Fasteignagjöld
Fyrirspurnir varðandi fasteignagjöld berist bæjarritara á netfanginu lilja@snb.is eða með símtali í ofangreint símanúmer.
Fasteignagjöld eru árlega lögð á allar fasteignir og ber eigandi á hverjum tíma ábyrgð á greiðslu þeirra.
Fasteign telst afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.
Nánari upplýsingar um fasteignagjöld má finna hér að neðan.
Fasteignagjöld í Snæfellsbæ
Fasteignagjöld í Snæfellsbæ samanstanda af fasteignaskatti, lóðarleigu og þjónustugjöldum, þ.e. fráveitugjaldi, vatnsgjaldi og sorpgjöldum.
Öll þessi gjöld, fyrir utan sorpgjöldin, eru reiknuð sem hlutfall af fasteignamati. Breytingar á fasteignamati ár hvert hefur því bein áhrif á upphæð fasteignagjalda.
Bæjarstjórn ákveður hlutfallið, þ.e. prósenturnar sem notaðar eru til að reikna fasteignagjöldin út frá fasteignamatinu. Leyfilegt hámark er gefið út af ríkinu. Á undanförnum 20 árum hafa engar breytingar orðið á þessum prósentum, fyrir utan lækkanir á prósentum holræsa- og vatnsgjalds, fyrst á árinu 2020 og aftur 2023.
Leyfileg hámarksprósenta fasteignaskatts í A-flokki (íbúðarhúsnæði) er 0,5% af fasteignamati, en í C-flokki (allt annað húsnæði, t.a.m. iðnaðarhúsnæði) er 1,32%. Hins vegar er líka heimild til að hækka álagningarprósentur fasteignaskatts um 25%, eða upp í 0,625% fyrir eignir í A-flokki og 1,65% fyrir eignir í C-flokki.
Í Snæfellsbæ er álagningarprósenta fasteignaskatts í A-flokki 0,44% og nýtir því Snæfellsbær hvorki leyfilegt hámark né heldur leyfilegt 25% álag. Álagningarprósenta fasteignaskatts í C-flokki er hins vegar 1,55%, en þar er farið inn á leyfilegt 25% álag.
Ef við berum saman álagningarprósentur á landinu öllu, þá er Snæfellsbær í 26. sæti af 59 sveitarfélögum þegar kemur að lægstu álagningarprósentu í A-flokki á landinu, þ.e. rétt fyrir ofan miðju. Það þýðir að 33 sveitarfélög eru með hærri álagningarprósentu. 7 af þeim sveitarfélögum eru með hámarksálagningarprósentu með 25% álagi, eða 0,625% af fasteignamati. Þegar kemur að álagningarprósentu í C-flokki, þá er Snæfellsbær í 18-19. sæti yfir lægstu prósentuna. Langflest sveitarfélög á landinu nýta sér hámarksálagningarprósentu ásamt fullu 25% álagi, og eru með álagningarprósentu fasteignaskatts eigna í C-flokki í 1,65%.
Á hverju byggir álagning fasteignagjalda?
Álagning fasteignaskatts er framkvæmd samkvæmt II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarfélögum er skylt að leggja á fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignarmati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá. Fasteignaskattur leggst á nýjar lóðir og mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að þau eru skráð og metin í fasteignaskrá, nema þær séu sérstaklega undanþegnar fasteignaskatti með lögum. Fasteignaskattur fellur niður næstu mánaðamót eftir að mannvirki er afskráð í fasteignaskrá.
Gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts er fasteignamat. Fasteignaskattur reiknast sem hlutfall af fasteignamati miðað við skráða notkun fasteignar.
Fasteignamat eignar tekur bæði til húss og lóðar og er fasteignamati skipt í húsmat og lóðarmat. Þjóðskrá Íslands endurmetur skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skal það verð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Þjóðskrá Íslands ber ekki síðar en í júnímánuði ár hvert að gera hverju sveitarfélagi og eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmatsins. Frestur eiganda til athugasemda skal vera mánuður frá tilkynningu ákvörðunar. Hægt er að skoða bæði gildandi og fyrirhugað fasteignamat eigna á vefsíðu Þjóðskrár Íslands.
Hvar eru upplýsingar um byggingar geymdar?
Byggingarfulltrúinn í Snæfellsbæ sendir Þjóðskrá Íslands upplýsingar og gögn um nýbyggingar, viðbyggingar, eldri byggingar sem er breytt, hús sem eru rifin og aðrar viðeigandi upplýsingar.
Hver sér um eigendaskráningu húsa og lóða?
Eigendaskráning húsa og lóða er í höndum Sýslumannsins á Vesturlandi og er hún í samræmi við þinglýst skjöl/gögn.
Hver sér um að reikna út álagningu fasteignagjalda?
Allar þessar upplýsingar eru notaðar við álagningu fasteignagjalda, leiðréttingar, reikningagerð og innheimtu sem fer fram í Ráðhúsi Snæfellsbæjar.
Gjalddagar á fasteignagjöldum
Gjalddagar verða 10; fyrsti gjalddagi 1. febrúar, síðan 1. hvers mánaðar (mars – nóvember).
Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga. Ef gjöld eru samtals lægri en kr. 20.000 er um einn gjalddaga að ræða og er hann 1. mars.
Afsláttur af fasteignagjöldum
Veittur er 3% staðgreiðsluafsláttur ef gjöldin í heild eru greidd fyrir 15. mars ár hvert. Hægt er að ganga frá staðgreiðslu gjalda með því að draga 3% frá heildarálagningu gjaldanna og leggja inn á banka: 0190-26- 7940, kt. 510694-2449.
Veittur verður afsláttur af fasteignaskatti til þeirra elli- og örorku-lífeyrisþega, sem búa í eigin íbúð.
Hægt að sjá nánar í gjaldskrá fasteignagjalda.
Hvernig reiknast afsláttur af fasteignagjöldum?
Við álagningu fasteignagjalda er afslátturinn reiknaður út frá álagningu 2023 vegna skatttekna ársins 2022, þ.e. samtalan af stofni til útreiknings tekjuskatts og útsvars (reitur 2.7) og fjármagnstekjum samtals (reitur 3.10).
Um útsendingu greiðsluseðla
Vinsamlegast athugið að engir greiðsluseðlar eru sendir út, nema til þeirra aðila sem óska eftir því sérstaklega. Kröfur eru stofnaðar í heimabönkum einstaklinga og fyrirtækja, og hægt er að sjá reikningana í heild sinni undir rafrænum reikningum í öllum heimabönkum.
Hægt er að óska eftir því að fá senda greiðsluseðla með því að senda tölvupóst á lilja@snb.is eða með því að hringja í 433-6900.
Fasteignagjöld - gjaldskrá
Álagning fasteignagjalda byggir á fasteignamati húsa og lóða í Snæfellsbæ, sem tekur meðal annars mið af stærð þeirra, notkun og lóðarhlutastærð.
Álagningarstofninn er fenginn frá Þjóðskrá Íslands 31. desember ár hvert auk þess sem fasteignaskattur leggst á nýjar lóðir og ný mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðarmótum eftir að þau eru skráð og metin í Fasteignaskrá.