Alþjóðlegt þríþrautarmót verður haldið á Snæfellsnesi í sumar

Drónamynd af hlaupaleið. Mynd: Aaron Palaian.

Alþjóðlegt þríþrautarmót verður haldið á Snæfellsnesi í sumar. Mótið verður haldið laugardaginn 27. júlí og er keppnisfyrirkomulag með þeim hætti að um heilan járnmann er að ræða. Vegalengdir eru 3862 metra sund, 195 km hjól og 43,5 km hlaup.

Keppni hefst klukkan fjögur aðfaranótt laugardagsins við bæinn Eiði í Kolgrafafirði á tæplega fjögurra km löngu sjósundi. Að því loknu verður hjólað 195 km leið um Snæfellsnes; frá Kolgrafafirði og út fyrir Jökul, þvert í gegnum Snæfellsbæ að sunnanverðu, yfir Vatnaleiðina og til Ólafsvíkur. Að endingu verður hlaupið heilt maraþon yfir Jökulhálsinn; frá Ólafsvík að Arnarstapa og aftur til baka. Bækistöðvar mótsins verða í Ólafsvík.

Keppnisfyrirkomulagið gerir ráð fyrir allt að 250 keppendum en ekki er útséð með fjölda á þessum tímapunkti. Þó er ljóst að fjölmargir þaulvanir keppendur frá öllum heimshornum verði á meðal keppenda þar sem skráning fór vel af stað í desember síðastliðnum. Gera má ráð fyrir að flestum keppendum fylgi einhver hópur fólks sem muni dvelja á Snæfellsnesi og er svona alþjóðlegt mót því góð viðbót í fjölbreytileikann í ferðaþjónustu hér á Snæfellsnesi.

Mótshaldarar koma frá Bandaríkjunum, Extreme Endurance Events, og eru aðrar keppnir á þeirra vegum haldnar árlega í Alaska og á Havaí. Þess má geta að þeir leituðu sérstaklega eftir því að mótið yrði haldið hér á Snæfellsnesi og skyldi engan undra. Þeim innan handar eru íslenskir aðilar sem staðið hafa að þríþrautarmótum hér á landi og því vanir einstaklingar sem koma að skipulagningu mótsins. Fyrir áhugasama fylgja hér að neðan myndir af keppnisleiðum.

Tenglar:

Vefsíða Extreme Endurance Events