Bætt umferðaröryggi á Ennisbraut við skóla og sundlaug
Í samráði við Vegagerðina hefur verið ákveðið að setja svokallaðar gagnvirkar hraðahindranir á Ennisbrautina. Í götuna verður sett kerfi sem virkar þannig að sé ökutæki ekið yfir leyfilegum hámarkshraða ræsir það hraðahindrun sem er felld inn í yfirborð akreinarinnar.
Hraðahindrun myndast með því að hleri fellur niður um nokkra sentímetra niður í yfirborðið, einungis í þeim tilvikum sem ökutæki er ekið yfir leyfilegum hámarkshraða.
Um er að ræða spennandi verkefni, það fyrsta sinnar tegundar hér á landi, en þessi lausn þekkist víða erlendis. Gagnvirkar hraðahindranir geta verið góðar lausnir þar sem þarf að útfæra öruggt umhverfi vegna umferðarhraða. Virkar hraðahindranir geta einnig verið góð lausn þar sem mikilvægt er að viðhalda jöfnu umferðarflæði og góðu aðgengi fyrir allar gerðir ökutækja.
Í síðustu viku komu aðilar Vegagerðarinnar í vettvangsferð og skoðuðu Ennisbrautina ásamt fulltrúum Snæfellsbæjar. Gangi allt af óskum má gera ráð fyrir að gagnvirk hraðahindrun verði komin á Ennisbrautina snemma í sumar.