Bæjarstjórn

292. fundur 17. nóvember 2016 kl. 14:51 - 14:51
292. fundur bæjarstjórnar - undirrituð fundargerð

 

292. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, haldinn fimmtudaginn 17. nóvember 2016 og hófst hann í Ráðhúsi Snæfellsbæjar kl. 12:00.  

Mættir:

Kristín Björg Árnadóttir

Kristjana Hermannsdóttir

Björn H Hilmarsson

Rögnvaldur Ólafsson

Fríða Sveinsdóttir

Svandís Jóna Sigurðardóttir

Kristján Þórðarson

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Lilja Ólafardóttir, bæjarritari

 

Forseti bæjarstjórnar setti fund, bauð fundarmenn velkomna á fundinn.  Óskaði hún eftir að fá að taka inn sem 9. lið bréf frá nokkrum áhugamönnum um bætta knattspyrnuiðkun í Snæfellsbæ.  Var það samþykkt og að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.

  Dagskrá bæjarstjórnarfundarins:
  1. Fundargerð 86. fundar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, dags. 2. nóvember 2016.

Lagt fram til kynningar.

 
  1. Fundargerð 139. fundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands, dags. 7. nóvember 2016, ásamt fjárhagsáætlun Heilbrigðisnefndar Vesturlands fyrir árið 2017.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar.  Snæfellsbær samþykkir tillögu að fjárhagsáætlun HeV 2017 fyrir sína hönd.

 
  1. Bréf frá Vinnumálastofnun, ódags., varðandi samstarf Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við innleiðingu á nýju húsnæðisbótakerfi.

Bæjarstjórn samþykkti að vísa þessu erindi til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

 

  1. Bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 31. október 2016, varðandi umsókn um byggðakvóta fiskveiðiársins 2016/2017.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar mótmælir harðlega niðurstöðum úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2016-2017.  Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hvað Snæfellsbæ varðar er að úthluta engum byggðakvóta á Hellissand og Arnarstapa.  Þessi niðurstaða er með öllu óásættanleg og skorum við á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að breyta nú þegar reglum um úthlutun byggðakvóta og úthluta kvótanum að því loknu á grundvelli nýrra reglna um byggðakvóta.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að við úthlutun byggðakvóta í Snæfellsbæ (Arnarstapa, Hellissandi, Rifi og Ólafsvík), þá verði farið eftir reglugerð Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 8. júlí 2016, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2016/2017.

Þó óskar bæjarstjórn Snæfellsbæjar eftir því að gerðar verði þrjár breytingar á úthlutunarreglum fyrir byggðakvóta í Snæfellsbæ.  Þær eru eftirfarandi:

1)  Í 1.gr., C lið breytist orðalagið úr „í viðkomandi byggðarlagi“ í „í viðkomandi sveitarfélagi“.

2)  Í 4.gr., 1.mgr. (6. lína), breytist orðalagið úr „í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags“ í „í þorskígildum talið innan viðkomandi sveitarfélags“.

3)  Í 6.gr., 1.mgr. (1. lína), breytist orðalagið úr „innan hlutaðeigandi byggðarlaga“ í „innan hlutaðeigandi sveitarfélaga“.

Rök bæjarstjórnar Snæfellsbæjar fyrir þessum breytingum er sú staðreynd að á Arnarstapa og á Hellissandi eru ekki reknar fiskvinnslur og því er ekki hægt að landa afla til vinnslu á þeim stöðum.

Ef ráðuneytið verður við þessum óskum, þá mun byggðakvótinn nýtast innan sveitarfélagsins, en það skiptir miklu máli fyrir Snæfellsbæ að geta nýtt úthlutaðan byggðakvóta.

 
  1. Bréf frá Mannvirkjastofnun, dags. 7. nóvember 2016, varðandi brunavarnaáætlun Snæfellsbæjar.

Bæjarstjórn samþykkti brunavarnaáætlun 3. mars s.l. en hún var ekki staðfest af Mannvirkjastofnun.  Í framhaldinu var samþykkt að fela slökkviliðsstjóra og Mannvirkjastofnun að fara yfir áætlunina og er sú vinna í gangi.

