Framkvæmdateymi Snæfellsbæjar

Framkvæmdateymi Snæfellsbæjar
2. fundur
31. maí 2022 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 09:00 – 10:20.

Fundinn sátuKristinn Jónasson, Ragnar Már Ragnarsson, Vagn Ingólfsson, Matthías Páll Gunnarsson, Björn Arnaldsson, Ævar Sveinsson og Baldvin Leifur Ívarsson. 

Fundargerð ritaði: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.

Sækja fundargerð

Dagskrá:

  • Björn byrjaði á hafnarframkvæmdum. Það er búið að endurnýja vefmyndavélar á öllum höfnum Snæfellsbæjar.  Endurbætur á hafnarhúsinu fara í gang fljótlega.  Búið að endurnýja hluta af lélegustu fríholtunum í höfnunum í Ólafsvík og Rifi.  Stálplöturnar vegna löndunarkranans eru komnar á staðinn.  Verktakinn í þekjuna kemur nú um mánaðarmótin og framkvæmdir við hafnarhúsið byrja í júní.  Útboð á sjóvörnum fer fram um miðjan júní.
  • Leifur fór yfir það að Vallholt 19 sé langt komið, en það sé verið að hlaupa í önnur verkefni inn á milli. Vantar að fá rafvirkja í tjaldstæðahúsið í Ólafsvík vegna útsláttar.  Það er erfitt er að fá iðnaðarmenn.  Leifur er að fara að hitta Patrick í tjaldstæðahúsinu á Hellissandi á eftir.  Þar er smávægilegt viðhald, t.d. slær eldavélin út.  Það vantar að fara í heildstæða úttekt á blokkunum.  Þar er leki og líklegast þarf að skipta út gluggum.  Það er stórt verkefni sem þyrfti jafnvel að fara í útboð.  Kristinn sagði að það þyrfti að mæla gluggana og panta þá svo hægt sé að fara í þetta verkefni strax á næsta ári.  Leifur sagði að það þyrfti jafnframt að skoða það hvort ætti að fara í allt sem þyrfti að gera við blokkirnar í einu eða hvort það væri betra að taka þetta í áföngum.  Það eru suður og austurhliðarnar sem eru verstar.  Kristinn bað Leif og Ragnar um að fara, taka þetta út og meta stöðuna.  Á Lýsuhóli þarf að halda áfram með gluggaskipti.  Þar brotna alltaf rúður á hverju ári…spurning hvort hægt sé að setja eitthvað skjól við gluggana sem tæki við einhverju af grjótkastinu sem verður þarna í roki.  Ævar sagði að þetta yrði þá að vera skjólmön, þar sem skjólgirðing myndi bara koma fjúkandi á gluggana í staðin fyrir grjótið.  Rætt um að skoða það að setja einhvers konar skjól þarna, mön eða hóla, til að brjóta upp vindinn og vernda gluggana og klæðningu.  Í sumar verða bara almenn viðhaldsverkefni í gangi á stofnunum bæjarins.  Búið er að kaupa og setja upp nýja uppþvottavél í leikskólann í Ólafsvík.  Uppsetningu á eldhúsinu var aðeins breytt í kjölfarið.
  • Ævar fór yfir það að langt sé komið með að klæða vallarhúsið. Búið að steypa gangstétt fyrir framan á Ólafsbrautinni en verið er að bíða eftir múrara.  Brotnað hefur úr gangstétt við Engihlíðina og þar er líka verið að bíða eftir múrara til að laga.  Rætt var um lagfæringar á gangstétt við Grundarbrautina.  Þar er undirlagið slæmt og nýjar gangstéttir virðast springa jafnóðum og þær eru lagaðar.  Það er spurning um að reyna að brjóta þetta upp og nota sterkari steypu.  Það er mikil umferð þarna af gangandi, hlaupandi og hjólandi.  Þessi skemmd er á bagalegum stað þar sem krakkar koma þarna hjólandi niður.  Verið er að mála gangbrautir og búið að grjóthreinsa mestallt.  Verið er að slá lúpínu.  Ævar sagði að það þyrfti að klára fituskiljuna á Arnarstapa.  Kristinn bað Ragnar að tala við heilbrigðiseftirlitið og láta vita að það vantar fituskilju fyrir framan Arnarbæ.  Annars er endalaust af viðhaldi og bilunum sem þarf að ganga í hratt og vel þrátt fyrir aðrar framkvæmdir.
