Allar æfingar hjá ungmennafélaginu falla niður til 14. apríl
Engar æfingar verða á vegum Ungmennafélagsins Víkings/Reynis til 14. apríl nk., eða á meðan samkomubann stendur yfir á landinu. Er ungmennafélagið að fylgja tilmælum frá ÍSÍ þar sem mælst er til þess að allt skipulagt íþróttastarf á Íslandi falli niður til að sporna við útbreiðslu kórónaveirunnar.
Eftir samráð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og mennta- og menningarmálaráðuneytisins síðastliðna viku hefur komið í ljós að framkvæmd þessara ráðstafana hefur reynst flókin. Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur.