Ársreikningur 2019 samþykktur samhljóða - góð fjárhagsstaða
Rekstur Snæfellsbæjar gekk vel á síðasta ári og skilaði 325 milljóna króna afgangi. Er það töluvert betri niðurstaða en sá 53 milljóna króna afgangur sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun, eða sem nemur 272 milljónum króna. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi í gær þar sem ársreikningur Snæfellsbæjar var samþykktur samhljóða eftir síðari umræðu.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 2.652 milljónum króna á árinu, samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta. Þar af námu rekstrartekjur A hluta 2.107 milljónum, en rekstrarniðurstaða A hlutans var jákvæð um 218 milljónir króna, en gert hafði verið ráð fyrir sex milljóna afgangi. Afkoma A hlutans var því 266 milljónum betri en áætlað hafði verið.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.901 milljón króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé A hluta 2.959 milljónum.
Laun og launatengd gjöld Snæfellsbæjar námu 1.292,8 milljónum króna á árinu 2019, en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 145 stöðugildum í árslok. Veltufé frá rekstri var 381,4 milljónir á síðasta ári og veltufjárhlutvallið 0,76. Handbært fé frá rekstri var 216,6 milljónir króna.
Heildareignir bæjarsjóðs námu 4.432,4 milljónum króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningu námu 5.697,2 milljónum króna í árslok 2019. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu 1.473,2 milljónum. Í samanteknum ársreikningi námu skuldir um 1.796,2 milljónum og lækkuðu um 145,4 milljónir milli ára.Eigið fé bæjarsjóðs nam 2.959,2 milljónum króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam 3.900,9 milljónum í árslok. Eiginfjárhlutfallið var 66,76% á árinu 2019 en var 63,43% árið áður. Snæfellsbær fjárfesti fyrir 457,1 milljón í varanlegum rekstrarfjármunum á síðasta ári. Engin ný lán voru tekin.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 49,76% hjá sjóðum A hluta, en var 51,46% árið 2018. Hlutfallið var 46,33% í samanteknum ársreikningi en 51,63% árið 2018. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má hlutfallið ekki vera hærra en 150%. „Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.“