Áhrif verkfallsaðgerða og staða viðræðna milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga
Verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BSRB hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur halda áfram mánudaginn 5. júní þar sem ekki náðust samningar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB. Hafa því félagsmenn Kjalar lagt niður störf frá og með deginum í dag í sundlaug Snæfellsbæjar í Ólafsvík, Lýsulaugum, áhaldahúsi, ráðhúsi og leikskóla.
- Sundlaug Snæfellsbæjar í Ólafsvík: ótímabundið verkfall starfsfólks frá og með 5. júní.
- Lýsulaugar: ótímabundið verkfall starfsfólks frá og með 5. júní.
- Áhaldahús: tímabundið verkfall frá 5. – 16. júní. Við vekjum athygli á því að allir starfsmenn áhaldahúss, að undanskildum verkstjóra, verða í verkfalli þessa daga. Sumarstarfsfólk sem hefur verið ráðið til starfa fara líka í verkfall.
- Vinnuskóli Snæfellsbæjar: Ótímabundið verkfall frá og með 5. júní. Vinnuskólinn á að óbreyttu að hefjast þann 7. júní, en ef af verkfall verður mun enginn vinnuskóli verða fyrr en því lýkur. Fyrirkomulag vinnuskóla í því tilviki verður auglýst síðar.
- Ráðhús Snæfellsbæjar: verkfall starfsfólks í Kili, sem ekki eru undanþegnir verkfallsheimild, frá 5. júní – 5. júlí. Ráðhúsið verður opið, en starfsemi takmörkuð við það starfsfólk sem verður ekki í verkfalli.
- Leikskólar Snæfellsbæjar: tímabundið verkfall starfsfólks í Kili frá 5. júní – 5. júlí. Starfsemi leikskóla Snæfellsbæjar takmarkast mjög mikið ef af verkfalli verður. Ekki verður hægt að bjóða öllum börnum vistun þó reynt verði að bjóða flestum einhverja vistun í hverri viku. Þar sem verkföllin hafa meiri áhrif á sumum deildum leikskólans en öðrum, þá er því miður ekki hægt að bjóða öllum börnum jafna vistun. Tvær deildir verða alveg lokaðar og því enga vistun að fá á þeim.
Staða viðræðna
BSRB hefur krafist sömu laun fyrir sömu störf, en sambandið hefur bent á að forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB beri alfarið ábyrgð á því að félagsmenn þeirra fengu ekki launahækkanir um síðustu áramót líkt og forysta Starfsgreinasambands Íslands (SGS) samdi um árið 2020.
Bæði BSRB og SGS bauðst árið 2020 kjarasamningur með gildistíma út september 2023. Með þeim samningi fylgdi ný launatafla (launatafla 5) sem tók gildi 1. janúar 2023. Forysta SGS samþykkti slíkan samning en forysta BSRB hafnaði samningnum alfarið en samdi þess í stað um styttri samningstíma, til 31. mars 2023, án launatöflu 5.
Á vef sambandsins kemur fram að samninganefnd Sambandsins hafi ítrekað lagt fram ný tilboð sem forysta BSRB hefur hafnað en það síðasta inniheldur í megin atriðum eftirfarandi:
- 50.000 kr. til 60.000 kr. hækkun lægstu launa á mánuði frá 1. apríl 2023, sem nær til um helmings félagsmanna.
- 55.700 kr. persónuuppbót þann 1. maí 2023.
- 130.900 kr. persónuuppbót þann 1. desember 2023.
Þá kemur á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga að stjórn þess vísi allri ábyrgð á verkfallsaðgerðum á forystufólk BSRB og að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi á undanförnum vikum skrifað undir kjarasamninga við fjölda stéttarfélaga. Meðal annars hefur verið skrifað undir samninga við ellefu aðildarfélög BHM, Eflingu, KVH, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara.