við múrskemmdirnar á íþróttahúsinu. Ævar þarf að láta einhvern fara að mála gangbrautir. Svo þarf að fara að mála tjaldstæðishúsið. Ævar og Leifur upplýstu um það að það væri þegar byrjað. Björn upplýsti að verið væri að vinna í dekkjalengjunum.
- Kristinn upplýsti að hver einasta stofnun hefur viðhaldsfé í fjárhagsáætlun á hverju ári, sem ætlað er í smærra viðhald.Forstöðumenn hverrar stofnunar nýta þann pening eftir þörfum.
- Varðandi gólfdúkana sem á að skipta um í ár, þá er Vagn búinn að fá dúkara sem mun panta dúka og fullvissar okkur um það að hann komist til okkar í sumar og allt verði tilbúið áður en skóli byrjar í haust. Vagn sagði að hann myndi fylgja því eftir.
- Björn fór yfir það að það þurfi að hugsa allt með góðum fyrirvara, því það væri ekki einungis erfitt að fá iðnaðarmenn með stuttum fyrirvara, heldur væri líka erfitt að nálgast efnið sem þarf í verkið. Hann sagði frá því að keyptir hefðu verið gluggar og hurðar í hafnarhúsið í Ólafsvík í fyrra, og nú standa vonir til þess að hægt sé að fá iðnaðarmenn í sumar. Björn á von á svari fyrir helgi. Jafnframt er búið að kaupa nýjan löndunarkrana, sem kominn er til landsins, og bíður nú eftir því að hægt sé að setja hann upp. Það er níu mánaða bið eftir afhendingu krana og því var hann pantaður í haust svo hann væri kominn þegar búið yrði að steypa þekjuna við Norðurtanga í Ólafsvík og hægt að setja hann niður. Búið er að ganga frá samningi við verktaka og planið er að byrjað verði á verkinu núna um mánaðarmótin. Mælingarmaður er að koma frá Vegagerðinni til að mæla fyrir sjóvörnum í Ólafsvík og á Hellnum. Gert er ráð fyrir útboði um eða eftir miðjan júní. Búið er að mæla fyrir sjóvörnum við Ólafsbrautina innan Klifs og jafnframt búið að hanna það nánast að fullu.
- Leifur sagði frá því að framkvæmdum við íbúðina í Vallholt 19 fari að ljúka. Framkvæmdatími við íbúðir fer að verða búinn, nú verður að snúa sér að útiframkvæmdum.
- Varðandi þökin, þá er búið að leita til verktaka í Snæfellsbæ og þeir hafa allir gefið verkin frá sér. Það er því spurning hvort ætti ekki að fara að leita annað. Járnið á tónlistarskólann og á Gufuskálum er búið að liggja í tvö ár og getur ekki beðið lengur. Þakið á skólanum er líka nauðsynlegt. Jafnframt er nauðsynlegt að skipta um glugga í austurhlið grunnskólans. Um leið og skólinn fer í sumarfrí verða gluggaskipti undirbúin og allt verður tilbúið um leið og veður leyfir og iðnaðarmenn komast í verkið. Hurðin í grunnskólann á Hellissandi er komin í framleiðslu, en það liggur ekki fyrir dagsetning á því hvenær hún verður tilbúin. Gert er ráð fyrir að þetta verði innan mánaðar, en þeir sem framleiða hurðina munu setja hana í. Vagn vildi að það kæmi fram að það þyrfti að fara að mála og gera við skólann á Hellissandi og þakkantinn.
- Ragnar fór í vettvangsskoðun á líkhúsinu um daginn og það er kominn tími á að laga það. Það er ýmislegt sem hægt er að gera strax með litlum tilkostnaði, en annað þarfnast meiri framkvæmda. Umræður urðu um hvað hægt sé að gera og var Ragnari falið að kanna möguleika og verð.
Næsti fundur verður þriðjudaginn 31. maí kl. 09:00.