Bæjarstjórn

261. fundur 10. júní 2014 kl. 13:43 - 13:43

261. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, haldinn fimmtudaginn 3. apríl 2014, og hófst hann kl. 16:00 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar

Mættir:

Jón Þór Lúðvíksson

Kristín Bj. Árnadóttir

Kristjana Hermannsdóttir

Rögnvaldur Ólafsson

Kristján Þórðarson

Drífa Skúladóttir

Fríða Sveinsdóttir

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Lilja Ólafardóttir, bæjarritari

Forseti bæjarstjórnar setti fund og bauð fundarmenn velkomna á fundinn. Óskaði hann eftir að fá að taka inn með afbrigðum sem 1. lið, fundargerð 254. fundar bæjarráðs, dags. 3. apríl 2014, og sem 23. lið, erindi frá Búnaðarfélagi Staðarsveitar, dags. 2. apríl 2014. Var það samþykkt samhljóða og svo gengið beint til boðaðrar dagskrár.

Dagskrá bæjarstjórnarfundarins:

1.    Fundargerð 254. fundar bæjarráðs Snæfellsbæjar, dags. 3. apríl 2014. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

2.    Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2013. Fyrri umræða. Endurskoðendur Snæfellsbæjar, Jónas Gestur Jónasson og Kristinn Kristófersson, mættu á fundinn og voru þeir boðnir velkomnir. Fóru þeir yfir helstu tölur í ársreikningi 2013. Kom þar meðal annars fram að rekstur Snæfellsbæjar gekk vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan nokkuð betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 1.847 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.735 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.460 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.387 millj. króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 165 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 61,4 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 103,6 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 107,7 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 61,9 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 45,8 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 2.390 milllj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 1.915 millj. króna. Eiginfjárhlutfall er 57,44% á á árinu 2013 en var 57,50 árið áður.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 850,6 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 147 stöðugildum í árslok.

Veltufé frá rekstri var 184 millj. króna og veltufjárhlutfall er 1,38. Handbært frá rekstri var 199 millj. króna.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.333 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 4.203 millj. króna í árslok 2013. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.419 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.813 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 97 milljónir.

Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 261,3 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán upp á 171,3 millj. króna. Greidd voru niður lán að fjárhæð 165,3 milljónir.

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum (skuldahlutfallið) er 87,62% hjá sjóðum A-hluta, en var 82,8% árið 2012, og 90,62% í samanteknum ársreikningi en var 88,84 árið 2012. Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%

Svöruðu endurskoðendur spurningum bæjarfulltrúa og varð nokkur umræða um reikninginn að yfirferð lokinni.

Var nú endurskoðendum þökkuð koman og véku þeir af fundi.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa ársreikningi Snæfellsbæjar og stofnana hans fyrir árið 2013, til síðari umræðu í bæjarstjórn þriðjudaginn 29. apríl 2014.

3.    Fundargerð 82. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 25. mars 2014. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

4.    Fundargerð 111. fundar hafnarstjórnar Snæfellsbæjar, dags. 31. mars 2014. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.    Fundargerð 139. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 4. mars 2014. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.    Fundargerð 45. stjórnarfundar Jeratúns ehf., dags. 25. mars 2014. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.    Fundargerðir 1. og 2. fundar starfshóps um fjölnota íþróttahöll, dags. 21. janúar og 10. mars 2014.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fresta afgreiðslu erindisins, enda taldi hún ekki rétt, þar sem núverandi kjörtímabili er að ljúka, að skuldbinda nýja bæjarstjórn til þessa verkefnis.

8.    Fundargerð stjórnarfundar Sorpurðunar Vesturlands, dags. 27. febrúar 2014. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

9.    Fundargerð 363. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 28. febrúar 2014. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

10.    Fundargerð 813. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. febrúar 2014. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.    Fundargerð 814. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 21. mars 2014. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.    Bréf frá Velferðarráðuneytinu, dags. 20. mars 2014, varðandi viðbótarhjúkrunarrými á Jaðri. Bæjarstjórn fagnar þessu viðbótarhjúkrunarrými.

13.    Bréf frá umhverfis- og skipulagsnefnd, dags. 26. mars 2014, varðandi ósk bæjarstjórnar um umsögn nefndarinnar vegna svæðisskipulags.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að koma athugasemdum nefndarinnar á framfæri við stýrihóp Svæðisgarðsins.

