Framkvæmdateymi Snæfellsbæjar
11. fundur
7. mars 2023 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 09:00 – 10:50.
Fundinn sátu: Kristinn Jónasson, Vagn Ingólfsson, Matthías Páll Gunnarsson, Ævar Sveinsson, Baldvin Leifur Ívarsson og Ragnar Mar Ragnarsson. Björn Arnaldsson er í fríi.
Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
Dagskrá:
1. Björn er í fríi, en sendi neðangreinda punkta um framkvæmdir á vegum Hafnarsjóðs:
- Framkvæmdir við þekju og lagnir á Norðurtanga í Ólafsvík halda áfram. Verið er að undirbúa vinnu við vatns og rafmagnsbúnað inni.
- Endurbætur á hafnarhúsinu í Ólafsvík halda áfram, verið er að undirbúa næsta áfanga sem er viðbygging og framkvæmdir innan húss.
- Vinna við dýpkunarframkvæmdir í innsiglingunni til Rifshafnar er stopp eins og áður hefur komið fram.
- Búið er að hanna og teikna stækkun og hækkun á trébryggju við gafl stálþils við Norðurtanga í Ólafsvík. Útboði vegna efniskaupa á festingaefni þ.e. boltum, snittteinum o.þ.h. er lokið og bárust 4 tilboð. Lagt til að samið verði við Ísól ehf. Verið er að vinna við verklýsingu og útboðsgögn og er gert ráð fyrir að verkið verði boðið út um n.k. mánaðarmót.
- Búið er að skipta um og endurbæta götulýsingu á hafnarsvæði Ólafsvíkurhafnar við Gilbakka á milli Trébryggju og Suðurþils. Lokafrágangur á götulýsingu er eftir á gatnamótum Norðurtanga og Snoppuvegar í Ólafsvík.
- Vegagerðin hefur lagt fram tillögu að endurbótum á sjóvörn við Marbakka í Staðarsveit og er verið að ræða við húseigendur um málið.
- Vegagerðin bauð út þann 16.01. s.l. framkvæmdir við 3 sjóvarnaverkefni í Snæfellsbæ þ.e. við Ólafsbraut og Ennisbraut í Ólafsvík og á Hellnum. Tilboðin voru opnuð þann 31.01. s.l. og bárust 3 tilboð. Vegagerðin leggur til að samið verði við lægstbjóðanda, Flakkarann ehf. á Brjánslæk.
- RARÍK er að tengja og ganga frá og nýrri heimtaug í nýtt masturshús við Norðurgarð í Ólafsvík.
- Búið er að steypa alla gangstéttina við hafnarhúsið í Ólafsvík, var gert í síðustu viku.
2. Ævar fór yfir framkvæmdir:
- Unnið var við Ólafsbraut 23. Lokið við bita í gólfi og gengið frá krossviði í gólfi. Loftið var einangrað. Píparinn er byrjaður að leggja í millibygginguna og rafvirkinn er byrjaður að tengja, en verkið gengur hægt hjá báðum.
- Tími hefur farið í vetrarþjónustu undanfarinn mánuð, eða til 23. febrúar þegar snjóa leysti.
- Lagaður leki á heimtaug að Arnarbæ á Arnarstapa.
- Lagaður var inntakskrani á nýja veitingastaðnum fyrir ofan höfnina á Arnarstapa.
- Skipt var um vatnsinntak á Grundarbraut 8.
- Vatnsbólið í Ólafsvík er vaktað, það vantar vatn.
- Búið er að panta áfellur á þakkant á Ólafsbraut 23 og Þ.B. Borg verktakar eru mögulega væntanlegir í þessari viku.
- Lesið var af rafmagni af eignum Snæfellsbæjar í Ólafsvík.
- Sölvi er búinn að vera í 10 daga fríi á Tenerife.
- Frágangi og viðgerð á jólaskrauti lauk í febrúar.
- Hreinsuð var lögn á Gilbakka og Bankastræti upp að Ólafsbraut heim að Norðurtanga.
3. Leifur fór yfir framkvæmdir
- Skrifstofa á Jaðri var máluð og sett saman ný húsgögn. Aðstaðan þar er að verða mjög góð.
- Verið er að vinna í íbúð 8 á Gufuskálum. Þar var ónýtur veggur, gólfefni og eldhúsinnrétting vegna leka. Jafnframt var málað skýli að norðanverðu og það lagað að innan.
- Mánuðurinn hefur líka farið í önnur mál, s.s. á Jaðri, í leikskólunum og hjá einstaklingum í íbúðum Snæfellsbæjar.
- Leifur og Ragnar hafa rætt að fara um svæðið og gera ástandsskoðun og viðhaldsáætlun á stærri eignum sem lögð yrði fyrir hér.
4. Vagn fór yfir framkvæmdir
- Vinna við töluvgeymsluherbergið í skólanum í Ólafsvík var að klárast.
