Ærslabelgir í Ólafsvík og á Hellissand

Haustið 2018 var samþykkt í fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2019 að fjárfesta í tveimur ærslabelgjum og finna þeim stað, einum í Ólafsvík og öðrum á Hellissandi. Um er að ræða leiktæki sem notið hefur gríðarlegra vinsælda meðal barna á öllum aldri og stuðlar að aukinni útivist og hreyfingu.

Nú hefur verið ákveðið hvar ærslabelgir verða staðsettir og undirbúningur hafinn við að koma þeim fyrir. Ærslabelgirnir eru hvor um sig um 100 fermetrar að stærð og fylgir því töluverð framkvæmd að koma þeim haganlega fyrir og þarf m.a. að huga að stærð svæðis, undirlagi og aðgengi að rafmagni.

Í Ólafsvík verður belgurinn staðsettur á opna svæðinu fyrir neðan heilsugæslustöðina. Á Hellissandi verður hann við Munaðarhólinn. Sjá meðfylgjandi myndir (ærslabelgir merktir með rauðum punkti).

Í gær hófst uppsetning í Ólafsvík og í kjölfarið verður farið á Hellissand. Vonast er til að uppsetningu verði lokið á báðum stöðum í næstu viku og er því ekki langt að bíða þess að þeir verði teknir í notkun.