14.    Bréf frá Björgu Ágústsdóttur, dags. 27. mars 2014, varðandi stofnsáttmála og stjórnunaráætlun svæðisgarðs.

Bæjarstjórn samþykkti stofnsáttmálann og stjórnunaráætlunina fyrir sitt leyti með 5 atkvæðum. Drífa og Fríða sátu hjá.

15.    Bréf frá SSV, dags. 14. mars 2014, varðandi framlög sveitarfélaga til Menningarsamnings Vesturlands.

Lagt fram til kynningar.

16.    Bréf frá Jeratúni ehf., dags. 24. mars 2014, varðandi hlutafjáraukningu aðildarsveitarfélaga árið 2014.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða hlutafjáraukningu í Jeratúni ehf. að upphæð kr. 11.000.000.- fyrir árið 2014, enda er gert ráð fyrir slíku í fjárhagsáætlun ársins.

17.    Bréf frá Auði Sigr. Kristinsdóttur, dags. 20. mars 2014, varðandi verkefnið „Saga upplýsingatækni á Íslandi“.

Bæjarstjórn sér sér ekki fært að styrka verkefnið að þessu sinni.

18.    Bréf frá umhverfis- og skipulagsnefnd, dags. 26. mars 2014, varðandi ósk bæjarstjórnar um umsögn nefndarinnar vegna betrumbóta á búningaaðstöðu við Lýsuhólslaug.

Lagt fram til kynningar.

19.    Málefni Lýsuhólslaugar og framkvæmda við hana. Vísað til bæjarstjórnar úr bæjarráði. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða aukafjárveitingu að upphæð kr. 8.000.000.- til þessa verkefnis. Aukafjárveiting fer á lið 31-58, Lýsuhóll, sundlaug, og er tekin af lið 27-11, Ófyrirséður kostnaður.

20.    Bréf frá Magnúsi Eiríkssyni, dags. 13. mars 2014, varðandi úrsögn úr kjörstjórn Ólafsvíkurdeildar.

Bæjarstjórn samþykkti úrsögnina samhljóða og þakkar Magnúsi vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.

Tillaga kom um Jennýju Guðmundsdóttur í hans stað og var tillagan samþykkt samhljóða.

21.    Tilnefning aðalmanns í kjörstjórn Hellissandsdeildar.

Tillaga kom um Guðbjörgu Jónsdóttur og var tillagan samþykkt samhljóða.

22.    Framkvæmdaáætlun Snæfellsness 2014-2018. Gögn áður send í tölvupósti. Bæjarstjórn samþykkti áætlunina samhljóða fyrir sína hönd.

23.    Erindi frá Búnaðarfélagi Staðarsveitar, dags. 2. apríl 2014, varðandi fjölgun minka. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að auka fjármagn til minkaveiða í þeim tilgangi að reyna að halda fjölda þeirra niðri.

24.    Minnispunktar bæjarstjóra.

a)    Bæjarstjóri fór yfir staðgreiðsluyfirlit fyrstu þriggja mánaða ársins

b)    Bæjarstjóri fór yfir rekstraryfirlit stofnana Snæfellsbæjar fyrir janúar og febrúar. c)    Bæjarstjóri fór yfir vatnsverksmiðjumál.

d)    Bæjarstjóri fór yfir vatnsveitumál í Ólafsvík.

e)    Bæjarstjóri sagði frá því að 46 nýjar spjaldtölvur hafa verið teknar í notkun við Grunnskóla Snæfellsbæjar.

f)    Bæjarstjóri fór yfir kostnaðinn við sundlaugarframkvæmdirnar.

g)    Bæjarstjóri sagði frá fundi með þingmönnum NV-kjördæmis í vikunni vegna raforkumála.

h)    Næsti bæjarstjórnarfundur verður þriðjudaginn 29. apríl kl. 16:00.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:45

____________________________

Jón Þór Lúðvíksson

____________________________

Kristjana Hermannsdóttir

____________________________ Kristín Björg Árnadóttir

____________________________

Rögnvaldur Ólafsson

____________________________

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

___________________________

Kristján Þórðarson

___________________________

Fríða Sveinsdóttir

___________________________

Drífa Skúladóttir

___________________________ Lilja Ólafardóttir, bæjarritari

Getum við bætt efni þessarar síðu?