Pakkhús

Ólafsbraut 12, Ólafsvík
Sími: 433 6900

Pakkhúsið í Ólafsvík er gamalt verslunarhús, byggt árið 1844. Það er eitt fárra verslunarhúsa frá 19. öld sem stendur enn og var friðað þann 31. ágúst 1970 af þáverandi menntamálaráðherra.

Á fyrstu hæð hefur m.a. verið rekin verslun, handverkssala og krambúð. Byggðasafn er á miðhæð, þar geta gestir upplifað íslenskt alþýðuheimili 19. aldar og skyggnst inn í atvinnu- og lifnaðarhætti sjómanna fyrr á öldum. Í risinu er sýningin "Krambúðarloftið" sem ber íslenskri verslunarsögu vitni. Þar má finna ýmsa verslunarvöru, svo sem saltfisk og gúmmískó, sem höndlað var með forðum.

Í upphafi gegndi Pakkhúsið hlutverki birgðageymslu en síðar var m.a. rekin verslun í húsinu. Þar spurði fólk frétta, skiptist á skoðunum og dreypti á kaupmannsbrennivíni sem geymt var undir búðarborðinu.

Þess má geta að Ólafsvík telst elsti verslunarstaður landsins, en árið 1687 gaf konungur út skipun þar sem hann viðurkenndi Ólafsvík sem verslunarstað.

Getum við bætt efni þessarar síðu?