Almyrkvi á sólu 2026 - stórviðburður
Almyrkvi á sólu verður sjáanlegur frá Íslandi þann 12. ágúst 2026 í fyrsta skipti síðan 1954.
Almyrkvi á sólu þykir ein stórfenglegasta sýning náttúrunnar og er sjaldséð sjón. Eftir almyrkvann árið 2026 liggur almyrkvi næst yfir Íslandi árið 2196.
Ísland verður besti staður í heiminum til að sjá þennan almyrkva. Myrkvaslóðin liggur yfir vesturhluta landsins og verður almyrkvinn sérstaklega áberandi víða í Snæfellsbæ, lengst í 2 mínútur og 10 sekúndur.
Búast má við töluverðum fjölda gesta til Snæfellsbæjar í tilefni af viðburðinum og hefur Snæfellsbær þegar hafið undirbúning hans ásamt Snæfellsjökulsþjóðgarði, Markaðsstofu Vesturlands, Svæðisgarðinum Snæfellsness og Vegagerðinni.
Hvað er almyrkvi?
Almyrkvi á sólu er þegar tunglið gengur milli sólarinnar og jarðar og skyggir á sólu að fullu, þannig að dagsbirtan hverfur tímabundið. Almyrkvi er aðeins þegar 100% sólar er myrkvuð. Erfitt er að lýsa hughrifunum og upplifuninni af þessu stórkostlega náttúruundri. Nánari upplýsingar um allt sem viðkemur sólmyrkvanum má lesa á heimasíðunni solmyrkvi2026.is.
Ljósmynd: Sævar Helgi Bragason