Sýningaropnun. Svermur: Flakkari í litaþoku
Jón B.K. Ransu er fæddur í Reykjavík árið 1967 og nam myndlist í Hollandi á árunum 1990-1995. Málverk Ransu byggja öllu jafnan á endurskoðun listaverka eða listastefna. Í fimmta bindi Íslenskrar listasögu sem gefin var út árið 2011 segir: Ransu hefur unnið margvíslegar tilraunir sem tengjast meðal annars eignarnámsmálverki og skynjun áhorfandans. [...] En þó sé um að ræða eignarnám er listamaðurinn aldrei ragur við að endurvinna viðkomandi tilvísanir til eigin listsköpunar með því að breyta efni, formi eða samhengi sem hefur í auknum mæli tekið á sig svið ný-módernismans, sér í lagi op-listarinnar, þar sem hann setur saman form og liti sem framkalla skynjunarröskun hjá áhorfendum" (Gunnar Kvaran, Íslensk listasaga: Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Nýtt Málverk, gjörningar og innsetningar, Forlagið og Listasafn Íslands, 2011, bls. 85). Auk þess að starfa í myndlist er Ransu fræðibókahöfundur og hefur látið talsvert að sér kveða í skrifum um samtímalist í bókum og tímaritum. Þá hefur hann tekið að sér sýningarstjórn í söfnum á Íslandi og í Noregi og gegnir deildarstjórastöðu Listmálarabrautar í Myndlistaskólanum í Reykjavík.