- Pantaður hefur verið hitaþráður í þakrennuna í anddyrinu í Ólafsvík. Búið er að panta áfellurnar og þær eru komnar. Ekkert vatn er að koma í kerfisloftið núna þar sem það hefur verið mokað reglulega. Nýjar áfellur ættu að loka þeim stöðum sem leka. Spurning hvort þarf að skoða eitthvað undir plöturnar áður en farið er í að setja áfellurnar á eða setja þær á og sjá hvort það hafi ekki þornað nægilega mikið á milli til þess að engar skemmdir séu undir plötunum.
- Búið að laga neyðarrofa á sög í smíðastofunni á Hellissandi.
- Það hefur verið ástand á hitarofunum sem settir voru í gólfið í anddyrinu á Hellissandi. Píparinn er búinn að koma að skoða þetta, mögulega er thermostatið bilað, en verið er að reyna að komast til botns í þessu. Spurning hvort skipta þarf um nemana.
- Mikið umstang í skólanum í mánuðinum, ýmis smáatriði sem hefur þurft að huga að og þau safnast saman.
- Í febrúar var nóg að gera við að moka snjó og halda aðgengi opnu að skólanum.
- Það hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að fara mjög reglulega yfir varmadælurnar og hreinsa þær. Þær safna ansi miklu af ryki í sig.
- Í gær kom dúkamaður að skoða þakið á skólanum á Hellissandi og setti bót á þann stað sem verstur hefur verið. Sá hann skemmdir sums staðar á dúknum, sumt er hægt að laga með því að kítta, t.d. í kringum túðurnar.
- Við erum stopp í gluggaísetningum, en verktakar eru væntanlegir í mánuðinum þegar færi gefst, en það má ekki vera of kalt, og veðurspáin gerir ráð fyrir miklum kulda fram yfir miðjan mánuð.
- Beðið er eftir teikningum að tillögum að nýju þaki á skólann á Hellissandi.
- Rætt var um eldhúsið í Ólafsvík. Vagn er búinn að teikna upp hugmyndir að breytingum á eldhúsinu og gera kostnaðaráætlun og tímaáætlun, sem hann lagði fram. Kostnaðaráætlunin er upp á kr. 12.578.000.- og tímaáætlunin miðast við 13. mars – 22. maí 2023. Vagn lagði jafnframt fram myndir sem sýna að ástand gólfdúksins í eldhúsinu er afskaplega lélegt. Vagn og Ragnar hafa rætt saman og eru á sömu blaðsíðu hvað varðar hugsanlegan kostnað. Vagn vildi að það væri bókað að hann var ósáttur við að ekkert var bókað um ástand eldhússins á síðasta fundi framkvæmdateymisins og að myndir sem hann kom með til bæjarritara voru ekki lagðar fram á síðasta bæjarstjórnarfundi með síðustu fundargerð framkvæmdateymisins. Rætt var um að það þyrfti að sækja um aukafjárveitingu fyrir þessum framkvæmdum, og jafnframt var rætt um það hvenær væri besti tíminn til að fara í þessar framkvæmdir þar sem það þyrfti að loka eldhúsinu í töluverðan tíma vegna þeirra.
5. Matthías fór yfir framkvæmdir í íþróttamannvirkjum
- Í sundlaugarhúsnæði í Ólafsvík voru stíflur í skólplögnum sem búið er að losa. Jafnframt var lagað eitt klósett niðri.
- Skilti var sett á sánatunnuna, og ýmislegt þarf að dytta að henni.
- Sett var upp tímaklukka fyrir sundþjálfara.
- Allar síur í varmadælum voru hreinsaðar, vatnssíur og segulsíur.
- Haldið áfram að skipta um ljós og tengla í sundlauginni.
- Haldið áfram að einangra lagnir í sundlaugarkjallaranum þegar tími gefst.
- Lokið við frágang á eldvarnarhurð í sundlaugarkjallaranum.
- Í febrúar voru teknir 1000 lítrar af klór sem geymdur er í kompunni úti.
- Í íþróttahúsinu í Ólafsvík hefur loftræstikerfið verið erfitt, mögulega vegna veðurs. Síuvakar segja að síurnar séu stíflaðar, en svo var ekki, enda voru þær settar í í sumar. Spurning hvort þurfi að endursetja vakana.
- Gert var við skúringarvel í íþróttahúsinu.
- Töluverður snjómokstur var í febrúar, bæði af þökum til að minnka leka og af gangstígum til að halda aðgengi opnu.
- Eitt mark eyðilagðist á fótboltavellinum í vetur. Það þarf eflaust að endurnýja það fyrir sumarvertíðina. Það er stundum erfitt að eiga við þjálfara um að ganga vel frá mörkunum eftir æfingar. Það er mikilvægt að festa þau vel niður svo þau fjúki ekki til og skemmist, eða skemmi gervigrasið, þegar hvessir. Spurning um að fá sérstaka lása fyrir festingarnar og láta þjálfarana bera ábyrgð á því að festa þau eftir æfingar.
