Ársreikningur 2017
Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans var tekinn fyrir í fyrri umræðu í bæjarstjórn Snæfellsbæjar í gær, miðvikudaginn 11. apríl 2018.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.
Við yfirferð á ársreikningi kom fram að rekstur Snæfellsbæjar hafi gengið vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 262,9 millj. króna í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta.
Athygli vekur að útsvar er nánast það sama milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 var útsvarið 909,1 millj. króna en árið 2017 var útsvarið 909,4 millj. króna. Ástæðu þessarar jákvæðu rekstrarniðurstöðu er að rekja til mun hærri framlaga til Snæfellsbæjar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 392,6 millj. króna sem var í takt við áætlun Jöfnunarsjóðs í byrjun árs 2017, en niðurstaðan varð hins vegar framlög upp á 522,1 millj. króna.
Segja má að rekstur Snæfellsbæjar hafi verið nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og forstöðumönnum til sóma.
Helstu lykiltölur ársreiknings eru taldar hér:
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.314,2 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.108,4 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.876 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.670 millj. króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 262,9 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 31,4 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 294,3 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 137,1 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 47,4 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 184,5 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.311 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.550 millj. króna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.153,4 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 136 stöðugildum í árslok.
Veltufé frá rekstri var 237 millj. króna og veltufjárhlutfall er 0,93. Handbært frá rekstri var 245 millj. króna.
Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.870 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.072 millj. króna í árslok 2017. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.320 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.761 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 112 milljónir.
Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.549,8 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 3.311 millj. króna í árslok 2017. Eiginfjárhlutfall er 65,89 % á á árinu 2017 en var 65,92% árið áður.
Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 535 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán á árinu 2017 upp á 220 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 143,9 milljónir.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 62,95% hjá sjóðum A-hluta, en var 61,64% árið 2016, og 69,49% í samanteknum ársreikningi en var 64,48% árið 2017. Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.