Bæjarstjórn
Forseti bæjarstjórnar setti fund og bauð fundarmenn og gesti velkomna. Var að svo búnu gengið beint til boðaðrar dagskrár.
Dagskrá bæjarstjórnarfundarins:
1. Ungmennaráð Snæfellsbæjar.
Á fundinn mættu Hanna Imgront og Eyþór Hlynsson, fulltrúar úr ungmennaráði Snæfellsbæjar, ásamt Kristfríði, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Snæfellsbæjar, sem fóru í ferð til Ítalíu í byrjun september á vegum ungmennaskipta Erasmus+ verkefnisins. Þau kynntu ferðina fyrir bæjarstjórn, bæði upplifun sína af ferðinni og ungmennum í Livorno, þar sem þau voru, en jafnframt hvað þau höfðu lært í ferðinni.
Bæjarstjórn þakkaði kærlega fyrir frábæra kynningu og hvöttu ungmennaráðið til að kynna þetta verkefni og ferðina á fleiri stöðum, t.a.m. í skólanum. Bæjarstjórn sagði frábært hversu flottir krakkar væru í ungmennaráði og sögðust stolt af þeim og ferðinni sem þau fóru í.
Var þeim þökkuð koman og véku nú af fundi.
2. Fundargerð 219. fundar menningarnefndar, dags. 12. september 2023.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
3. Fundargerð 100. fundar íþrótta- og æskulýðsnefndar, dags. 30. ágúst 2023.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
4. Fundargerð 1. fundar nefndar um bókasafn Snæfellsbæjar, dags.. 25. september 2023.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
5. Fundargerð 67. stjórnarfundar Jeratúns ehf., dags. 25. ágúst 2023.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fá fund með skólameistara FSN sem fyrst til að ræða málefni skólans.
Lagt fram til kynningar.
6. Fundargerðir 216. og 217. fundar Breiðafjarðarnefndar, dags. 15. ágúst og 28. – 29. ágúst 2023.
Lagt fram til kynningar.
7. Fundargerðir 932. og 933. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. september og 18. september 2023.
Lagt fram til kynningar.
8. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 1. september 2023, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Mínu sf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Móum 4 á Arnarstapa, Snæfellsbæ.
Bæjarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti ofangreinda umsókn Mínu sf. um leyfi til að reka gististað í flokki II, frístundahús, að Móum 4 á Arnarstapa, Snæfellsbæ, að því tilskildu að slökkviliðsstjóri og yfirmaður tæknideildar gefi jafnframt jákvæða umsögn.
9. Bréf frá Kvenfélagi Ólafsvíkur, dags. 12. september 2023, varðandi listaverkið Gleði.
Bæjarstjórn fagnar þessu framtaki og frumkvæði Kvenfélagsins og telur að þetta listaverk eigi eftir að verða mikið bæjarprýði. Bæjarstjórn telur hins vegar rétt að Snæfellsbær komi að þessari framkvæmd með beinum fjárhagsstyrk frekar en með framkvæmd.
Bæjarstjórn samþykkti því samhljóða að fjalla nánar um erindið við fjárhagsáætlunargerð 2024.
10. Bréf frá Félagi eldri borgara í Snæfellsbæ, dags. 20. september 2023, varðandi ósk um niðurfellingu á leigu í Klifi þann 26. nóvember n.k. vegna jólabasars eldri borgara.
Bæjarstjórn samþykkti erindið samhljóða enda fellur það undir reglur Snæfellsbæjar um niðurfellingu á húsaleigu í félagsheimilum sveitarfélagsins.
11. Ályktun aðalsafnaðarnefndarfunds Ólafsvíkurkirkju, dags. 18. september 2023, varðandi líkhúsið í Ólafsvík.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að bjóða sóknarsamlagi Ingjaldshóls- og Ólafsvíkurkirkju húsið til eignar. Bæjarstjóra var jafnframt falið að ræða við sóknarsamlagið.
12. Bréf frá Landssambandi smábátaeigenda, dags. 17. september 2023, varðandi framtíð strandveiða.
Auður, Fríða og Margrét Sif véku af fundi undir þessum lið.