- Hleðslan í kringum eitt mastrið er farin að halla. Það þarf að fylgjast vel með hvort hallinn eykst eða hvort hann smelli til baka þegar frost fer úr jörð.
- Hitatúpa í íþróttahúsinu á Hellissandi sló út í vetrarfríinu. Mús fór í viftuna og er hún ónýt.
- Kominn er tími á ruslaferð úr íþróttahúsinu á Hellissandi.
- Búið er að setja nýtt wifi í leikskólann á Hellissandi. Svo hafa verið hin og þessi verkefni í gangi, tölvuaðstoð og fleira, sem hlaupið hefur verið í þegar tími hefur gefist.
6. Ragnar fór yfir ýmsar framkvæmdir
- Unnið er að því að innleiða þjónustugátt fyrir tæknideildina. Sú vinna er á lokametrunum og vonandi verður hægt að taka við nýjum málum er tengjast tæknideildinni í gegnum þjónustugátt í mars. Verður þetta mikil breyting frá því sem nú er og tilheyra umsóknir á pappírsformi brátt sögunni til.
- Verið er að kanna með tilboð í CLT einingar fyrir stækkun á anddyri Jaðars.
- Áætlað er að flekahurðin fyrir grunnskólann í Ólafsvík verði tilbúin til afgreiðslu hjá söluaðila fljótlega eftir páska.
- Búið er að panta nýja glugga í leikskólann á Hellissandi. Áætlaður framleiðslutími er 8-12 vikur.
- Tvö deiliskipulög er í auglýsingaferli þessa stundina, ásamt breytingu á aðalskipulagi. Það er annarsvegar Djúpalónssandur og Krossavíkin.
- Byggingarfulltrúi og umsjónarmaður fasteigna fóru yfir á Lýsuhólsskóla fyrir skemmstu og könnuðu ástandið á þaki millibyggingar, en þar hefur verið töluverður leki i vetur. Unnið er að lausn málsins. Þakmaður kom á Lýsuhól í gær og ætlar Ævar að heyra í honum til að sjá hvað hafi komið í ljós í þeirri skoðun.
- Töluvert hefur verið að gera í stofnun lóða, skráningu fasteigna sem og endurnýjun á eldri lóðaleigusamningum.
- Unnið er að því að lagfæra misræmi í skráningu fasteigna í þinglýsingarhluta og fasteignaskrá og er þetta samstarfsverkefni HMS og byggingarfulltrúa. Stefnt er að því að kára þessa vinnu fyrir haustið 2023.
- Unnið er að smíði nýrra glugga í vestasta húsið á Gufuskálum. Stefnt er að því að hefja vinnu við að skipta þeim út snemma sumars. Unnið er í því að fá iðnaðarmenn í verkið. Það þarf að drífa í að panta grindarefni og annað efni sem þarf í þakið. Efnið er hægt að geyma á Gufuskálum þar til iðnaðarmenn fást í verkið.
- Eins og kom fram á fundi teymisins í nóvember sl. þá stendur til að fara í aðgerðir í sundlauginni í Ólafsvík til að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Loka þarf lauginni tímabundið á meðan á framkvæmdum stendur og verður fundinn tími til lokunar í samráði við forstöðumann laugarinnar og skólastjórnendur. Ekki eru um umfangsmiklar framkvæmdir að ræða en nauðsynlegt er að taka niður steypta þröskulda sem eru í klefunum sem kalla á brotvinnu og frágang og því nauðsynlegt að loka lauginni á meðan. Reynt verður að vinna verkið hratt til að stytta lokunina eins og hægt er. Spurning hvort þurfi að skipta um hurð þegar settar verða pumpur á hana og gera jafnframt anddyrið meira aðlaðandi og meira lýsandi fyrir inngang að sundlaug. Það þyrfti líka að setja skilti við innganginn sem gæfi til kynna að þarna sé sundlaug.
- Regluleg vinna er við yfirferð teikninga. Eigendur nokkurra stórra verkefna hafa skilað inn teikningum fyrir verkefni sín m.a fyrir iðnaðarhús að Letisundi 2 Rifi og fjölgun hótelherbergja á Arnarstapa.
- Unnið er að undirbúningi vinnuskólans 2023 og verður opnað fyrir umsóknir fyrir sumarstörf á næstu dögum.
- Hafin er vinna við tillögur að nýju deiliskipulagi fyrir íbúðabyggð fyrir neðan Fossabrekku.
- Hefðbundin dagleg verkefni tæknideildarinnar.
- Verið er að skoða hugsanlega stækkun á leikskólanum í Ólafsvík í samráði við leikskólastjóra.
7. Kristinn fór yfir nokkra punkta
- Excel-skjalið sem rætt var um á síðasta fundi er ekki tilbúið til útsendingar, en verður það vonandi fyrir miðjan mánuð.