 
  1. Bréf frá kennurum til sveitarfélaga, afhent bæjarstjóra föstudaginn 11. nóvember s.l.

Samningsumboð Snæfellsbæjar í kjaramálum er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Bæjarstjórn Snæfellsbæjar vonar að kjaradeilan leysist sem allra fyrst á ásættanlegan hátt fyrir alla aðila.

 
  1. Gjaldskrár Snæfellsbæjar fyrir árið 2017.

Gjaldskrár Snæfellsbæjar fyrir árið 2017 voru lagðar fram á fundinum.  Var þeim vísað til frekari úrvinnslu í bæjarráði.

 
  1. Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2017, fyrri umræða.

Forseti bæjarstjórnar lagði fram tillögu að vinnufundum bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar.  Lagði hún til vinnufund bæjarstjórnar mánudaginn 21. nóvember frá 11:30-13:00 og bæjarráðsfund miðvikudaginn 23. nóvember, kl. 12:00 í Ráðhúsinu.  Var tillagan samþykkt samhljóða.

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar, A- og B-hluta stofnana, fyrir árið 2017, var lögð fram.  Var farið yfir ýmis atriði áætlunarinnar.  Var henni vísað til frekari úrvinnslu í bæjarráði.

 
  1. Bréf frá áhugamönnum um bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í Snæfellsbæ, dags. 15. nóvember 2016.

Bæjarstjórn tilnefndi Rögnvald Ólafsson og Kristján Þórðarson í samstarfshóp til að skoða þessi mál.

 
  1. Minnispunktar bæjarstjóra.
    1. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun sem lögð var fram af Kristjáni Þórðarsyni:
Ályktun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar varðandi farsímasamband í sunnanverðu bæjarfélaginu.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu GSM, 3G og 4G farsímasambandi í sunnanverðum Snæfellsbæ, þ.e. í Staðarsveit og Breiðuvíkurhreppi.

Sérstaklega er ástandið slæmt í Staðarsveit, á svæði sem afmarkast af Lágafellshyrnu í austri og Þorgeirsfellshyrnu í vestri.  Á þessu svæði er GSM samband slæmt og þó nokkrir bæir sem hafa varla GSM farsímasamband að nokkru ráði.  Þetta ástand skapar mörg vandamál og óþægindi fyrir íbúa jafnt sem ferðamenn.

Nú hafa fleiri en einn viðskiptabanki tilkynnt að um áramót verði hætt að notast við auðkennislykla við innskráningu í  heimabanka og að öll auðkenni fari í gegnum rafræn skilríki í GSM síma. Þetta mun augljóslega ekki ganga upp á nokkrum bæjum á þessu svæði.

Þann 5. nóvember s.l.  lentu tveir einstaklingar, sem gengu til rjúpna frá Slitvindastöðum í Staðarsveit, í hrakningum í fjalllendinu á þessu svæði.  Þeir villtust í þoku og fundust ekki fyrr en daginn eftir kaldir og hraktir.  Lélegt og nánast ekkert GSM farsímasamband á leitarsvæðinu gerði björgunarsveitarmönnum mjög erfitt fyrir, bæði við leitina sjálfa og ekki síður við að  finna stað fyrir stjórnstöð Landsbjargar þar sem fjarskipti gætu farið fram með eðlilegum og nauðsynlegum máta, sem næst leitarsvæðinu.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar skorar því hér með á þau fjarskiptafyrirtæki sem selja þjónustu sína á þessu svæði að fjölga nú þegar GSM sendum, að uppfæra núverandi senda, eða með öðrum hætti að tryggja sem best GSM farsímasamband á þessu svæði!

Því öryggi íbúanna og ferðalanga er í húfi.

  1. Bæjarstjóri ræddi um framkvæmdir.
  2. Bæjarstjóri sagði frá uppfærslum á bókhaldskerfinu sem nú standa yfir.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:20    

 

 

____________________________

Kristín Björg Árnadóttir

 

 

 

____________________________              ___________________________

Kristjana Hermannsdóttir                                 Kristján Þórðarson

 

 

____________________________              ___________________________

Björn H Hilmarsson                                        Fríða Sveinsdóttir

 

 

____________________________              ___________________________

Rögnvaldur Ólafsson                                       Svandís Jóna Sigurðardóttir

 

 

____________________________              ___________________________

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri                           Lilja Ólafardóttir, bæjarritari

 

Getum við bætt efni þessarar síðu?