  • Rætt var um reglur vegna viðveru sumarstarfsfólks. Það þarf að vera á hreinu að starfsfólk þarf að mæta í vinnu, alla daga, ekki bara þegar þeim hentar.  Ef fólk þarf frí þá þarf að biðja um frí.  Það gengur ekki að starfsfólk mæti bara ekki í vinnu án þess að fá leyfi.  Það er yfirhöfuð ekkert mál að fá frí, en það þarf að biðja um það, ekki taka það.  Fólk þarf að bera virðingu fyrir vinnunni sinni.
  • Ragnar sagði að gluggarnir í skólann væru tilbúnir, það þarf hins vegar að koma þeim vestur. Þetta er töluvert mikið magn.  Vagn velti því upp hvort hægt sé að fá iðnaðarmenn til að skipta um gluggana í haust þegar fer að hægjast um hjá þeim.  Sagði hann að það væri hægt að hliðra til í skólastofum þó skóli væri byrjaður þegar framkvæmdir hæfust.  Það er hins vegar nauðsynlegt að skipta út öllum gluggum á austurhliðinni fyrir veturinn.  Vandamálið er að fá iðnaðarmenn. Þakjárn sem búið er að panta fyrir Gufuskála og tónlistarskólann er búið að liggja á þriðja sumar og fer að skemmast.  Á Arnarstapa er búið að sækja um stöðuleyfi fyrir matvagn og er viðkomandi jafnframt búinn að sækja um stöðuleyfi fyrir klósettgám til að leysa vandann vegna starfsmannaklósetta.  Ragnar sagði frá því að það hefði verið haft samband við hann frá Öryggismiðstöðinni í gærkvöldi.  Það þyrfti að breyta því þannig að forstöðumenn yrðu tengiliðir við Öryggismiðstöðina.
  • Vagn fór yfir það að búið sé að laga leiktæki á skólalóðinni á Hellissandi. Búið er að slá upp fyrir rampi við gamla skólann, það verður steypt strax og skóla lýkur núna í byrjun júní.  Búið er að rífa karm milli fatahengis og anddyris og þar stendur til að endurnýja flísar.  Vagn er búinn að undirstinga iðnaðarmenn með aðstoð, þ.e. pípara og múrara. Rennihurðin er tilbúin.  Til stendur að rífa parket af stofu í Ólafsvík og þar verður settur dúkur. Dúkari er pantaður og kemur bæði í leikskóla og skóla.  Dúkurinn ætti að vera kominn og það væri gott ef hægt væri að setja dúkinn niður strax eftir hvítasunnu.  Rætt var um að best væri ef það væri sami litur og sami dúkur á öllum stofnunum.  Þá væri hægt að eiga dúk til að gera við ef skemmdir verða.  Samræming á þessu myndi auðvelda allt viðhald.  Búinn að vera að vinna við steinhleðsluna á skólalóðinni í Ólafsvík Lalli ætlar að fara að háþrýstiþvo skólann.
  • Matthías sagði frá því að sánatunnan væri komin í gang og búið er að leggja fyrir útisturtu. Nú vantar iðnaðarmann til að tengja hana.  Á sama tíma var gervigrasið lagað, en það fauk og skemmdist í vetur.  Búið er að hita vaðlaugina og vekur hún mikla lukku.  Búið er að vera að slá og snyrta í kringum íþróttamannvirkinn.  Matthías er búinn að skipta um eina dælu í sundlauginni, en tölvan sem stýrir sundlaugakerfinu hrundi, svo það þurfti að endurnýja hana núna í maí.  Annars hefur verið töluvert af smávægilegum viðhaldsverkefnum sem hafa kallað líka.  Farið var yfir stóru varmadæluna, en hún hefur verið til vandræða upp á síðkastið.  Vonir standa til að hún sé komin í lag.
  • Kristinn tók við og bað fundarmenn að skrifa hjá sér jafnóðum það sem búið er að gera og það sem framundan er. Þessar fundargerðir séu líka til upplýsingar fyrir bæjarstjórnina svo það sé nauðsynlegt að þetta séu svolítið ítarlegir listar.  Kristinn bað Ragnar að ljúka við að panta járnið á þakið á Ráðhúsinu, svo þyrfti að fá menn til að skipta um það.  Þakið lekur illa og taumarnir eru niður alla veggi.  Næsta verkefni væri að finna smiði í gluggaskiptin á Hellissandi.  Annars þakkaði hann fyrir góðan fund.
  • Næsti fundur verður þriðjudaginn 5. júlí kl. 09:00.

 

 

Fundi slitið kl. 10:20