Umhverfismál í Snæfellsbæ

Snæfellsbær ásamt sveitarfélögunum á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshrepp, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit og Stykkishólmsbæ, tóku sameiginlega ákvörðun um aldamótin að standa vörð um umhverfið og hófu að gera umbætur í starfsemi sinni og miðla fræðslu til íbúa. Árið 2003 hófu sveitarfélögin ásamt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, umfangsmikla undirbúningsvinnu að umhverfisvottun EarthCheck samtakanna fyrir lausnamiðað starf og sjálfbærari frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum. Þann 8. júní 2008 hlaut Snæfellsnes loks umhverfisvottun við hátíðlega athöfn að viðstöddum forseta Íslands, þingmönnum, sveitarstjórnarfólki og fjölda gesta. Áfanginn vakti verskuldaða athygli innan lands sem utan þar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru þau fyrstu í Evrópu til þess að hljóta slíka vottun og fjórða samfélagið í heiminum öllum.

Til þess að viðhalda vottuninni er stöðugra úrbóta í umhverfis- og samfélagsmálum krafist og árlega er svæðið tekið út af óháðum aðila vegna endurnýjunar á vottun. Síðast fékkst vottunin endurnýjuð í júní 2018. Með þátttöku í umhverfisvottun EarthCheck er haldið utan um auðlindanotkun, innkaup á hreinsi- og hreinlætisvörum og pappír og sorpmyndun sem dæmi. Einnig er það hluti af verkefninu að sveitarfélögin sættist á sameiginlega stefnumótun í sjálfbærri þróun í umhverfis- og samfélagsmálum á Snæfellsnesi. Vottun óháðs þriðja aðila sýnir frama á trúverðugleika, aðhald og eftirfylgni.

Snæfellsbær hefur lengi haft umhverfismál í öndvegi og margt hefur áunnist síðastliðna áratugi. Snæfellsbær var frumkvöðull á Íslandi með þátttöku sinni í verkefni Staðardagskrár 21 og fyrsta til þess að fá viðurkenningu fyrir að fylgja stefnu Staðardagskrárinnar árið 2000.

Árið 2012 byrjaði sveitarfélagið með tveggja tunnu flokkun sorps frá heimilum og stofnunum, og á næstu árum er áætlað bæta við þriðju tunnunni undir lífrænan úrgang. Árið 2017 fór 25% af öllu sorpi í Snæfellsbæ í endurvinnslu. Með þriðju tunnunni er gert ráð fyrir töluverðri aukningu í endurvinnanlegu sorpi, en talið er að 35-40% af öllu heimilissorpi sé lífrænn úrgangur.

Grunnskólar í Snæfellsbæ hafa lengi verið þátttakendur í Grænfánaverkefni Landverndar. Lýsuhólsskóli fékk Grænfánann árið 2003 og starfsstöðvarnar í Ólafsvík fengu fánann fyrst árið 2008. Skólarnir hafa haldið þátttöku áfram og það má sjá mjög öflugt umhverfisstarf innan Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Síðastliðin ár hafa sveitarfélögin unnið að því í samstarfi við aðra hagsmunaaðila að bæta aðgengi ferðamanna á vinsælustu viðkomustöðum Snæfellsness. Snæfellsbær þekur 684 km2 landsvæði á vestari hluta Snæfellsness með marga vinsæla staði sem eru verðmætir vegna náttúrlegra eiginleika sinna og hlutverk í íslenskri menningarsögu, m.a. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Arnastapi, Hellnar og Bjarnafoss. Stefna Snæfellsness í sjálfbærri þróun er að varðveita þessi landsvæði og hefur Snæfellsbær lagt mikla vinnu síðastliðin ár við uppbyggingu innviða fyrir náttúrutengda ferðaþjónustu á svæðinu. Meðal þeirra verkefna sem Snæfellsbær hefur lagt vinnu við og fengið styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir eru; að leggja útivistarstíg milli Rifs og Ólafsvíkur, bæta öryggi og gönguleiðir á Arnastapa og Hellnum og bæta aðgengi, bílastæði og áningarstað við Svöðufoss, Bjarnarfoss og Rauðfeldargjá.

Framkvæmdir á vinsælum ferðamannastöðum á Snæfellsnesi hafa hlotið verðskuldaða athygli af innlendum og erlendum aðilum. Tröppustígurinn á Saxhóli í Þjóðgarðinum hlaut Rosa Barba International Landscape Prize verðlaunin í Barcelona fyrir hönnun og skipulag í september 2018 og í desember 2018 hlaut Snæfellsbær Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir vel heppnaðar framkvæmdir við Bjarnarfoss í Staðarsveit. Verkefni sem þessi, að viðhalda verðmætum stöðum til verndar náttúru og til þess að gestir fái að njóta þeirra, skipta miklu máli. Markmið Snæfellsbæjar er að halda áfram að gera áningastaði og bæta aðstöðu á þeim sem fyrir eru.

Umhverfismál eru okkur öllum mikilvæg og markmið okkar er að miða starfsemi sveitarfélagsins út frá sjálfbærnistefnu Snæfellsness og hvetja fyrirtæki og önnur sveitarfélög til þess að setja umhverfismál í öndvegi.

Umhverfi