Búðir

Búðir bjóða upp á mikla náttúrufegurð, gullnar sandfjörur og úfið hraunið með miklum gróðri og fuglalífi. Falleg fjallasýn er frá Búðum og Snæfellsjökull skartar þar sínu fegursta. Búðir voru bújörð og kirkjustaður og á síðari árum vinsæll áningarstaður. Þar er starfrækt hótel.

Þegar í fornöld var skipalægi við Búðaósa og hét þá Hraunhafnarós en Hraunhöfn hét höfuðbólið sem stóð uppi undir fjallinu. Aðalverstöðin var vestar með ströndinni nokkru utar og heita þar Frambúðir og voru þar oft búsett á annað hundrað manns.

Brimakaupmenn versluðu þarna á 16. öld og sjást þar miklar rústir. Útgerð var stunduð frá Búðum allt til ársins 1933, þar hafa fundist minjar um akuryrkju.

Aðgangi að Búðahrauni

Gamla þjóðleiðin um Búðahraun heitir Klettsgata. Hún liggur að Búðakletti, fram hjá Búðahelli, og áfram gegnum hraunið. Þar sem gatan liggur um sléttar hraunhellur má sjá hvernig hófar löngu horfinna hesta hafa meitlað spor sín í klöppina. Klettsgatan er greinileg og skemmtileg gönguleið við allra hæfi. Áætlaður göngutími eru þrjár klukkustundir. Helstu gönguleiðir eru merktar.

Jaðargatan liggur í hraunjaðrinum, að stórum kletti sunnan við Miðhúsatúnið. Þar rennur hún saman við Klettsgötuna. Gatan er víða ógreinileg. Áætlaður göngutími frá Búðum er tvær klukkustundir. Frá Axlarhólum er einungis um klukkustundargangur að Miðhúsum.

Skemmtileg gönguleið liggur að Frambúðum þar sem andi liðinna tíma svífur yfir vel grónum fornminjum. Frá kirkjunni tekur ganga að Frambúðum hálftíma.

Hægt er að ganga frá Búðafriðlandi yfir að ströndinni við Arnarstapa og Hellna. Rétt er að áætla 6-8 tíma fyrir þá göngu.

Getum við bætt efni þessarar síðu?