Farið var yfir efni bréfsins, og að því loknu var lögð fram eftirfarandi bókun:
Sjávarútvegur eru mikilvægur þáttur í atvinnulífi Snæfellsbæjar. Við erum svo heppin að frá Snæfellsbæ eru gerðir út fjöldi báta og útgerðamynstrið er fjölbreytilegt. Að taka þá ákvörðun að gott sé að einn útgerðarflokkur umfram annan fái til sín auknar aflaheimildir er ákvörðun sem þarf að taka á landsvísu og þá þarf að taka tillit til allra þeirra þátta sem snúa að útgerð og fiskvinnslu. Fyrir nokkrum árum var töluvert af úthlutuðum byggðakvóta og línuívilnun landað í Snæfellsbæ en í dag er þetta aðeins smá hluti af því sem var. Mikilvægt er að þegar úthlutað verður úr 5,3% pottinum, eða honum skipt upp, að hugsað sé um þau byggðalög þar sem útgerð er mikilvægur þáttur í atvinnulífinu ekki bara að horfa til hinna veiku byggða. Það skiptir máli að gleyma því ekki að það þarf að vinnan aflann og þar kemur þáttur landverkafólks sterkur inn. Þeirra framlag til atvinnusköpunar er mikilvægt en því miður gleymist oft þeirra hlutur.
Bókunin borin fram og samþykkt samhljóða.
Auður, Fríða og Margrét Sif komu nú aftur inn á fundinn.
13. Bréf frá Stígamótum, dags. 30. ágúst 2023, varðandi beiðni um framlag á árinu 2024.
Bæjarstjórn sér sér því miður ekki fært að verða við beiðninni að þessu sinni.
14. Bréf frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga, dags. 20. september 2023, varðandi skólaakstur á vorönn.
Lagt fram til kynningar.
15. Bréf frá Skógræktarfélagi Íslands, dags. 13. september 2023, varðandi ályktun um skógarreiti og græn svæði innan byggðar.
Lagt fram til kynningar.
16. Bréf frá leikskólastjóra og byggingarfulltrúa, dags. 25. september 2023, varðandi stækkun á leikskólanum Krílakoti í Ólafsvík.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að óska eftir kostnaðaráætlun frá leikskólastjóra og byggingarfulltrúa svo hægt sé að taka tillit til þessarar framkvæmdar í fjárhagsáætlun 2024. Bæjarstjórn óskaði jafnframt eftir því að fá myndrænt hvernig húsið, með stækkuninni, fellur inn í umhverfið og hvernig aðkomunni verður breytt eftir framkvæmdirnar.
17. Útleigureglur fyrir félagsheimili Snæfellsbæjar.
Bæjarstjórn samþykkti reglurnar samhljóða.
18. Ráðning forstöðumanns Jaðars.
Starf forstöðumanns Jaðars var auglýst laust til umsóknar í ágúst. Ein umsókn barst um starfið og á síðasta bæjarstjórnarfundi fól bæjarstjórn bæjarstjóra og bæjarritara að ræða við umsækjanda. Samningar gengu vel og liggur nú fyrir ráðningarsamningur við Sigrúnu Erlu Sveinsdóttur um starf forstöðumanns Jaðars.
Bæjarstjórn samþykkti ráðninguna samhljóða.
19. Minnispunktar bæjarstjóra.
- Skoðanakönnun um húsnæðisúrræði fyrir 60 ára og eldri í Snæfellsbæ. Bæjarritari fór yfir niðurstöður könnunarinnar.
- Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðslu mánaðarins.
- Bæjarstjóri fór yfir það að búið er að kaupa nýja varmadælu í Klif, en sú sem var í húsinu er ónýt.
- Það verður fundur með þingmönnum í Borgarnesi þann 3. október.
- Komið er kauptilboð í Bárðarás 1 sem búið er að samþykkja með fyrirvara.
- 4. október er fundur í Reykholti með umhverfisráðherra um ofanflóðamál.
- Bæjarstjóri ræddi sorpmál.
- Bæjarstjóri sagði frá heimsókn frá úkraínskum listamönnum.
- Það þarf að setja upp fjarfund með umhverfis- og skipulagsnefnd, starfsfólki tæknideildar og bæjarstjórn vegna vindorkumála.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.22.