Áhrif kvennaverkfalls á þjónustu Snæfellsbæjar
Boðað er til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október nk. undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“
Konur og kvár hafa verið hvött til að leggja niður launaða og ólaunaða vinnu þann 24. október nk. líkt og konur gerðu þegar fyrst var boðað til kvennafrís árið 1975. Þá lögðu 90% kvenna niður störf á Íslandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.
Ljóst er að starfsemi Snæfellsbæjar er að miklu leyti háð vinnuframlagi kvenna. Snæfellsbær tekur undir þau meginmarkmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf, jafnt launuð sem ólaunuð, skuli meta að verðleikum. Snæfellsbær vill sýna samstöðu á kvennafrídaginn og þær konur og kvár, sem að höfðu samráði við stjórnanda, óska eftir að taka þátt í deginum og viðburðum í tengslum við þennan dag munu ekki verða fyrir launaskerðingu.
Í bréfi frá skipuleggjendum kemur fram ríkur skilningur á því að sum starfsemi sé þess eðlis að ekki sé hægt að leggja störf alfarið niður án þess að stofna öryggi og heilsu fólks í hættu.
Starfsemi stofnana Snæfellsbæjar þann 24. október verður með eftirfarandi hætti:
Sundlaug Snæfellsbæjar verður lokuð, en íþróttahúsið verður opið.
Grunnskóli, tónlistarskóli og leikskóli eru í vetrarfríi.
Bókasafnið verður lokað.
Móttaka og símsvörun á bæjarskrifstofu og skrifstofu Félags- og skólaþjónustu verður lokuð og starfsemi mjög skert. Hægt verður að senda tölvupóst á snb@snb.is fyrir Snæfellsbæ og fssf@fssf.is fyrir félagsþjónustuna.