Rekstrarnefnd Félagsheimilisins Klif
- október 2012
Mætt:
Lilja Ólafardóttir
Jóhannes Ólafsson
Jenný Guðmundsdóttir
Unnur Emanúelsdóttir
Emanúel Ragnarsson.
Þörf á framkvæmdum!
1) Húsið lekur, sér í lagi í eldhúsinu og yfir sviðinu. Reynt hefur verið að gera við lekann í eldhúsinu til bráðabirgða, en á meðan á fundinum stóð var rigning og það var stöðugur straumur af regnvatni úr eldhúsloftinu, niður á gólf og eftir gólfinu að niðurfallinu. Þetta er frekar ljótt að sjá og þyrfti að gera við þetta sem allra fyrst. Vitað er að það er maður að koma í lagfæringar á þakinu hjá Vör og fiskasafninu, og vill nefndin fara fram á það að reynt verði að nýta ferð þessa manns hingað vestur og fá hann til að skoða og laga þakið á Klifi. Allavega yfir eldhúsinu og eldhúsganginum að sviðinu.
2) Það er orðið bráðnauðsynlegt að skipta um þakkantinn og laga skyggnið við aðalinngang hússins. Teljum við best nota stallað innbrent bárujárn í stað timburs. Það ætti jafnframt að vera ódýrasta lausnin.
3) Stéttin fyrir framan húsið er farin að verða slysagildra. Nefndin fór fram á það síðastliðið haust að hún yrði löguð, en það hefur ekki enn verið gert. Við ítrekum að þetta er orðið nauðsynlegt.
4) Í fyrra var rætt um að það væri kominn tími á að endurnýja þakdúkinn á stóra þaki hússins. Við ítrekum að það væri gott að fara að huga að því, og væri mjög gott ef hægt væri að fara í það næsta vor.
5) Það þarf að taka bláa salinn í gegn. Það þarf að mála hann, skipta um gler og gardínur og ljósakúpla. Það er að vísu búið að panta gler og ljósakúplarnir eru til, svo það er bara spurning um að framkvæma þessa hluti.
6) Sú hugmynd hefur komið upp að opna á einhvern hátt inn í bláa salinn, þó þannig að hægt sé að loka hann af þegar á þarf að halda. Þegar stórir viðburðir eru í húsinu þegar dekkað er upp fyrir mat, þá er orðið oftast nær þörf á fleiri sætum, en eins og staðan er núna er ekki hægt að bjóða fólk upp á að sitja í bláa salnum þar sem hann er alveg einangraður frá stóra salnum. Ef hægt væri að opna á milli með stórum gluggaopun – sem svo væri hægt að loka með hlerum – þá væri hægt að mæta þessari auknu sætaþörf.
7) Okkur þykir vera þörf á því að það verði athugað hver kostnaðurinn væri við að loka kaffisalnum með rennihurð/flekum í stað þess að vera með tjöldin, sem safna bara í sig ryki og loka í raun engu. Við teljum að það myndi jafnvel lækka hitunarkostnað í húsinu ef hægt væri að loka kaffisalinn af, þar sem oft er þörf á hita í litla salnum en ekki í þeim stóra.
8) Húsið er farið að vera nokkuð sjúskað, og nefndin telur að það sé komin þörf á alþrif, eins og farið var í fyrir allmörgum árum. Tjöldin eru rykug og allir veggir orðnir blettóttir og klístraðir. Vill nefndin fara fram á að fá leyfi til að athuga hvort félagasamtök séu tilbúin til að fara í þessi alþrif eins og áður hefur verið gert.
Eldri borgarar
1) Við viljum fara fram á það við bæjarstjórn hvort ekki sé hægt að kanna hvort hægt sé að finna ofnum eldri borgara annað og betra húsnæði en Klif. Aðstaðan sem eldri borgarar eru með í kjallaranum í Klifi er algjörlega óhæf. Loftið er rykmettað, stiginn er erfiður og brattur, og eldhætta er af ofnunum.
2) Nefndin vill fara fram á það að leiga í Klifi fyrir starfsemi eldri borgara verði hækkuð. Leigan er búin að vera sú sama frá upphafi, en starfsemin hefur undið upp á sig, bæði í tíma og rúmi.
3) Nefndin vill jafnframt fara fram á það að eldri borgarar verði rukkaðir fyrir þrifum á húsinu eftir notkun. Eins og staðan er í dag þá er illa gengið frá húsinu og það ekki útleiguhæft þegar starfsemi eldri borgara hefur verið þar.
Annað
1) Kyndingarmálin virðast vera komin í ágætis horf.
2) Ekkert hefur lekið á kvennaklósettunum, svo það virðist vera búið að komast fyrir þann leka.
3) Nefndin hefur áhuga á að athuga hvort ekki er hægt að gera fastan samning við hljóðmann og þar með gera hann að vissu marki ábyrgan fyrir hljóðkerfinu í húsinu og öllu sem því fylgir.
Fundi slitið kl. 12:50