Áningarstaðir

Arnarstapi

Arnarstapi er vinsæll ferðamannastaður fyrir alla fjölskylduna. Þar eru góðar gönguleiðir, hótel, tjaldsvæði, gistihús og veitingastaðir. Frá Arnarstapa er einnig boðið upp á ferðir á Snæfellsjökul yfir sumartímann. Ströndin við Arnarstapa er ákaflega fögur og sérkennileg, einkennilega mótuð af briminu. Góðir göngustígar liggja um Arnarstapa. Skemmtileg gönguleið liggur á milli Arnarstapa og Hellna og er að hluta til gömul reiðgata. Hún er við allra hæfi og er ströndin er friðlýst. Arnarstapi var áður fyrr kaupstaður, sjávarpláss með miklu útræði og lendingin var talin ein sú besta undir Jökli. Smábátahöfnin var endurbætt árið 2002 og er í dag eina höfnin á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þangað koma menn af ýmsum stöðum á landinu og gera út dagróðrabáta yfir sumartímann. Arnarstapa er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss og þar er steinlistaverkið Bárður Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara sem setur mikinn svip á svæðið.

Bjarnarfoss

Bjarnarfoss er tignarlegur foss, ofan við Búðir, sem fellur fram af hamrabrún fyrir neðan Mælifell. Fossinn, ásamt stuðlabergshömrunum í kring, er á Náttúruminjaskrá og í brekkunum við fossinn er mikið blómgresi. Stórt bílastæði er fyrir neðan fossinn og góður göngustígur upp í brekkurnar undir fossinum.

Búðir

Búðir bjóða upp á mikla náttúrufegurð, gullnar sandfjörur og úfið hraunið með miklum gróðri og fuglalífi. Falleg fjallasýn er frá Búðum og Snæfellsjökull skartar þar sínu fegursta. Búðir voru bújörð og kirkjustaður og á síðari árum vinsæll áningarstaður. Þar er starfrækt hótel. Þegar í fornöld var skipalægi við Búðaósa og hét þá Hraunhafnarós en Hraunhöfn hét höfuðbólið sem stóð uppi undir fjallinu. Aðalverstöðin var vestar með ströndinni nokkru utar og heita þar Frambúðir og voru þar oft búsett á annað hundrað manns. Brimakaupmenn versluðu þarna á 16. öld og sjást þar miklar rústir. Útgerð var stunduð frá Búðum allt til ársins 1933, þar hafa fundist minjar um akuryrkju. Aðgangi að Búðahrauni Gamla þjóðleiðin um Búðahraun heitir Klettsgata. Hún liggur að Búðakletti, fram hjá Búðahelli, og áfram gegnum hraunið. Þar sem gatan liggur um sléttar hraunhellur má sjá hvernig hófar löngu horfinna hesta hafa meitlað spor sín í klöppina. Klettsgatan er greinileg og skemmtileg gönguleið við allra hæfi. Áætlaður göngutími eru þrjár klukkustundir. Helstu gönguleiðir eru merktar. Jaðargatan liggur í hraunjaðrinum, að stórum kletti sunnan við Miðhúsatúnið. Þar rennur hún saman við Klettsgötuna. Gatan er víða ógreinileg. Áætlaður göngutími frá Búðum er tvær klukkustundir. Frá Axlarhólum er einungis um klukkustundargangur að Miðhúsum. Skemmtileg gönguleið liggur að Frambúðum þar sem andi liðinna tíma svífur yfir vel grónum fornminjum. Frá kirkjunni tekur ganga að Frambúðum hálftíma. Hægt er að ganga frá Búðafriðlandi yfir að ströndinni við Arnarstapa og Hellna. Rétt er að áætla 6-8 tíma fyrir þá göngu.

Djúpalónssandur

Djúpalónssandur er skemmtileg, bogamynduð malarvík með ýmsum furðulegum klettamyndunum. Þarna er einstaklega kraftmikill staður þar sem hraunið mætir úthafinu þar sem hægt er að fá orku, innblástur og útrás en líka kyrrð og frið. Á árum áður var útgerð og verbúðarlíf á Djúpalónssandi og þótti mönnum þar reimt. Frá þeim tíma eru fjórir aflraunasteinar sem liggja undir kletti þegar komið er niður undir sandströndina. Þeir heita Fullsterkur 154 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 54 kg, Amlóði 23 kg. Vinsælt er að reyna krafta sína á steinunum sem liggja undir Gatkletti. Bannað er að vaða og synda í sjónum við Djúpalónssand en mikið dýpi og sterkir straumar gera slíkt lífshættulegt. Frá Djúpalónssandi er um 1 km löng gönguleið yfir í Dritvík þar sem var mikil útgerð fyrrum. Dritvíkingar urðu að sækja allt vatn yfir á Djúpalónssand. Vatnsstígur þeirra lá yfir nesið Suðurbarða eða Víkurbarða. Bílastæði og salerni eru á staðnum.

