Rekstrarnefnd Félagsheimilisins Klif
Jenný Guðmundsdóttir
Jensey Skúladóttir
Lilja Ólafardóttir
Emanúel Ragnarsson
1) Fyrsta mál á dagskrá var fjárhagsstaða félagsheimilisins á árinu 2002 og var ánægjulegt að sjá að útgjöld höfðu staðist fjárhagsáætlun nokkuð vel. Næst var lögð fyrir fjárhagsáætlun ársins 2003 og hún kynnt.
2) Í framhaldi af fjárhagsáætlun 2003 var rætt um þær framkvæmdir sem hvað brýnastar eru á árinu. Þakkanturinn er ónýtur og teljum við mikilvægt að athuga kostnaðinn við að lagfæra hann. Einnig þykir okkur nauðsynlegt að ljúka við hreingerningu á húsinu en frekar lítið er eftir og slæmt að láta það dankast. Rætt var um að fá Flygilsjóð til að ljúka verkinu, enda er það sem búið er einstaklega vel gert. Einnig var rætt um að taka teppið af gólfinu fyrir framan barinn og setja þar parket, en Emmi var búinn að athuga kostnaðinn við það og rýmist hann vel innan fjárhagsáætlunar.
3) Þar sem atvinnuleysi er að aukast og bæjarstjórn hefur samþykkt að athuga hvar hægt er að fara í átaksverkefni í bæjarfélaginu viljum við benda á eitt slíkt en það er vinna við lóð Félagsheimilisins á Klifi. Akranesbær hefur fengið eitt slíkt sumarverkefni fyrir tvær manneskjur sem fól í sér gróðursetningu, göngustígagerð o.fl. á ákveðnu svæði.
4) Varðandi framkvæmdir við húsið þá hafa nefndarmönnum borist kvartanir vegna slæms aðgengis að húsinu og viljum við enn og aftur fara fram á það að aðgengið verði lagað og planið lækkað til að koma í veg fyrir pollasöfnun við innganginn. Okkar hugmynd er sú að þegar verktakar fara að gera grjótgarðinn við höfnina verði þeir og þeirra stórvirku tæki nýtt til að ganga frá þessu verki í eitt skipti fyrir öll.
5) Í rokinu í síðustu viku fauk kona á planinu fyrir framan Klif og myndum við gjarnan vilja láta athuga hvað er hægt að gera í svona roktilfellum. Rætt var um að hreinlega banna að leggja fyrir framan anddyrið þannig að hægt sé að sækja bílana og renna síðan upp að anddyrinu til að sækja farþegana. Einnig kom upp hugmynd um að láta gera einhvers konar skýli útfrá útidyrunum sem hægt væri að keyra inní þegar sækja á farþega.
6) Nýverið hafa menningarhús á landsbyggðinni komið aftur í umræðu eftir nokkurt hlé. Nefndin óskar eftir því að athygli menntamálaráðherra verði aftur vakin á þessu glæsilega félagsheimili sem staðsett er hér í Snæfellsbæ. Betra hús er varla hægt að hugsa sér sem menningarhús og hér höfum við það fram yfir aðra að húsið er til staðar og því þarf ekki að eyða fjármunum og tíma í að byggja áður en hægt er að taka menningarhúsið í notkun. Þar af leiðandi myndu þeir fjármunir sem úthlutað er til menningarmála að fara nánast óskiptir til menningarviðburða en ekki til byggingar húsa.
7) Búið er að koma myndum og smátexta til Jóa í Steinprent og ætlar hann að útbúa “Klifmöppu” til prufu svo við getum gert okkur einhverja grein fyrir því hvernig þetta á að líta út – auk kostnaðar við möppuna.
8) Sú hugmynd kom upp að reyna að ná upp einhverju samstarfi milli félagsheimilisins og þjónustuaðila í Snæfellsbæ. Þar sem atvinnu- og ferðamálanefnd hefur byrjað á því átaki núna með fyrirhugaðri útivistarhelgi var rætt um að halda sameiginlegan fund með nefndarmönnum atvinnu- og ferðamálanefndar og jafnvel líka með Ásthildi Sturludóttur, ferðamálafulltrúa Vesturlands.
9) Emma var falið að hafa samband við leikhús um land allt til að athuga hvort einhver möguleiki er að fá hingað leiksýningar. Rætt var um “Sól og mána”, söngleikinn í Borgarleikhúsinu þar sem leikmyndin þar er ekki mikil. Einnig var talað um að fá leikritið “Með fullri reisn”.
10) Rætt var um að vera með unglingaball á Jónsmessunni og athuga hvað það myndi kosta að fá Írafár til að spila. Ef það er ekki alltof dýrt þá myndum við reyna að fá þau til að vera með tónleika fyrir yngri kynslóðina fyrr um daginn og spila á unglingaballi um kvöldið.
11) Af gefnu tilefni ætlar nefndin að verða sér út um skriflegt plagg frá Ríkislögreglustjóra þar sem kemur fram svart á hvítu hvert aldurstakmarkið er á böllum þar sem barinn er opinn. Lögin segja það að 16 ára unglingar mega koma inn á slík böll þegar þeir koma í fylgd meðforeldrum eða forráðamönnum en þeir þurfa að sama skapi að fara af ballinu um leið og foreldrarnir. Þetta plagg á að hafa hangandi upp í félagsheimilinu.
12) Að lokum var samþykkt að senda Lionsklúbbi Ólafsvíkur þakkarbréf fyrir þá rausnarlegu gjöf sem þeir hafa gefið Félagsheimilinu á Klifi.
Fleira ekki gert og fundi slitið
Jenný Guðmundsdóttir
Jensey Skúladóttir
Emanúel Ragnarsson
Lilja Ólafardóttir