Frisbígolfvellir

Klettsbúð 4
Sími: 433 6900

Frisbígolfvellirnir eru opnir allan sólarhringinn. Vakni fyrirspurnir um vellina eða sé vilji til þess að koma með ábendingar um það sem betur má fara á völlunum bendum við á skrifstofu Snæfellsbæjar.

Sumarið 2021 voru settir upp tveir glæsilegir frisbígolfvellir í Snæfellsbæ; einn í Ólafsvík og annar á Hellissandi.

Frisbígolf er íþrótt og fjölskylduvæn dægrastytting sem nýtur sífellt meiri vinsælda hér á landi, en það er í samræmi við það sem er að gerast um allan heim. Markmið leiksins er að koma frisbígolfdiski í mark í sem fæstum köstum. Markið er eins konar karfa sem diskurinn á að lenda í, sbr. karfan á ljósmyndinni sem fylgir fréttinni og var tekin á vellinum í Ólafsvík.

Frisbígolfvellirnir eru opnir allan sólarhringinn þannig að þeir sem eiga frisbígolfdiska geta að sjálfsögðu stundað þessa íþrótt þegar þeim hentar. Vellirnir eru báðir staðsettir nálægt tjaldsvæðum og bætast í fjölbreytta flóru afþreyingarmöguleika fyrir íbúa og gesti á svæðinu. Vellirnir eru báðir innan skógræktarsvæðis og þar er viðkvæmur gróður, bæði smáar trjáplöntur og mosi og því er mikilvægt að stíga varlega til jarðar.

Eru bæjarbúar hvattir til að nýta sér aðstöðuna og prófa þessa skemmtilegu íþrótt sem hægt er að stunda á öllum aldri.

Frisbígolfvöllur í Ólafsvík

Frisbígolfvöllurinn er við tjaldsvæðið í Ólafsvík. Völlurinn er níu brautir og í styttra lagi, en getur verið afar krefjandi. Spilað er í votlendi og í gegn um skógrækt.

Sækja kort af vellinum.

Frisbígolfvöllur á Hellissandi

Frisbígolfvöllurinn er í Tröð við Hellissand. Völlurinn er níu brautir, mjög stuttur og þéttur og því tilvalinn fyrir byrjendur og til að æfa stutt köst.

Unnið er að því að teikna kort af vellinum en hér er hægt að nálgast yfirlitsmynd.

Leikreglur

Leikreglur eru einfaldar, folf er spilað líkt og hefðbundið golf nema með frisbídiskum. Köstin sem tekur að koma diskinum í körfuna eru talin og takmarkið er að fara allar brautir í sem fæstum köstum. Fyrsta kast er tekið af merktum teig og er það næsta tekið þar sem diskurinn liggur og þarf sá fótur sem er nær körfu að vera þar sem diskurinn lá. Skipta má um diska á milli kasta. Sá spilari sem lengst er frá körfu tekur fyrsta kast. Tillitssemi er stór hluti af leiknum. Sanngjarnt er að mótspilari þinn fái að kasta án truflunar, það sama myndir þú vilja. Ekki kasta fyrr en þú ert viss um að flug disksins og lending hans trufli ekki hina spilarana. 

Getum við bætt efni þessarar síðu?