Gatklettur

Hellnar

Hellnar er vinsæll áningarstaður ferðamanna og þar er einnig hótel og kaffihús. Bergrani austan við höfnina heitir Valasnös en þar er hin rómaði hellir, Baðstofa. Litbrigði í hellinum eru mjög breytileg eftir birtu og sjávarföllum. Fallegastur er hann talinn vera snemma morguns í sólskini á háflóði. Ásgrímsbrunnur á Hellnum er kenndur við Ásgrím Hellnaprest (1758-1829). Hann hjó brunn í bergið þar sem aldrei hafði áður verið vatn. Á Hellnum var um langa hríð sjávarpláss með miklu útræði og um aldir ein af stærstu verstöðvunum á Snæfellsnesi. Allgott lægi er fyrir smábáta á víkinni fram af byggðinni og þar hafa verið gerðar nokkrar lendingarbætur. Kirkja var sett á staðinn um 1880 og núverandi kirkja var vígð árið 1945 sem er útkirkja frá Staðarstað og hefur verið svo frá 1917.

Lóndrangar

Lóndrangar eru tveir klettadrangar sem rísa stakir út við ströndina, rétt fyrir fyrir vestan Hellna. Þeir eru óvenju formfagrir, fornir gígtappar og verpti örn fyrrum í hærri draganum. Stikuð gönguleið er frá Malarrifi að Lóndröngum. Stígurinn er fær öllu göngufæru fólki, en á kafla, næst dröngunum, er gengið í fjörugrjóti. Lengi vel voru Lóndrangar taldir ókleifir með öllu, en 1735 var hærri drangurinn klifinn í fyrsta sinn svo vitað sé. Munnmæli eru um að sakamaður hafi eitt sinn komist upp í minni dranginn og bjargað þannig lífi sínu og komist á erlent skip. Áður fyrr var útræði hjá Lóndröngum og sagt er að 12 skip hafi verið gerð þaðan út þegar mest var. Lendingin var fyrir austan hærri dranginn og heitir þar Drangsvogur. Til skamms tíma sáust við drangana rústir af sjóbúðum. Fiskigarðar og fiskreitir sjást þar í hrauninu fyrir ofan. Aðstaða til útgerðar hefur verið mjög erfið, fyrir opnu hafi.

Rauðfeldargjá

text

Saxhóll

Saxhóll er 40 metra hár, formfagur gígur innan marka Snæfellsjökulsþjóðgarðs. Gígurinn hefur verið vinsæll til uppgöngu enda staðsettur nálægt veginum og aðgengi að honum gott. Tröppur hafa verið lagðar upp á toppinn þannig að auðvelt er að ganga upp og njóti útsýnisins. Bílastæði eru við gíginn. Hólarnir eru í raun tveir, Stóri-Saxhóll og Litli-Saxhóll. Þriðji hóllinn er úti í hrauninu suðvestur af bæjarrústunum og heitir hann Sauðhóll. Voru þar beitarhús og er hellir austan í hólnum. Saxhóll var bær sem farinn er í eyði fyrir löngu. Þar var kirkja nær allan tíma forns siðar í landinu.

Skarðsvík

Skarðsvík er afar ólík flestum sandfjörum á Íslandi því hún minnir frekar á strendur við Miðjarðarhafið með ljósum sandi, grænbláu vatni og dökku eldfjallalandinu í kring. Þar er tilvalið að stinga sér í sjóinn í litla stund. Hafa skal í huga að öldurnar í Skarðsvík eru þekktar fyrir að vera kraftmiklar. Mælt er með því að heimsækja ströndina á háfjöru til að tryggja öryggi. Til að komast að Skarðsvík er farið af Útnesvegi nr. 547 inn á veg sem meðal annars liggur að Svörtuloftum og Öndverðarnesvita. Bílastæði eru fyrir ofan Skarðsvík fyrir nokkra bíla.

Svöðufoss

Svöðufoss er fallegur foss í Hólmkelsá, skammt frá Rifi. Svöðufoss er 10 metra hár og fellur af fallegum basalt súlukletti með stuðlabergsumgjörð. Snæfellsjökull trónir í bakgrunni fossins. Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Svöðufoss undanfarin ár og er gott aðgengi að fossinum fyrir alla. Gott bílastæði tekur á móti gestum, bekkir til að njóta útsýnis á miðri leið, göngubrú yfir Laxá á Breið (Hólmkelsá) og fallegur útsýnispallur við fossinn. Gangan frá bílastæðinu að fossinum tekur um 30 mínútur.
Getum við bætt efni þessarar síðu?